Það tók Ísland átta ár að rísa upp úr rústum hrunsins 2008, en það er einmitt sá tími sem það tekur lönd heimsins yfirleitt að jafna sig eftir fjármálahrun.
Það var með öðrum orðum ekki fyrr en 2016 að kaupmáttur landsframleiðslu á mann á Íslandi náði að jafna metin frá hrunárinu 2008 eins og myndin sýnir. Hún er tekin úr gagnasafni Alþjóðabankans í Washington og sýnir þróun kaupmáttar landsframleiðslu á mann á Íslandi frá 1995 til 2020. Írland er haft með til samanburðar, því Írland mátti einnig þola þungan skell í fjármálakreppunni, þyngri skell en til dæmis Danmörk, Finnland, Noregur og Svíþjóð.
Gengið féll
Láttu þér nú ekki bregða, lesandi minn góður: Samkvæmt þessum tölum Alþjóðabankans var kaupmáttur landsframleiðslu á mann á Íslandi minni 2020 en hann var 2007. Því veldur ekki aðeins 60% samdráttur tekna ferðaútvegsins 2020 vegna heimsfaraldursins heldur einnig 16% gengisfall krónunnar að raunvirði – svo kallað raungengisfall sem hófst 2017.
Efnahagslífið í landinu hefur því ekki enn náð að rétta til fulls úr kútnum frá hruni. Kannski var varla við öðru að búast þegar fjármálaráðherrann sagði það í fyrra hafa verið mistök að biðja AGS um hjálp eftir hrun – líkt og brennuvargur sem hefur horn í síðu slökkviliðsins. Við getum þó huggað okkur við að AGS reiknar með viðsnúningi efnahagslífsins 2021 (tölurnar eru gerðar upp eftir á) og 2022. Vonandi gengur það eftir.
Atvinnuleysi jókst ...
Skoðum málið nánar.
Atvinnuleysi tvöfaldaðist og nam 6% af mannafla 2020 og 2021 og er enn langt yfir eðlilegu horfi. Yfirleitt er nú talið að 2% til 3% atvinnuleysi samrýmist jafnvægi á íslenzkum vinnumarkaði meðal annars vegna þess að þeir sem eru í vinnuleit eru jafnan skráðir atvinnulausir á meðan. Heimsfaraldurinn ber höfuðsök á auknu atvinnuleysi ásamt ómarkvissum viðbrögðum ríkisstjórnarinnar við faraldrinum.
Viðskipti við útlönd eru hallalaus, sem á vel við. Svo er einkum fyrrnefndu gengisfalli fyrir að þakka. Á hinn bóginn er ríkisbúskapurinn nú eftir nokkurt hlé rekinn með miklum halla sem nam 9% af landsframleiðslu 2020 þegar ríkisútgjöldin fóru upp fyrir helming af landsframleiðslu í fyrsta sinn síðan 2008-2011, einkum vegna faraldursins. Í hagspá AGS er reiknað með áframhaldandi hallarekstri ríkisins næstu fimm ár og samsvarandi skuldasöfnun.
Skuldir ríkisins jukust úr 60% af landsframleiðslu 2018 upp í 80% 2019 og 2020 og munu aukast enn næstu tvö ár, segir AGS, áður en þær ná að minnka á ný. Með hærri vöxtum munu vaxtagreiðslur af auknum skuldum segja til sín í ríkisrekstrinum næstu ár og bitna á nauðsynlegum fjárframlögum til annarra nota, einkum til heilbrigðis- og velferðarmála.
... og verðbólgan rauk upp
Fleira hangir á spýtunni.
Verðbólgan jókst í 4% 2021 og nemur nú í ársbyrjun 2022 tæpum 6% miðað við heilt ár. Mörgum bregður við þau tíðindi. Við vitum að atvinnuleysi hefur aldrei náð að festa hér rætur og höfum því yfirleitt ekki þungar áhyggjur af því um stundarsakir.
Öðru máli gegnir um verðbólgu því hér hefur hún að jafnaði verið mest á öllu OECD-svæðinu frá 1960 að Tyrklandi einu undanskildu, landi sem glímir nú eina ferðina enn við 20% verðbólgu og upplausn í efnahagsmálum. Meðalverðbólga í Tyrklandi frá 1960 til 2020 var 32% á ári, tvisvar sinnum meiri en meðalverðbólgan á Íslandi þessi 60 ár, 16% á ári. Til samanburðar var meðalverðbólgan í ESB-löndum 4% á ári.
