Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis hefur nú í þrígang fjallað um samskipti Íslands og Evrópusambandsins, vegna frétta Stundarinnar af afskiptum íslenskra stjórnvalda af viðskiptaþvingunum á hendur kjörræðismanninum í Hvíta-Rússlandi.
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra verður til svara fyrir Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd alþingis í dag á fjórða fundinum sem haldinn er um málið. Þar svarar ráðherrann fyrir samskipti Íslands og ESB vegna kjörræðismanns Íslands í Hvíta-Rússlandi.
Fundurinn hefst klukkan 11:15.
Fundirnir hafa hingað til verið haldnir fyrir luktum dyrum og trúnaðar krafist um efni þeirra og gögn sem Utanríkisráðuneytið hefur afhent.
Stundin hefur sömuleiðis óskað eftir aðgengi að frekari gögnum.
Utanríkisráðherra og embættismenn í ráðuneyti hennar hafa neitað því að ráðuneytið hafi krafist þess að Evrópusbambandið beiti Aleksander Moshensky ekki viðskiptaþvingunum. Ráðuneytið hafi einungis spurst fyrir um mögulegar viðskiptaþvinganir á hendur honum.
Fjöldi viðmælenda Stundarinnar segja aðra sögu. Að Ísland hafi þá og áður beitt sér fyrir því að losa Moshensky undan viðskiptaþvingunum ESB.
Aleksander Moshensky hefur verið uppnefndur „Veski Lukashenko" vegna sambands síns og stuðnings við einræðisherrann Aleksander Lukashenko. Moshensky hefur stutt Lukashenko opinberlega og meðal annars verið sérstakur fulltrúi forsetaframboðs hans.
Lukashenko hefur þar að auki ítrekað skipað Moshensky í nefndir og ráð hins opinbera.
Athugasemdir