Á kaffihúsi við Tjörnina eru Martin og Yev, báðir innflytjendur en af ólíkum ástæðum. Martin flutti þegar tækifæri bankaði upp á, en Yev hafði ekkert val. Móðir hans flutti hingað þegar hann var of ungur til að hafa eitthvað um það að segja. Sú upplifun varð kveikjan að götuljósmyndaverkefni um hvað það er að vera innflytjandi.
Myndirnar kölluðust á við þá tilfinningu að tapa heimili sínu eftir flutninga en líða samt aldrei eins og nýi staðurinn sé heimilið þitt. Á meðan öll tengsl við hinn staðinn fjara út eða rofna og þú endar milli heima.
Martin er lagahöfundur og flutti hingað fyrir fjórum árum. „Þetta er góður staður þótt ég geti ekki enn með sannfæringu kallað hann heimili mitt.“ En heimili er hugtak sem þeir báðir hafa átt erfitt með að ná utan um.
Yev talar um fjölbreytnina hér. Alla þessa ólíku hópa sem hægt er að tilheyra. Þótt margir komi hingað á leiðinni eitthvert annað, ítrekar Martin koma margir sér þó einnig vel fyrir. Kannski sé það einmitt það sem geri heimili. Að finnast þú tilheyra og að líða vel.
Athugasemdir