Leysir verðbólgan akkerin?
Þess vegna fer um marga þegar verðbólgan gistir okkur aftur eins og segir í kvæðinu, því hún vekur upp gamlar minningar frá fyrri tíð. Þær eru geymdar en ekki gleymdar.
Verðbólgan hefur að sönnu rokið upp í mörgum nálægum löndum að undanförnu, meira að segja í Þýzkalandi þar sem hún mælist nú 5% og hefur ekki verið meiri þar síðan 1993. Verðbólgan á sér áþekkar orsakir í útlöndum víðast hvar þar sem aukin útgjöld almannavaldsins til að vernda heimili og fyrirtæki gegn afleiðingum faraldursins hafa aukið eftirspurn í efnahagslífínu. Við bætast truflanir í framleiðslu sem hafa hægt á vöruframboði svo sem marka má meðal annars af því að mörg flutningaskip með kínverskan varning innan borðs þurfa að bíða langtímum saman úti á Kyrrahafi eftir því að geta affermzt í höfnum Kaliforníu. Auðar hillur í bandarískum búðum vitna um sama vanda.
Meiri eftirspurn og minna framboð þrýsta verðlagi upp á við. Það er gömul saga. Af því stafar nú aukin verðbólga erlendis víðast hvar auk þess sem staðbundnir þættir geta lagzt á sömu sveif. Á Íslandi eiga sömu lögmál við nema hér leggst hækkun húsnæðisverðs og húsaleigu ofan á verðbólguvandann vegna ónógs framboðs húsnæðis auk fasteignabólu og brasks.
Verðbólguskot í nálægum löndum vekja ekki almennan ugg um að verðbólgan taki sér bólfestu því reynslan sýnir að verðbólur þar hjaðna jafnan hratt. Öðru máli kann að gegna um Ísland þar sem verðbólgan lék lausum hala þar til fyrir um 30 árum, ekki bráðum 100 árum eins og í Þýzkalandi þar sem óðaverðbólga geisaði árin eftir 1920.
Líklegt virðist að launþegar hér heima muni í næstu samningalotu síðar á þessu ári hugleiða hvort þeir þurfi að heimta bætur ekki aðeins fyrir kjararýrnunina af völdum þeirrar verðbólgu sem þá hefur þegar átt sér stað heldur ef til vill einnig fyrir þá verðbólgu sem þeir eiga von á eftirleiðis. Þetta getur gerzt ef verðbólgan leysir akkerin eins og það er kallað. Ólíklegt virðist þó að svo stöddu að verðbólgan leysi akkerin annars staðar á OECD-svæðinu en í Tyrklandi.
Hvað um Ísland?
Seðlabankinn hefur ákveðið að hverfa frá lágvaxtastefnu síðustu missera og hækka heldur vexti í áföngum til að sporna gegn útlánum bankakerfisins og aukinni verðbólgu. Bankarnir hafa að undanförnu þanið útlán sín til heimilanna en ekki til fyrirtækja í sama mæli. Nái verðbólgan að leysa akkerin getur hún með gamla laginu grafið undan lífskjörum almennings þegar fram í sækir. Einmitt þess vegna þótti nauðsynlegt um allan heim að kveða hana niður með talsverðum fórnum 1980-1990.
Vandinn á vinnumarkaði við þessar kringumstæður snýr ekki aðeins að hættunni á gamalkunnu víxlgengi verðlags og kaupgjalds heldur einnig að þeim möguleika að launþegasamtökin, undir nýrri forustu, telji umbjóðendur sína þurfa að sækja bætur fyrir ótæpilegar kaupgreiðslur til forstjóra fyrirtækja, embættis- og stjórnmálamanna og annarra hátekjuhópa. Misskipting hefur afleiðingar. Launþegar geta einnig litið svo á að þeim beri bætur í kjarasamningum vegna íþyngjandi vaxtahækkana húsnæðislána.
Lítið má út af bregða í landi þar sem kaupmáttur landsframleiðslu á mann var engu meiri 2020 en 2007 og hrunið 2008 hefur ekki verið gert upp nema til hálfs.
Athugasemdir (2)