Uppvakningur gengur nú ljósum logum um Vesturlönd. Sagt er að í átökum eins og kreppu og stríði svífist enginn einskis til að bjarga sjálfum sér. En uppvakin er hin lífseiga sögn um sjálfselsku fólks, eðlislæga grimmd og eiginhagsmunagæslu. Þessi draugur er útbreitt áróðursbragð og söluvara harðstjóra og vopnaframleiðenda í gamalgrónu valdakerfi.
Þetta eru ekki góð tíðindi því þegar einn draugur rís upp frá dauðum þá fylgir annar strax á eftir. Gamall draugur sem þráir að hrella samfélög kemur ævinlega aftur en oft í nýjum fötum, á öðrum stað og breyttu samhengi. Mikilvægt er að átta sig á þessum tíðindum því slíkir draugar hverfa aldrei alveg og má finna víða í menningunni.
Kenningu um mannfólk sem skrímsl er haldið að fólki. Það er gert í kvikmyndum, sjónvarpsþáttum, fjölmiðlum og glæpasögum um ofbeldi og hefndarþorsta. Skilaboðin eru að kreppur, hamfarir og stríð kalli það versta fram í fólki. Draugurinn er svo voldugur að góðvildin sem alls staðar er að finna verður ósýnileg og kemst ekki í fréttir. Hvers vegna?
Hvað gerist ef hún springur?
Stjórnvöld, ríkisstjórnir og forsetar smyrja nú á stríðsvélinni. Kjarnorkusprengjur er handverk mannanna og skurðgoð kjarnorkuþjóðanna. Þessi lönd; Bandaríkin, Rússland, Bretland, Frakkland, Kína, Indland og Pakistan, Ísrael og Norður-Kórea, treysta á gjöreyðingarvopn.
Hernaðarbandalög og varnarbandalög komast á dagskrá og Finnland og Svíþjóð knýja dyra hjá NATÓ enda reiðubúin nú þegar með vopnaframleiðslu sína og her. Afturganga kjarnorkuvopna er enn á ný sögð eina raunverulega fælingarvopnið til að koma í veg fyrir innrásir. Margir hrópa í fjölmiðlum og í ráðuneytum en eru í raun að biðja um áframhaldandi ógnarjafnvægi þeirra sem vantreysta hverjir öðrum.
Kjarnorkusprengjan fékk nafngiftina „öryggiskerfi“ en ef hún springur þá gjöreyðist lífið á jörðinni og auðn ríkir í þúsundir ára. Keisarinn segir „Kæra þjóð, fögnum, okkur er borgið, við eigum kjarnorkusprengju!“ Barnið spyr „En hvað gerist ef hún springur?“ Ef Rússland getur gjöreytt öllu í Frakklandi með sérhannaðri kjarnorkusprengju og Frakkland getur gert það sama þá ríkir ógnarjafnvægi en hvenær fer þá eitthvað úrskeiðis – aftur? Hótunin er í loftinu.
Þrátt fyrir daglega reynslu af hjálpsemi og góðvild fólks þá lesum við og heyrum sögur af því að í raun sé fólk ekki nauðsynlega hjartagott heldur þvert á móti líklegt til alls. Rannsóknir og tilraunir sem eiga að sýna vont hjartalag fólks eru skráðar í kennslubækur og ganga aftur og aftur.
Víðfrægar ómarktækar tilraunir á illsku fólks
Í bakþanka í Fréttablaðinu 5. apríl er vitnað í tvær slíkar tilraunir til að sýna fram á að venjulegt fólk muni framkvæma hrottalega hluti undir ákveðnum skilyrðum. Philip Zimbardo gerði svokallaða Stanford-fangatilraun árið 1971 og Stanley Milgram tilraun þar sem ákveðinn hópur átti að gefa öðrum raflost, jafnvel banvænt. Báðar þessar sálfræðitilraunir voru ómarktækar og byggðust á óstjórnlegum metnaði þeirra til að fá fyrirframgefna niðurstöðu og að verða víðfrægir.
