„Maður sem þekkir mann, sem þekkir mann, sem þekkir mann, gaf okkur símanúmer hjá úkraínskum strák í Prag. Við erum á leiðinni þangað með rútu. Hann ætlar að skjóta skjólshúsi yfir okkur,“ segir Natasha, listnemi frá Kharkiv, sem var ásamt nöfnu sinni og ljósmyndanema á yfirfullri rútustöð Varsjárborgar í gær. Það var endalaus umferð hópferðabíla að koma austan frá Úkraínu, fullra af konum og börnum, sem halda síðan áfram um alla álfuna.
Það var skipulagt kaos á rútustöðinni. Á aðalbrautarstöðinni í Varsjá var ástandið ólýsanlegt. Alltof margt fólk, börn og gamalmenni sofandi á gólfinu hvar sem var pláss. Aðrir að reyna tryggja sér miða, langt í burtu frá þessu stríði. Óformleg könnun sem ljósmyndari gerði leiddi í ljós að straumurinn liggur að töluverðu leyti til Þýskalands, Þjóðverjar bjóða fólki fría lestarferð þangað frá Póllandi. Nokkrum langaði til Bretlands, en það land virðist lokað flóttafólki frá Úkraínu eins og er. Flestir voru þó að færa sig til innan Póllands, því þegar Pólverjar hafa flutt burt, til dæmis til Íslands, hafa Úkraínumenn mannað þau störf sem þarf að manna.
En það eru ekki allir á leiðinni í burt segir Natasha þegar við horfum á enn eina rútuna leggja fyrir utan rútustöðina. „Mamma varð eftir, hún gat ekki hugsað sér að fara frá hreyfihamlaðri móður sinni. Amma kemst ekkert, nema til guðs, svo fótafúin er hún. En hún man vel eftir seinni heimstyrjöldinni, hungrinu, kuldanum og grimmdinni. Þegar ég heyrði í mömmu í fyrradag var ekkert rafmagn og þær matarlausar, húsið dimmt og ískalt. Er sagan að endurtaka sig?“
Athugasemdir