Pútín hefur tekist það sem Bandaríkjunum hefur ekki tekist undanfarna tvo áratugi; að fá álfuna til að endurmeta öryggislandslag sitt, þjappa NATO saman og fá Evrópuþjóðirnar til að setja öryggismál í forgrunn stjórnmála sinna. Meira að segja Þjóðverjar, þjóð sem hefur verið logandi hrædd við að gera nokkuð sem gæti látið landið líta út fyrir að hafa áhuga á að herja á aðra eða einu sinni verja sig frá lokum seinna stríðs, ætla að stórauka framlag sitt til öryggis- og varnarmála. Ég leyfi mér að segja alger straumhvörf í þýskri utanríkisstefnu. Finnar og Svíar eru með gerbreytt viðmót til NATO-aðildar. Danir setja þátttöku sína í varnarmálastefnu Evrópusambandsins í þjóðaratkvæðagreiðslu - eitthvað sem ríkisstjórnir Danmerkur hafa ekki þorað að gera síðan þær tillögur voru felldar þónokkrum sinnum á 10. áratug síðustu aldar og tíðarandinn aldrei verið réttur, fyrr en nú. Evrópa hefur ekki varið nægilegu til varnarmála undanfarna áratugi og Pútín tókst heldur betur að „leiðrétta“ það.
Leiðtogar Evrópu, sérstaklega leiðtogar Frakklands, Þýskalands og Bretlands eða E3 - ‘the big three’ – sem er sameiginlegur vettvangur landanna þriggja til ræða utanríkis- og öryggismál, hafa reynt sitt til að miðla málum en lítið gengið.
Óhætt að segja að sú samstaða sem hefur myndast sé líklega andstæða þess sem Pútín vildi og gefur mögulega til kynna strategískan mislestur í landslagið í Evrópu og það hvernig innrásinni í Úkraínu yrði tekið. Meira að segja bilið yfir Ermasundið hefur minnkað snögglega á síðustu tveimur vikum.
Pútín hefur gefið skelfilega skýr skilaboð um afleiðingarnar ef Finnland eða Svíþjóð myndu ganga í NATO, eða ef NATO blandaðist með beinum hætti í átökin. Kröfurnar sem Pútín lagði fram fyrr í dag eru skýrar. Algert hlutleysi Úkraínu verði stjórnarskrárbundið, Krímskagi og Donetsk tilheyra Rússum, og hernaðarlegri uppreisn gegn innrás Rússa verði hætt.
Óþægilega líkt orðræðunni fyrir Íraksstríðið
Greinendur gera tilraunir til þess að lesa í hvort innrásinsé að fara eins og Pútín vildi eða ekki. Hélt hann að þetta tæki bara nokkra daga eða er þetta að fara eftir hans strategísku áætlun? Rétt eins og þegar hinar Viljugu þjóðir réðust inn í Írak hélt Pútín því fram í yfirlýsingu fyrir helgi að rússneska hernum yrði „tekið sem frelsurum“ þegar herinn æddi inn í Úkraínu. Setning sem bergmálar óþægilega mikið við orðræðuna sem var notuð til að réttlæta innrásina í Írak.
Það tók þrjá mánuði að steypa Saddam Hussein úr sessi og það sér ekki enn fyrir endann á afleiðingum þeirrar innrásar. Ef Pútín hefur yfirtöku landsins í huga og ef Úkraínumenn halda áfram að berjast getur verið langt í lok þessara átaka. Eins og sagan af Írak og Afganistan sýnir þá er vitað mál að það er ekki einungis innrásin og valdayfirtakan sem skiptir máli, heldur það hvað gerist eftir innrásina - eftir að stjórnvöldum er steypt af stóli. Pútín virðist ekki hafa lært af þeim innrásum að það er sennilega fátt á þessari jörðu sem sameinar ósamstíga þjóð eins og sameiginlegur ytri óvinur.