Milgram borgaði fólki fyrir að taka þátt í tilrauninni. Hann blekkti fólkið og niðurstaðan átti að vera að allir væru í raun jafnslæmir og nasistarnir sem sendu gyðingana í gasklefana. Hetja tilraunar Milgrams var Fred Prozi sem í raun var leikstýrt og aðstoðarleikstjórinn gerði einnig margar tilraunir til að hvetja þátttakendur til að gefa rafstuð. Aðstoðarfólk Milgrams þóttist vera vísindafólk frá Yale háskólanum og aðeins helmingur þátttakenda trúði í raun að þetta væri alvöru tilraun og raunverulegt rafstuð.
Látið var að því liggja að tilraunin sýndi hlýðni fólks en í raun hættu allir þátttakendur þegar hin raunverulega skipun var gefin. Milgram taldi tilraunadýrunum sínum trú um að tilraunin væri í þágu mannkyns og vísinda. Hann braut sjálfur helstu siðareglur vísindanna. Enn er vitnað í þessa tilraun sem sönnun um hlýðni og siðleysi fólks.
Öll gögn tilrauna Milgrams og Zimbardo hafa verið gerð opinber og hefur Rutger Bregman rannsakað þær og margar fleiri og skrifað um í bókinni Humankind – A Hopeful History (2021). Hvers vegna höldum við þá áfram að trúa niðurstöðum á tilraunastofum? Draugasögum þar sem tiltekinn karl hefur ofmetnast í leit að virðingu í kastljósi heimsins? Hlustum frekar á hinar raunverulegu sögur, hér er ein:
„Eiginmaður minn varð eftir í Úkraínu en hann er fatlaður og hefði því mátt yfirgefa landið, en ákvað að verða eftir til að vernda Úkraínu. Hann getur notað hendurnar og getur því hjálpað þeim sem berjast,“ segir Olga Keptanar sem yfirgaf Úkranínu með barnið sitt eftir að stríðið hófst. (Morgunblaðið 10. apríl 2022).
Áróðurinn um illsku mannfólks er ekki aðeins í efnisveitum fyrir fullorðna. Börnum er einnig miðlað af þessari heimsmynd. Nefna má skáldsöguna Lord of the Flies eftir Nóbelsverðlaunahafann William Golding frá 1954. Henni hefur verið haldið að unglingum í skólum í áratugi undir þeim formerkjum að hún varpi ljósi á mannlegt eðli.
Saga Golding segir frá hópi skólafólks sem strandar á eyðieyju. Hún virðist fyrst í stað vera saga um hetjulega lífsbaráttu og ævintýri en tekur hins vegar fljótt skelfilegan snúning þegar börnin verða ofbeldishneigð og skapa glundroða. Boðskapurinn er illskan í brjóstinu og táknin eru tekin úr lýsingu á helvíti í Opinberunarbókinni í Biblíunni. Lesandi situr bölsýnn eftir með óhug í hjarta. Greinilegt er að höfundur bókarinnar hefur engan skilning á manneskjunni og hefur engu að miðla nema röngum upplýsingum.
Hugsjón mannkyns á 21. öld
Illskan er ekki undir yfirborðinu. Hún birtist hjá þeim sem búið er að blekkja og ljúga full um að það sem þau geri sé gott í þágu þjóðanna. Harðstjóri elur upp hermenn, tekur þá unga í herinn, miðlar þeim rangri heimsmynd og skipar þeim að drepa fólk sem búið er að afmennska með lygi og áróðri og ef hermaður hlýðir ekki er honum refsað grimmilega. Eftir stríðið er allt í rúst hjá öllum, þar á meðal andleg heilsa þolenda og gerenda. Rússneskir hermenn í Mariupol og Bucha geta aldrei aftur lifað dag án sársauka vegna stríðsglæpanna, ekki fremur en fórnarlömbin og næsta kynslóð mun aldrei fyrirgefa, og það tekur að minnsta kosti 40 ár að gróa um heilt.
Hermönnum Rússlands er talin trú um að verkefnið felist í því að bjarga nágrönnum sínum frá nasistum og dópistum sem hafa afvegaleitt þjóðina og traðkað á rússneskumælandi fólki. Allt þetta stríð og viðbrögðin eru innan þess valdakerfis sem er nú þegar við lýði og hefur margoft beðið skipsbrot. Hver býst við að hershöfðingjar beiti nýjum aðferðum? Þeir læra allir að beita sömu aðferðinni.
