Einar Þorsteinsson, borgarstjóraefni Framsóknarflokksins í Reykjavík, sagði árásina á heimili borgarstjóra birtingarmynd á eitruðu stjórnmálaumhverfi, í kappræðum Stundarinnar fyrr í dag.
Lagði hann áherslu á að takast þyrfti á við flókin verkefni með meiri samvinnu en verið hefur og sagði traustið á borgarstjórn mælast minnst allra stofnana sem Gallup mælir, eða 21 prósent. „Fleiri treysta bankakerfinu heldur en borgarstjórn,“ sagði Einar.
Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri og oddviti Samfylkingarinnar, benti á að þessar tölur ættu við um alla landsmenn, en landsbyggðin treystir borgarstjórn verr en Reykjavíkurbúar. „Það kemur í ljós, hvort sem það er út af flugvallarmálinu eða öðru, að borgarstjórn nýtur ekki mikils trausts úti á landi,“ sagði Dagur. Ef aðeins væri litið til íbúa borgarinnar mældist mun meira traust til borgarstjórnar en Einar héldi fram, eða um 34% og hefði meira traust en Alþingi. „Mér finnst þetta ósanngjörn framsetning.“
Einar rakti vantraust hins vegar til þess að stjórnmálamennirnir sem leiða flokkana í Reykjavík hefðu eytt of miklum tíma í átök, „sem endurspeglast í leiðinlegum atvikum hér á kjörtímabilinu“.
Inntur eftir skýringum á því til hvers hann væri að vísa sagði Einar: „Þegar heimili borgarstjóra var ógnað. Hér er ágæt kona sem ullar á borgarstjórnarfundi. Þetta dregur úr virðingu borgarstjórnar.“ Sagði hann pólasíreringuna „tæta öll lýðræðiskerfi í sig“.
„Þú nefnir þessa árás á heimili borgarstjóra, hvernig tengist það þessu?“ spurði Margrét Marteinsdóttir, stjórnandi kappræðnanna og blaðamaður Stundarinnar. „Þegar varaborgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins segir: Þetta gerist þegar borgarstjóri er lélegur borgarstjóri og fordæmir ekki árásina þá er það skýrasta birtingarmynd þess að stjórnmálaumræðan þarna er eitruð.“
Kolbrún Baldursdóttir, oddviti Flokks fólksins, svaraði þessum ummælum: „Við í minnihlutanum erum ekki ábyrg fyrir því að skotið var á bíl borgarstjóra.“
Kappræðurnar má sjá í heild sinni hér.
Athugasemdir