Síðdegis á mánudag var mér tilkynnt að ég væri til rannsóknar fyrir að brjóta hegningarlög í tengslum við fréttaumfjöllun um „skæruliðadeild“ Samherja. Hún byggði á upplýsingum um samskipti starfsmanna og ráðgjafa útgerðarinnar þar sem lagt var á ráðin um að koma í veg fyrir að uppljóstrari í umfangsmiklu sakamáli, sem snýst meðal annars um mútugreiðslur til namibískra ráðamanna, myndi bera vitni í dómsmáli sem nú er til rannsóknar og meðferðar. Lögreglan boðaði mig í skýrslutöku, þar sem ég átti að fá réttarstöðu sakbornings, á þeim grundvelli að ég væri grunaður um að hafa brotið gegn ákvæðum hegningarlaganna sem fjalla um friðhelgi einkalífs.
Ég er ekki hafinn yfir lög. Því hef ég heldur aldrei haldið fram og mun ekki gera. Það er eðlilegt að lögreglan rannsaki glæpi og að þeir sem telja á sér brotið leiti réttar síns. Þar skiptir engu máli hvort um sé að ræða gott fólk eða vont, hvort ásakanir þeirra séu galnar eða réttmætar. Engin krafa er uppi um það af minni hálfu að lögreglan víki frá lögum eða dómaframkvæmd þegar mál sem varða störf þeirra koma til skoðunar. Þvert á móti hef ég, eins og aðrir blaðamenn, haldið þeirri sjálfsögðu og eðlilegu kröfu á lofti að farið verði að lögum.
Ólíkt mörgum öðrum störfum, þó alls ekki öllum, eru sérstakar kröfur og skyldur settar á blaðamenn. Þessum skyldum hef ég ekkert val um að fylgja. Ég brýt til dæmis lög með því að gefa upplýsingar sem gætu varpað ljósi á heimildarmenn sem treysta mér fyrir mikilvægum gögnum eða upplýsingum. Alveg sama hvort það kunni að vera uppi aðstæður þar sem það væri þægilegra fyrir mig persónulega að svara spurningum, af eða á, varðandi heimildir eða gögn.
Mín persóna hefur nefnilega ekkert vægi í þessari jöfnu. Hvað mér finnst þægilegt, heppilegt eða gott, skiptir engu máli.
Annað hlutverk sem lögin fela blaðamönnum er að meta hvað eigi erindi við almenning og hvað ekki. Þetta getur verið flókið verkefni því engar leiðbeiningar fylgja í lögum um hvað nákvæmlega á erindi og hvað ekki. Mistakist mér eða öðrum blaðamönnum við þetta mat má refsa okkur. Um það gilda líka lög, eins og allt annað.
Stundum fylgja þó gagnlegar leiðbeiningar með lögum. Dæmi um það eru greinar 228. og 229. í almennum hegningarlögum, sem snerta á friðhelgi einkalífs. Þar segir að þó að almennt varði það fangelsisrefsingu að verða sér úti um gögn eða upplýsingar og segja frá þeim eigi það ekki við ef að almannahagsmunir liggi við.
Þegar kemur að umfjöllun um „skæruliðadeild“ Samherja leikur enginn vafi á að upplýsingarnar vörðuðu almannahagsmuni. Það hefur enginn dregið erindið í efa.
Til að blaðamenn geti sinnt þessum skyldum sínum hafa verið sett inn í lögin fleiri svona ákvæði, þar sem blaðamönnum eru gefnar leiðbeiningar um hvað þeir mega og hvað ekki. Stundum er vísað beint til starfsins en í önnur skipti talað um almannahagsmuni eða tjáningarfrelsið.
Nýlega bauð fjármálaráðherra landsmönnum upp á fría kennslustund um þrískiptingu valdsins, sem hann þekkir mjög vel, enda allt í senn lögfræðimenntaður, hluti af löggjafarvaldinu og handhafi framkvæmdavalds. En til að bæta við kennslustundina þá er það sem sagt löggjafinn sem setur blaðamönnum reglurnar, framkvæmdavaldið fylgist með að við brjótum þær ekki og dómsvaldið, sem er það eina sem þessi ráðherra á ekki aðild að, sker úr um hvort það sé rétt og hvort það eigi að refsa okkur.
Þetta hefur þó alls ekki alltaf gengið upp svona. Íslenska ríkið hefur ítrekað gerst brotlegt við eigin lög gagnvart blaðamönnum, samkvæmt niðurstöðu Mannréttindadómstóls Evrópu. Það er því ekki sjálfgefið að aðgerðir og ákvarðanir þessara valdastólpa, jafnvel þó þeir séu þrír, séu löglegir og það hefur oft gerst að valdhafarnir fari algjörlega á mis við hvorn annan. Sama á við í öðrum löndum og því hefur oft reynt á Mannréttindadómstólinn að útskýra hvar línurnar liggja og hvar ekki. Hann hefur til að mynda slegið á fingur ríkja sem setja blaðamenn á sakamannabekk fyrir að vinna vinnuna sína. Bara sú aðgerð, þó ekki fylgi ákæra og dómur, er sögð af dómnum hafa áhrif á rétt almennings til upplýsinga.
Vegna þess að ég vil að farið sé eftir lögum og að ekki sé vikið frá þeim vil ég fá úr því skorið fyrir dómstólum hvort aðgerðir lögreglu standist lög, til að mynda Mannréttindasáttmála Evrópu, sem hefur lagalegt gildi á Íslandi. Lögmaður minn afhenti því í morgun Héraðsdómi Norðurlands eystra kæru fyrir mína hönd þar sem ég fer fram á að slíkur úrskurður verði felldur. Það er í samræmi við lög um meðferð sakamála. Sú afstaða hefur ekkert með mína persónu að gera eða að ég telji mig ekki þurfa að fara eftir lögum. Þvert á móti vil ég tryggja að farið sé eftir lögum og fá úr því skorið hvort aðgerðir lögreglustjórans á Norðurlandi eystra standist þau.
Ef síminn inniheldur það sem sést hefur á prentmiðlum og öðrum miðlum þá finnst mér full ástæða til að rannsaka innihald símanns.
Verður banani í morgunmat eða.........