Undanfarna daga hefur almenningur víða um heim kallað eftir því sem er kallað ‘no fly zone’ yfir Úkraínu, eða því að loka lofthelgi Úkraínu fyrir flugumferð. Ég reikna með að við höfum flest séð myndskeiðið frá blaðamannafundi Boris í Póllandi í nýliðinni viku hvar blaðakona brotnar niður þar sem hún biður Boris um að lýsa yfir slíku svæði yfir Úkraínu. Svar Borisar er hreinlega: Við getum það ekki.
Það er skiljanlegt að almenningur þrái að sjá haldbærar aðgerðir og einhvern veginn hefur hugmyndin um flugbann gripið um sig sem lausnin við stríðinu í Úkraínu. Raunin er þó sú að með því að lýsa yfir lokaðri lofthelgi væri NATO að lýsa yfir stríði gegn Rússlandi og þar með ganga með beinu móti inn í átökin. Þá fyrst færu átökin að harðna og stríðið að dreifast til nágrannalanda.
Bein hernaðarátök við Rússa eru eins og stendur óhugsandi, enda gætu þau leitt til kjarnorkustyrjaldar. Þess vegna geta leiðtogar NATO-ríkjanna ekki líst yfir lokun lofthelginnar yfir Úkraínu nema að skelfilega vel ígrunduðu máli. Hendur Vesturlanda eru bundnar af því að þau vilja ekki blandast með beinum hætti inn í átökin.
Lokaðri lofthelgi þarf að verja með öllum tiltækum ráðum
Raunveruleikinn er nefnilega sá að það dugar ekki að lýsa yfir lokaðri lofthelgi og gera svo ekkert í því. Því til hvers að lokalofthelginni ef ekki stendur til að halda henni lokaðri og verja hana? Valdhafinn, í þessu tilfelli bandalagið NATO – eða lönd bandalagsins með sterkustu flugherina – sem myndu segjast ætla að loka og verja lofthelgi Úkraínu þyrfti að vakta flugrýmið og vera tilbúin með viðbrögð og verja lofthelgina yrði hún brotin. Skjóta niður rússneskar flugvélar.
„Óvissa eða mislestur er versti vinur öryggis Evrópu, öryggi heimsins“
Þetta snýst nefnilega ekki aðeins um að gefa út yfirlýsingu, heldur verða aðgerðir að fylgja orðum og mig grunar að það sé nokkuð skýrt að ekkert okkar vill láta á reyna hvort Pútín sé alvara með stóru kjarnorkuorðin. Með því að taka hraðar, illa ígrundaðar skammtíma ákvarðanir er mun líklegra að átökin stigmagnist óvart í átt sem við viljum alls alls ekki sjá. Óvissa eða mislestur er versti vinur öryggis Evrópu, öryggi heimsins.
Lofthelginni var til að mynda lokað í Írak, í Líbýu, hún vöktuð, flugvélar skotnar niður. Það þýddi beinar hernaðaraðgerðir Vesturlanda í Líbýu. Bandaríkin beita gjarnan þeirri taktík að ná valdi á himnunum. Og þó svo slíkar aðgerðir hafi virkað gegn Saddam, gegn Gaddafi þá er það ekki endilega lausnin í þessum átökum. Við verðum að muna að leiðtogar þeirra landa áttu ekki kjarnorkuvopn.
Ekkert stríð vinnst einungis með yfirráðum í lofti
Lokaðri lofthelgi þarf að geta verið beitt sem raunverulegri hótun, og enn sem komið er virðast Vesturlönd ekki vera tilbúin til að stigmagna átökin með þeirri hótun. Hvers konar viðmið þarf til þess að NATO gangi inn í átökin? Hversu mikið mannfall? Hversu skelfilegum vopnum þarf að vera beitt? Og hversu nálægt falli þarf úkraínski herinn að vera til þess að bandalagið grípi til úrræða?
„Myndirnar munu verða ljótari. Upplifun okkar af hjálparleysi og aðgerðaleysi mun verða verri“
Það er vissulega mikil vörn í því að ráða yfir himnunum, en ekkert stríð vinnst með einungis yfirráðum í lofti og yfirráð í loft næst ekki nema að ráðast á skotmörk á jörðu niðri. Úkraínumenn hafa loftvarnarbúnað og Rússar hafa ekki enn sem komið er beitt miklum lofthernaði. Við erum ennþá í fyrstu vikum stríðsins. 12 sólahringar er ekki langur tími. Mannfallið er enn ekki mjög hátt. Þó svo að beint fréttastreymi af bardögum láti okkur líða eins og það sé heil eilífð liðin þá mun mannfallið aukast. Myndirnar munu verða ljótari. Upplifun okkar af hjálparleysi og aðgerðaleysi mun verða verri.
Flest okkar eru ekki vön að hafa stríð handan við hornið. Stuðningurinn er mikill um alla Evrópu og þjóðir lýsa upp byggingar og spila úkraínska þjóðsönginn. En horft á átökin í gegnum hina illa rispuðu og möttu linsu raunsæis þá getum við ekki komið Úkraínu til varnar án þess að dragast inn í átökin, þó svo við getum vissulega komið þeim til aðstoðar eftir öðrum friðsamari leiðum sem ekki stigmagna átökin. Í stríðsheiminum getir nefnilega munurinn á vörnum eða aðstoð verið það sem sker úr um hver dregst inn í átökin, hvenær og með hvaða hætti.
Það er hins vegar enn önnur og stærri spurning, hvort að Vesturlönd, meðvituð um að þau muni óneitanlega dragast inn í átökin á endanum ættu að rífa plásturinn af strax og koma Úkraínu til varnar strax með flugbanni til að verja almenna borgara og álfuna alla?
Athugasemdir (1)