Landsréttur hefur vísað héraðsdómi Norðurlands eystra frá í máli Aðalsteins Kjartanssonar, blaðamanns á Stundinni sem kærði þá ákvörðun lögreglunnar að kalla hann til skýrslutöku með réttarstöðu sakbornings vegna umfjöllunar um skæruleiðadeild Samherja.
Niðurstaða héraðsdóms Norðurlands eystra var sú að aðgerðir lögreglunnar gegn Aðalsteini og öðrum blaðamönnum í málinu væru ólögmætar, en Landsréttur telur óhjákvæmilegt að heimila lögreglu að veita blaðamanni stöðu sakbornings í rannsókn málsins. Lögreglan birti úrskurðinn á Facebook-síðu sinni í dag.
Sakaðir um hefndarklám
Í greinargerð lögreglu sem lögð var fyrir héraðsdóm kom fram að Aðalsteini væri gefið að sök að hafa gerst brotlegur við almenn hegningarlög er sem snúa að friðhelgi einkalífs, en undanþáguákvæði eru í lögunum þar sem þessar lagagreinar eiga ekki við þegar um er að ræða almanna- eða einkahagsmuni. Lagagreinar sem lögregla vísar til tóku breytingum í fyrra og voru þær kynntar af Stjórnarráðinu sem svar við „auknu stafrænu kynferðisofbeldi í íslensku samfélagi“. Kom fram að þeir blaðamenn sem fjölluðu um málið væru grunaðir um að hafa tekið á móti eða deilt með öðrum kynferðislegu efni af Páli Steingrímssyni, skipstjóra Samherja og meðlimi í yfirlýstri „skæruliðadeild“ útgerðarinnar, án þess að hann hefði kært slík brot til lögreglu eða sýnt væri fram á að slíkt efni hefði farið í dreifingu.
Kannski er bara kominn tími á paparazzi blaðamennsku þar sem mest krassandi fréttin fær birtingu sama um hvað málið snýst og ég held að þessar opinberu stofnanir hér hafi nóg til þess að fjalla um