Það bregst ekki að eitt af stærstu kosningaloforðum hverra einustu borgarstjórnarkosninga eru loforð um nýjar íbúðir. Kosningarnar í ár eru engin undantekning. En loforð efnast ekki sjálfkrafa. Íbúðir byggja sig ekki sjálfar. Einn flokkanna lofar til dæmis 3.000 nýjum íbúðum á ári. En hvernig á að efna svona loforð?
Í gegnum árin hafa hægriflokkarnir aldrei boðið aðra lausn en að auka framboð á lóðum, meðan hin eiginlega framkvæmd – að byggja og reka þetta húsnæði – er alfarið sett í hendur hins svokallaða markaðar. Hin ósýnilega en hagsýna hönd markaðurins muni sjá til þess að vandamálið leysist.
En það er einmitt markaðurinn sem er vandamálið.
Hin ósýnilega hönd markaðarins skilur bara eitt og aðeins eitt: Hagnað. Hennar kalda leiðarljós er hámarksarðsemi af peningum. Tilgangur húsnæðis er hins vegar að veita fólki skjól og heimili, ekki að búa til meiri peninga handa fólki sem á alveg nóg af þeim fyrir. Þetta eru einfaldlega tvö gerólík markmið, og niðurstaðan fer eftir því að hvaða markmiði er stefnt.
Með því að gefa hinni ósýnilegu hönd húsnæðismarkaðinn erum við að breyta honum í eignamarkað og framlengingu á „eignastýringu,“ stórra fjármagnseigenda. Þetta sést t.d. af því að 67,5% allra íbúða sem hafa bæst við fasteignamarkaðinn síðan 2005 hafa endað í höndum lögaðila og eignafólks. Á sama tíma hefur leiguverð rokið upp og nú er svo komið að húsaleiga étur í mörgum tilfellum upp allt að 70% af ráðstöfunartekjum.
„Svarið er: Að minnka ægivald hagnaðarsjónarmiða á húsnæðismarkaði“
Ástæðan er ósköp einföld. Rót vandans er sú að lögmál markaðarins kalla á hámarksarðsemi og hámarksgróða. Ekki ódýrt, öruggt húsnæði fyrir venjulegt fólk. Fjármagninu er slétt sama hvort leigjendur missi svefn yfir því að ná ekki endum saman og þúsundir borgarbúa lifi við eilífar fjárhagsáhyggjur, flækist milli leiguíbúða og þurfi ár eftir ár að skrifa upp á svimandi hækkanir á leiguverði. Fjármagseigandanum er sama. Hann er sáttur á meðan hann græðir.
Þess vegna höfum við í VG lagt áherslu á uppbyggingu óhagnaðardrifinna leigufélaga. Þessi áhersla okkar hefur meðal annars skilað sér í því að Reykjavík hefur staðið sig allra sveitarfélaga best í uppbyggingu óhagnaðardrifins húsnæðis fyrir leigjendur verkalýðsfélaga og félagsbústaða, eldra fólk, stúdenta og fatlað fólk.
En það þarf að gera betur. Hinn óhagnaðardrifni leigumarkaður er einfaldlega ekki nógu stór. Við þurfum að ganga enn lengra.
Því viljum við að borgin stofni eigin leigufélag, Reykjavíkurbústaði, sem byggi 500-1000 íbúðir á ári. Bjartar, umhverfisvænar og mannvænar íbúðir sem bætast við fyrirliggjandi húsnæðisáætlanir Bjargs, Búseta, Stúdenta og annarra. Húsnæðið myndi standa öllum Reykvíkingum til boða og tæki leiga mið af tekjum. Hún stæði aðeins undir rekstrar- og fjármagnskostnaði og engin krafa yrði um hagnað.
Reykavíkurbústaðir yrðu því ekki heldur nein byrði á útsvarsgreiðendum eða borgarsjóði. Þeir einu sem missa spón úr aski sínum eru hagnaðardrifin leigufélög sem gætu þá ekki lengur makað krókinn.
Þessi leið hefur verið farin í öllum öðrum borgum sem við viljum bera okkur saman við. Í evrópskum borgum þar sem lífsskilyrði eru talin best er hlutdeild óhagnaðardrifinna leigufélaga allt að 50%. Hlutfallið í Reykjavík er örfá prósent. Áhrifin eru ótvíræð. Á einum áratug hefur leiguverð í Reykjavík tvöfaldast. Í Evrópu hefur hækkunin að meðaltali orðið miklu minni, eða 15%.
Reykjavíkurbústaðir munu ekki aðeins standa venjulegu fólki til boða. Þeir munu auka framboð á leiguhúsnæði og þannig draga úr þrýstingi á hækkun leiguverðs annars staðar.
Það er ekki nóg að lofa fyrir hönd markaðarins. Borgin verður að axla sína samfélagslegu ábyrgð og stíga inn með afgerandi hætti þar sem markaðurinn hefur margsinnis brugðist. Stjórnmálamenn sem lofa því að markaðurinn leysi viðfangsefni samfélagsins ráða ekki við verkefnið. Þess vegna kjósum við VG!
Athugasemdir