Framkvæmdastjórn SÁÁ sendi rétt í þessu frá sér yfirlýsingu þar sem fram kemur að hegðun fyrrverandi formanns samtakanna sé fordæmd og að framundan sé gagnger skoðun og nauðsynlegar umbætur á öllu starfi samtakanna. Traust og trúnaður skjólstæðinga, starfsmanna og landsmanna allra sé lykillinn að tilveru SÁÁ. „Undir því trausti viljum við rísa. Við munum ráðast í gagngera skoðun og nauðsynlegar umbætur á öllu okkar starfi og kappkosta að tryggja öryggi skjólstæðinga okkar sem margir eru í viðkvæmri stöðu.“
„Við munum ráðast í gagngera skoðun og nauðsynlegar umbætur á öllu okkar starfi“
Stundin greindi frá því í gær að Einar Hermannsson hefði keypt vændi af konu sem glímdi við vímuefnavanda á árunum 2016 til 2018, þegar hann sat í framkvæmdastjórn SÁÁ. Þegar hann fór í framboð til formanns sumarið 2020 ætlaði konan að leggja fram kæru á hendur honum vegna vændiskaupa, sem er brot á hegningarlögum, en guggnaði á því. Hún óttaðist að falla vegna álagsins sem fylgdi því að leggja fram kæru.
Var skjólstæðingur SÁÁ
„Ég var hræðilega veik,“ sagði konan um stöðu sína þegar Einar keypti af henni vændi, en hún hafði glímt við illvígan sjúkdóm og leiðst út í neyslu fíkniefna, sem hún fjármagnaði með vændi. Konan var skjólstæðingur SÁÁ og óaði við tilhugsuninni um að vændiskaupandi gæti orðið æðsti stjórnandi samtakanna. Þegar fjallað var um kröfu Sjúkratrygginga Íslands á hendur SÁÁ hafði konan samband við Stundina til þess að segja sögu sína, því henni varð óglatt að sjá manninn koma fram í fjölmiðlum fyrir hönd samtakanna.
Á sama tíma hafði heilbrigðisstarfsmaður samband við starfsmann Embættis landlæknis til að spyrjast fyrir vegna þess að skjólstæðingur hans hafði trúað honum fyrir vændiskaupum Einars. Þegar konan hætti við að leggja fram kæru á hendur Einari ákvað heilbrigðisstarfsmaðurinn að fylgja málinu ekki eftir gagnvart Landlæknisembættinu með formlegri tilkynningu.
Brást við fyrirhugaðri umfjöllun
Einn stjórnarmeðlimur SÁÁ var sömuleiðis upplýstur um vændiskaupin á svipuðum tíma en aðhafðist ekki. Það var ekki fyrr en Stundin hafði spurst fyrir um málið í síðustu viku sem málið barst framkvæmdastjórn SÁÁ til eyrna og það var tekið fyrir á fundi sem leiddi til afsagnar formannsins.
„Ég iðrast að hafa farið þessa leið og að hafa valdið fjölskyldu minni sársauka“
Einar sendi af því tilefni frá sér yfirlýsingu þar sem hann kvaðst hafa svarað auglýsingu þar sem kynlíf var boðið gegn greiðslu, en gögn sýna hann hafa samband við konuna að fyrra bragði, semja við hana um vændiskaup, boða komu sína á næstu tíu mínútum og þakka fyrir samskiptin um einum og hálfum tíma síðar. Í yfirlýsingunni sagði hann sagði umfjöllun um málið kasta rýrð á samtökin ogsagðist iðrast þess að hafa valdið fjölskyldu sinni sársauka með framferði sínu. „Ég iðrast að hafa farið þessa leið og að hafa valdið fjölskyldu minni sársauka vegna hegðunar minnar. Bið ég alla þá sem málið varðar afsökunar á framferði mínu.“
Boða til aðalfundar
Varaformaður SÁÁ er Sigurður Friðriksson, en greint hefur verið frá því að hann hafi ekki tekið við störfum formanns vegna veikinda af völdum Covid-19 veirunnar.
Framkvæmdastjórn SÁÁ mun boða til fundar í aðalstjórn SÁÁ föstudaginn 28. janúar næstkomandi kl. 17.15 til að kjósa nýjan formann samtakanna.
„Umfram allt stöndum við með þolendum“
„Umfram allt stöndum við með þolendum,“ segir í yfirlýsingu frá framkvæmdastjórn SÁÁ.
Athugasemdir (2)