Frá aldamótum hefur Pútín sýnt að hann þyrstir æ meira eftir því að festa sig í sessi sem óbifanlegur járnkarl í valdastiga herskárrar karlmennsku stórveldisins Rússlands. Pútín er það mikill í sjálfsímynd sinni að hann telur best að stjórnarskrá landsins sé breytt eftir þörfum – eigin þörfum. Hann fékk því stjórnarskránni breytt eftir að hann vélaði sig inn sem endurkjörinn forseti árið 2011 þannig að kjörtímabil forseta er nú án tímatakmarkana. Ofan á það hafa gjörðir hans síðasta áratuginn sýnt að hann sækist eftir því að verða lýst á spjöldum sögunnar sem stórmenni landvinninga, herkænsku og stjórnmálalegra klækja. Eftir að hafa tapað handbendi sínu úr forsetastól Úkraínu árið 2014, innlimaði hann Krímskagann með skyndisókn sem hann komst upp með. Verk hans benda til þess að út frá hans sjónarhóli verði sagan skrifuð út frá upphafningu þeirra hernaðarlega sterku og djörfu. Allt annað sé blaður fyrir viðkvæma aumingja og þjóð hans muni að eilífu verða honum þakklát fyrir styrkinn sem hann hafi sýnt. Sigurvegararnir skrifi söguna og velji efnið í hana. Hann fer með yfirráðastefnu gagnvart nágrannaríkjum sínum og það er rökrétt út frá gildismati alræðisins að ríki eins og Úkraína, sem stefna til aukins lýðræðis og frjálsræðis, verði fyrst fyrir barðinu hamri hins sterka járnmanns. Frelsisöfl eru eitur í beinum einræðisafla. Pútín og valdaklíka hans hefur fært Rússland aftur til brenglaðs gildismats stríðsóðra hernaðarvelda fyrri alda en þeir sjá sig væntanlega þveröfugt, í ljóma hetja sem „bjarga“ föðurlandinu og hefja það upp til fyrri dýrðar stórveldis. Pútín er þó líklega eins konar risaeðla í eigin landi því almenningur virðist ekki beinlínis styðja hugmyndir hans og gjörðir, heldur hefur fólk fremur hljótt um sig til að verða ekki fangelsað, pyntað eða drepið. Pútín og valdaklíka hans eru því að sumu leyti einangrað költ þó vissulega virðist af fréttum að dæma að afturhaldsöfl öfgaþjóðernishyggju og karlyfirráða séu nokkuð útbreidd í landinu. Einræðisherrar spretta upp úr ákveðnum jarðvegi og lýðræðishefðir hafa ekki náð að dafna í Rússlandi eftir fall sovét-kommúnismans.
„Pútín hefur sýnt að hann treystir á viðkvæmni Vesturlanda gagnvart beinni hernaðaríhlutun“
Valdaþörf og sýn Pútíns á stórveldi sitt byggir meðal annars á því að raða í kringum sig járnkörlum í nágrannaríkjunum, hugmyndalega trénuðum leppum sem kúga þjóðir sínar til hlýðni líkt og hann. Annað virðist hann túlka sem ósigur og jafnvel þótt Evrópusambandið eða NATO hafi ekki í neinum hótunum við Rússland þarf einræðisherrann á tilbúnum óvinum að halda. Með öðru móti er ekki hægt að réttlæta árásir, fangelsanir og launmorð því meira að segja öfgaþjóðernissinnar hafa réttlætiskennd. Vefur lyga um „hættuna“ úr vestri og nauðsyn stríðs til varnar henni er lykilatriði í valdaáróðri Pútíns. Sendiherrar Rússlands um allan heim ljúga því kalt að Pútín berjist við fasista og þykjast vera í stöðu fulls tilkalls til Úkraínu. Þegar Ísland leyfir flutning vopna um Keflavíkurflugvöll til aðstoðar Úkraínu dirfist sendiherra Rússa hérlendis að gagnrýna það og hafa í hótunum um einhverjar slæmar afleiðingar. Mér finnst að Pútínsveldið hafi fyrirgert rétti sínum til að hafa hér sendifulltrúa, því það er svo sannarlega ekki diplómasía sem hann iðkar hér.