Oft hefur verið gert gys að tilgátum og kenningum um að dýpst og innst inni sé fólk sómasamlegt og knúið áfram af þörf fyrir kærleika og vináttu eða löngun til að vera samþykkt og vera hluti af hóp þar sem samvinna og traust eru í fyrirrúmi.
Fræðakennarar hlæja stundum að fullyrðingum Jean-Jacques Rousseau (1712-1788) um að maðurinn fæðist frjáls og ágætur en sé spillt af samfélaginu: „… manneskjan er góð af náttúrunnar hendi og að einungis vegna þessara stofnana verða mennirnir illir.“ Rousseau starfaði og skrifaði út frá því að mannskepnan væri góð að upplagi og að verkefnið væri að stefna þangað í stað þess að hanga áfram í hugmyndafræðinni um hinn sterka og að öflugustu vopnin skapi besta öryggið. Góð en þó ekki jöfn en Hannah Arendt (1906-1975) er með lausn á því. „Við erum ekki fædd jöfn heldur verðum við jöfn sem meðlimir hóps sem hefur tekið ákvörðun um að standa vörð um jafnan rétt allra í hópnum.“
Manneskjan á 21. öld má alls ekki eltast við drauga 20. aldar sem fremja glæpi gegn mannkyni. Jöfnuður og góðvild er hugsjón 21. aldar, ekki ógnarjafnvægi.
Siðferðisþrek þjóða stenst sprengjuregn
Afturgöngur stríðsherranna þekkja ótal rangar leiðir sem voru valdar aftur og aftur, alla 20. öldina og nú á 21. öldinni. Sú hrollkennda sannfæring þeirra sem stjórna hernum að morð á óbreyttum borgurum og eyðilegging á híbýlum þeirra brjóti niður siðferðisþrek þjóða, sprettur upp í sérhverju stríði. Sýrland og Yemen eru í sárum, og nú vinnur Pútín-stjórnin eftir þeirri ranghugmynd að skipa hermönnum að skjóta óbreytta borgara á færi til að brjóta siðferðisþrek þjóðarinnar niður.
Þessi ranga tilgáta sem gengur aftur og aftur er höfð eftir Gustave Le Bon í bókinni Sálfræði múgsins (Psychologie des Foules) frá 1895. Hann hélt því fram að ógn og kreppa kallaði fram það versta í fólki. Þessu virðast stríðsherrar okkar tíma trúa. Þessu trúði Winston Churchill sem hikaði ekki við að láta sprengjum rigna yfir heilu bæina í Þýskalandi og drepa fólkið, þessu trúði Hitler þegar hann lét sprengjum rigna yfir England. En hvað gerðist? Slíkar árásir þjappa fólki saman og kalla fram hugrekki, hjálpsemi og fórn eigin hagsmuna. Það hefur sannast núna í Úkraínu og það er einmitt vegna þess að það er ekki illskan sem kraumar undir yfirborðinu heldur hjálpsemin.
Harðstjórar og draugar þeirra hafa einfaldlega alltaf rangt fyrir sér, þeir geta ekki giskað á rétt. Þeir telja sig snjalla að skipa hermönnum að skjóta saklaust fólk til bana sem var á leiðinni út í búð eða í vinnuna og láta líkin svo liggja á götunni í marga daga öðrum sem víti til varnaðar. Sjálfir eru þeir aðeins hluti af ofbeldismenningunni.
Verkefnið núna er að láta ekki blekkjast, heldur að læra að þekkja sig sjálf og hætta að fylgja gömlum draugum og áróðri um mannlegt eðli sem á sér enga stoð í hjartanu og leiðir til tortímingar. Góðvildin bíður undir yfirborðinu.
Gerum ekki ráð fyrir óvild náungans, leyfum öðrum að njóta vafans, gerum ráð fyrir því besta því flestir vilja vel. Að gera öðrum gott virkar margfalt betur en að skara eld að eigin köku. Hættum að fylgja gömlum draugum hershöfðingja, við vitum hvert þeirra leið liggur.
Athugasemdir (1)