Aðalfundur Barna- og unglingageðlæknafélags Íslands skorar á heilbrigðisyfirvöld og stjórnvöld að bregðast við stöðu geðheilbrigðismála barna á Íslandi. „Fundurinn skorar á heilbrigðisyfirvöld og stjórnvöld að bregðast við, ekki með fallegum orðum eða yfirlýsingum heldur skoða markvisst og heildrænt hvaða ráðstafana þarf að grípa vegna skorts á fagfólki, mönnunarvanda og skipulagsvanda sem einkennir þennan málaflokk,“ segir í opnu bréfi sem félagið sendi frá sér í dag, 10. desember.
Þar stendur einnig að leggja þurfi til fé svo hægt sé að byggja upp geðheilbrigðisþjónustu fyrir öll börn með geðrænan vanda alls staðar á landinu og að félagið lýsi yfir „alvarlegum áhyggjum af stöðu geðheilbrigðismála barna á Íslandi“.
„Í dag er staðan sú að börn sem þurfa á þjónustu að halda fá hana oft ekki fyrr en eftir að hafa beðið í 1 til 3 ár á biðlistum, hjá opinberum stofnunum og hjá sérfræðingum á stofu. Slík bið hefur alvarleg áhrif á þroska og líðan barns,“ segir í bréfinu.
Þá er einnig lýst yfir áhyggjum af því álagi sem hefur myndast á bráðaþjónustu Barna- og unglingageðdeildar í kjölfar Covid faraldursins en að sögn Guðrúnar B. Guðmundsdóttur, yfirlæknis á deildinni, eru 80% af innlögnum á deildina bráðainnlagnir og innlögnum fjölgað um 60% á þessu ári. Þessu skýrir hún frá í nýjasta tölublaði Stundarinnar þar sem fjallað er um stöðu geðheilbrigðismála á Íslandi í samaburði við Danmörku og reynslu aðstandenda barna sem þurfa á geðheilbrigðisþjónustu að halda.
Barna-og unglingageðlæknafélag Íslands segir í bréfi sínu að „ítrekað hefur verið bent á stöðuna“.
„Tilviljunarkenndar skipulagsbreytingar hafa verið gerðar af hálfu heilbrigðisyfirvalda án alls samráðs við barna- og unglingageðlækna sem hafa góða yfirsýn yfir stöðu málaflokksins.“
Athugasemdir (1)