Stjórnvöld í Úkraínu hefðu getað kosið að veita her Pútíns ekki viðnám og láta innrás þeirra og hernám þjóðarinnar ganga yfir sig til verndar mannslífum og innviðum. Úkraínsk þjóð sýndi í friðsamlegri byltingu innanlands árið 2014, svokallaðri „virðingarbyltingu“, að hún vill leggja mikið á sig til að vernda öfl og gildi sjálfræðis, mannhelgi og réttlætis. Fjöldi hugrakks fólks lagði þar líf sitt undir og margt tapaði því svo framtíðarkynslóðir landsins mættu velja sína eigin framtíð – sem tókst. Sú framtíð fól meðal annars í sér að sameinast frelsiöflum Evrópu með inngöngu í Evrópubandalagið. Úkraínska þjóðin kaus því að halda áfram baráttu sinni fyrir þeirri góðu vegferð, þótt það gæti kostað gríðarlegar fórnir og jafnvel tap í stríði við risann í norðri. Hver væri staðan ef Úkraína hefði kosið að berjast ekki, að minnsta kosti ekki í blóðugu stríði? Pútín væri þá búinn að koma fyrir leppstjórn í landinu og gæti hreykt sér af sigri sem yki hernaðarítök hans og ásjónu sem óstöðvandi ógnarvald. Með því myndu vinir hans í Hvíta-Rússlandi, Ungverjalandi og víðar um Evrópu eflast í kúgunartilburðum sínum. Pútín væri þá kominn í dyragætt okkar, bandalags ríkja frjálsræðis, og hver veit þá hvert stórmennskuþráin mun leiða hann? Yrði innrás í Moldóvu honum nokkur fyrirstaða? Þar á eftir inn í Eystrasaltsríkin? Myndi þá ekki endurtekin tilkynning frá honum um að kjarnorkuvopnastöðvar hans væru komnar í viðbragðsstöðu fæla burt alla alvöru mótstöðu rétt eins og nú? Ég er hræddur um það því Pútín hefur sýnt að hann treystir á viðkvæmni Vesturlanda gagnvart beinni hernaðaríhlutun. Hann treystir á það sem í hans huga er aumingjaskapur og linka og á meðan hún viðhelst nærist í honum yfirgangssemin og tuddinn. Nái hann Úkraínu eykst í honum hið eitraða sjálfstraust einræðisherrans, sem fær á tilfinninguna að honum séu allir vegir færir með kænsku sinni og ógn. Málin munu þá versna og versna og með aukið kverkatak á Evrópu tel ég líklegt að þröskuldur hans fyrir beitingu efnavopna og kjarnorku muni lækka. Það er vegna þessarar sýnar og hinnar lífsnauðsynlegu baráttu fyrir gildum mannhelgi, lífshamingju, frelsis og réttlætis að ég tel að öll megnug ríki heims sem vilja verja þau þurfi að grípa inn í stríðið í Úkraínu með afgerandi hætti, óhikað og hratt. Umþóttunartíminn er liðinn og því miður eru komnar til sögunnar leikreglur stríðs sem sér annars ekki fyrir endann á. Það er best að stöðva það þar sem það hófst og gefa skýr skilaboð. Varnarstríð Úkraínumanna er varnarstríð okkar allra.
Hann Lenin karlinn útlimaði Donbass frá Rússlandi, svo og innlimaði hann Donbass (Doneskt og Lunhansk) ínn í Úkarínu 1922. Einnig innlimaði Nikita Khrushchev karlinn Krímskaga inn í Úkraínu 1954, svona líka einnig gegn vilja rússnesku ættaðra íbúa á Krímskaga. En það er rétt það má alls ekki minnast á þetta í þessum áróðri, hvað þá þessa sameiningu Rússlands við Krímskaga eftir 60 ára aðskilað, þú???