Mörg hundruð milljóna króna samanlagður hagnaður stjórnmálaflokka sem fá greiðslur samkvæmt fjárlögum er að mestu tilkominn vegna lögbundins framlags ríkisins. Þetta má lesa út úr ársreikningum flokkanna sem um ræðir fyrir árið 2020. Ársreikningarnir hafa verið birtir í heild sinni á vef Ríkisendurskoðunar, sem hefur eftirlit með fjármögnun stjórnmálastarfsemi á Íslandi. Flokkarnir átta sem voru á fjárlögum árið 2020 fengu samtals 831,5 milljónir frá ríkinu. Þeir skiluðu 305 milljóna króna hagnaði sama ár.
Flokkarnir sem um ræðir eru Sjálfstæðisflokkur, Vinstri græn, Framsóknarflokkur, Samfylking, Píratar, Viðreisn, Miðflokkur og Flokkur fólksins. Flokkarnir fá úthlutað eftir kjörfylgi í síðastliðnum þingkosningum. Úthlutun ársins 2020 og 2021 er samkvæmt niðurstöðum þingkosninganna 2017. Sjálfstæðisflokkurinn, sem fékk mest fylgi í þeim kosningum, fékk því mest af peningum frá ríkinu. Flokkurinn fékk árið 2020 rúmar 195 milljónir króna. Vinstri gæn, sá næststærsti, fékk 134 milljónir og Samfylking 103 milljónir.
Athugasemdir (8)