„Aldrei hélt ég að ég þyrfti að setjast niður og skrifa svona yfirlýsingu.“ Á þessum orðum byrjar færsla sem Vigdís Häsler, framkvæmdastjóri Bændasamtakanna birtir á Facebook rétt í þessu. Þar segist hún aldrei hafa látið húðlit, kynþátt, kynferði eða annað skilgreina sig. Nú telji hún sig hins vegar knúna til að tjá sig um það sem gerðist og fer svo í stuttu máli yfir atvik sem varð í tengslum við búnaðarþing á fimmtudagskvöld.
Þar segir meðal annars að þá hafi starfsfólk Bændasamtakanna, þar með talin hún, þegið boð til stjórnmálaflokka sem haldin séu í tengslum við Búnaðarþing og löng hefð sé fyrir. Starfsfólk Bændasamtakanna hafi óskaði eftir því að Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra og fleiri væru með í myndatöku sem hún hafi síðar komið að.
„Ég veit hvað ég heyrði, ég veit hvað var sagt“
„Þar voru afar særandi ummæli látin falla og heyrði bæði ég það sem og starfsfólk samtakanna. Aðstoðarmaður ráðherrans var ekki við hlið hans þegar ummælin voru látin falla, eins og hún hefur haldið fram en myndir úr þessari myndatöku sýna það án alls vafa. Það er særandi þegar reynt er að gera lítið úr upplifun minni og þegar beinlínis rangar skýringar eru notaðar við það. Ég stend með sjálfri mér þegar kemur að þessu, ég veit hvað ég heyrði, ég veit hvað var sagt. Ég neita að bera ábyrgð á þeim orðum sem ráðherrann viðhafði í minn garð,“ skrifar Vigdís en ummæli Sigurðar Inga sem hún vísar í voru samkvæmt heimildum Stundarinnar innan Bændasamtakanna rasísk en hann á að hafa sagt: „á að mynda mig með þeirri svörtu“.
Vigdís segir aðstoðarkonu Sigurðar Inga fara með ósannindi
Ingveldur Sæmundsdóttir aðstoðarkona Sigurðar Inga sem Vigdís nefnir í yfirlýsingunni sagði í Fréttablaðinu í gær að hún hafi staðið við hlið Sigurðar Inga þegar myndatakan átti sér stað og samkvæmt henni hafi hann sagt að hann vildi ekki halda á Sjálfstæðismanni. „Þetta er algjört bull,“ er haft eftir Ingveldi í DV um að Sigurður Ingi hafi viðhaft rasísk ummæli um Vigdísi.
„Ég neita að bera ábyrgð á þeim orðum sem ráðherrann viðhafði í minn garð“
Í sinni yfirlýsingu segir Vigdís að Ingveldur hafi ekki verið við hliðina á Sigurði Inga þegar hann lét ummælin falla og til séu myndir sem sýni það.
Vigdís segist ekki ætla að tjá sig frekar um málið en segir að fordómar séu víða í samfélaginu. „Duldir fordómar eru gríðarlegt samfélagsmein og grassera á öllum stigum samfélagsins. Þeir smætta verk einstaklinga og gjörðir niður í lit eða kyn.“
Stundin reyndi að ná sambandi við Ingveldi án árangurs.
Engin ákvörðun tekin hjá Bændasamtökunum um framhaldið
Stjórn Bændasamtakanna kom saman á fundi fyrir hádegi og staðfestir Gunnar Þorgeirsson formaður að málið sem Vigdís nefnir hafi komið til umræðu á fundinum. „Niðurstaða er ekki komin í málinu, við erum enn þá að vinna með þetta bara.“
-Þarna [í yfirlýsingunni] tekur Vigdís afdráttarlaust af skarið um að að það hafi verið látin falla um hana niðrandi ummæli, að Sigurður Ingi [Jóhannsson] hafi viðhaft þau, kallar það ekki á einhver viðbrögð af hálfu Bændasamtakanna, að þannig sé gengið fram gegn ykkar framkvæmdastjóra?
„Jú, það er nú það sem við erum að skoða. Ég, eins og þú, var nú bara að sjá þetta núna.“
Spurður hvort hann hafi verið meðvitaður um að Vigdís hygðist setja fram yfirlýsinguna neitar Gunnar því og bendir á að Vigdís hafi birt hana á eigin Facebook-síðu. „Stjórn Bændasamtakanna fundaði án framkvæmdastjórans til að átta sig á stöðu mála. Ég mun ekki tjá mig um þetta frekar núna,“ sagði Gunnar.
Spurður hvort hugsanlega verði send út einhver yfirlýsing vegna málsins segir Gunnar: „Það var það sem við erum aðeins að hugsa, við erum bara í kaffipásu og erum aðeins að skoða næstu skref. Við erum ekki búin að afgreiða þetta mál.“
-En það hefur komið til umræðu semsagt?
„Já já, við erum ekki fædd í gær, en ég ætla ekki að segja meira.“
Stundin reyndi að ná sambandi við Sigurð Inga en án árangurs.
Athugasemdir (1)