Stríðið í Úkraínu getur dregist á langinn og langtíma efnahagsaðgerðir munu óneitanlega hafa áhrif á Evrópu. Hækkandi olíuverð, og hækkandi verð á hveiti ofan á verðbólgu sem hefur verið að hreiðra um sig eftir heimsfaraldurinn munu óneitanlega snerta almenning illa á einhverjum tímapunkti. Og hér á ég ekki aðeins við almenning í Evrópu. Rússland og Úkraína flytja út um 30% af hveiti í heiminum. Síðast þegar Rússland hætti að flytja út hveiti var árið 2010 vegna elda og uppskerubresta heimafyrir. Það, ásamt auðvitað mörgu öðru, hafði áhrif í Mið-Austurlöndum og árið 2011 hófst arabíska vorið. Ekki í fyrsta sinn sem náttúruhamfarir og uppskerubrestir virka sem hvati fyrir byltingar þar sem fyrir er pólitískur óstöðugleiki.
Evrópa þarf að búa sig undir langvarandi átök
Andspyrnuherir eða „International brigades“ sem fólk flykkist nú til að ganga til liðs við í Úkraínu – allt frá Danmörku og Finnlandi til Bandaríkjanna og Rúmeníu – nýta sér nágrannalönd til þess að sækja vistir svo sem fjármuni og vopn, skipuleggja sig, hlaða batteríin. Þetta er þekkt úr stríðum undanfarinna ára, Sýrland, Afganistan, Sómalía. Þannig notuðu Talibanar Pakistan, PLO Líbanon og fleiri nærtæk dæmi er auðvelt að finna. Ef eitthvað er víst í stríði er það að það er alltaf eitthvað yfirflæði (e. spillover) til nágrannaríkja þar sem átök geisa.
„Átökin í Úkraínu munu því alltaf hafa beinar öryggisafleiðingar á bæði Atlantshafsbandalagið og Evrópusambandið“
Nágrannalönd Úkraínu sem yrðu bækistöðvar slíkra uppreisnarhópa eru NATO og Evrópusambandslönd. Átökin í Úkraínu munu því alltaf hafa beinar öryggisafleiðingar á bæði Atlantshafsbandalagið og Evrópusambandið. Evrópa þarf að vera búin undir langvarandi átök og styrkja innviði og lýðræðisstofnanir sínar til að takast á við allskyns álag tengt stríðinu. Hvort sem er í formi flóttamanna, afleiðingar efnahagsþvingana, eða í formi baráttuhópa sem nýta sér nágrannalönd til að skipuleggja baráttuna við Pútín.
Evrópa hefur sýnt áður óþekkta samstöðu í stuðningi sínum við Úkraínu. Samstöðufundir, efnahagsþvinganir, aukin framlög til varnarmála, opin landamæri. Öll álfan beinir augum sínum að öryggis- og varnarmálum og óhætt að segja að málaflokkurinn hafi ekki fengið aðra eins athygli frá því við fall Berlínarmúrsins.
Ein afleiðing þessa er að nú læðist vofa aukinna öryggis- og varnarmálaútgjalda um Evrópu. Sannfæringin um að allt verði betra ef við verjum meiri fjármunum í byssur, sprengjur og þjálfun manna í að beita þeim. Óttinn á það til að hrekja fólk í öngstræti. Hinir mestu friðarsinnar breytast í föðurlandssinna. Og þegar við erum hrædd eigum við til að ýmist ríghalda í hluti eða kasta þeim frá okkur. Allt í nafni öryggis - tjáningarfrelsið, lýðræðið, gagnsæið. Hvað sem er til að upplifa ekki hræðslu. Ótti við utanaðkomandi ógn lagður saman við efnahagsþrengingar á stríðstímum getur verið hættuleg blanda. Þá fyrst verður samstaða mikilvæg. Þegar aðgerðir fara að snerta budduna okkar, orkuverðið okkar, brauðið okkar. Þjóðir hafa jú oft áður risið upp eða sundrast vegna hækkandi brauðverðs.
Það er því aldrei mikilvægari tími en einmitt núna til að leggja áherslu á lýðræðislega ferla og lýðræðislegar stofnanir, opin skoðanaskipti og gagnrýna hugsun svo við lærum af sögu aðdraganda síðasta stóra stríðs og verðum ekki þjóðerniskennd og blindri föðurlandsást að bráð.
Athugasemdir