Þessi snýst um töluna sjö, þar sem hún átti að birtast í gær, í 700. þrautinni, en ég skipti svo um efni til að heiðra Guðrúnu Helgadóttur rithöfund sem nú er látin.
En þá er þessi svona:
Fyrri aukaspurning:
Hér má sjá mynd af einu af hinum sjö undrum fornaldar. Hvar var þessi risastytta?
***
Aðalspurningar:
1. Hver er frægasti fótboltamaðurinn sem borið hefur númerið 7 á treyju sinni?
2. Dauðsyndir kaþólsku kirkjunnar eru sjö. Nefnið fimm þeirra. Ef þið náið öllum sjö, þá megiði sæma ykkur hreinsunareldsstigi!
3. Sjö lönd eru í Mið-Ameríku á milli Mexíkó og Kólumbíu. Nefnið fimm þeirra! Ef þið náið öllum sjö, þá megiði sæma ykkur Karíbahafsstigi!
4. Árið 1963 var hljómborðsleikarinn Ian Stewart rekinn úr hljómsveitinni Rolling Stones af því hann þótti of ljótur. Síðan þá hafa alls sjö menn — allt karlar — þótt nógu snoppufríðir til að fá að vera í þessari vinsælu hljómsveit. Hverjir eru þeir?
5. Jóhanna Sigurðardóttir myndaði tvær ríkisstjórnir árið 2009. Seinni stjórnin sat allt til loka kjörtímabilsins 2013 en heilmiklar mannabreytingar og hrókeringar voru í stjórninni. Í þessari SEINNI ríkisstjórn sátu alls sjö konur. Hverjar voru þær? Nefna þarf fimm þeirra, en ef þið hafið allar sjö, þá fáiði sérstakt Ingibjargar-H.-Bjarnasonar-stig.
6. Sjö ára brúðkaupsafmæli er kennt við mjúkt fyrirbrigði úr dýraríkinu. Hvað nefnist þetta sjö ára brúðkaupsafmæli?
7. Hvað nefnast vikudagarnir sjö — á dönsku? Hafa þarf alla sjö dagana rétt!
8. Hver leikstýrði kvikmyndinni Se7en árið 1995?
9. Ein af minningabókum Halldórs Laxness heitir Sjö- ... Sjö-hvað? Svo gaf Halldór líka út tvo smásagnasafnasöfn sem hétu Sjö ... eitthvað (fyrir þá utan eitt safn sem bar undirtitilinn „sjö þættir“). Ef þið vitið hvað þau heita, þessi smásagnasöfn Halldórs með sjö í titlinum, þá fáiði sérsakt Gljúfrasteinsstig!
10. Í nýja íslenska skraflpokanum er verðgildi bókstafsins X hæst en fyrir hann fást 10 stig. Næsthæstir að stigum eru tveir bókstafir sem gefa hvor um sig 7 stig. Hverjir eru þeir? Athugið að þótt þið spilið kannski ekki skrafl að staðaldri, þá borgar sig að giska!
***
Seinni aukaspurning:
Hér er annað af hinum sjö undrum fornaldar. Hvar voru þessir garðar niðurkomnir? — og svo segir sig sjálft að þið fáið sérstakt söundrastig ef þið þekkið öll þau fimm undur sem eftir eru!
***
Svör við aðalspurningum:
1. Cristiano Ronaldo.
2. Dauðasyndirnar eru stolt, matgræðgi, reiði, öfund, losti, ágirnd og leti.
3. Belize, Guatemala, Hondúras, El Salvador, Nicaragua, Costa Rica og Panama.
4. Fyrrverandi og núverandi meðlimir — eftir dag Stewarts — eru Mick Jagger, Keith Richard, Charlie Watts, Bill Wyman, Brian Jones, Mick Taylor og Ronnie Wood.
5. Ragna Árnadóttir, Katrín Júlíusdóttir, Oddný Harðardóttir, Katrín Jakobsdóttir, Svandís Svavarsdóttir, Álfheiður Ingadóttir og Jóhanna sjálf.
6. Ullarbrúðkaup.
7. Søndag, mandag, tirsdag, onsdag, torsdag, fredag, lørdag.
8. Fincher.
9. Sjömeistarasagan. Smásagnasöfnin heita Sjö töframenn og Sjöstafakverið.
10. Þ og É.
***
Svör við aukaspurningum:
Risinn stóð við höfnina á Ródos í Grikklandi.
„Hengigarðarnir“ svokölluðu voru í Babýlon.
Og hin fimm undrin voru þessi:
Píramídarnir í Gisa í Egiftalandi — vitinn í Alexandríu — Seifsstyttan í Ólympíu í Grikklandi — Artemisarhofið í Efesus — grafhýsi Halikarnassusar.
Athugasemdir