Líftæknifyrirtækið Ísteka hefur rift samningum um blóðgjafir hryssa við bændur sem uppvísir urðu að illri meðferð á hrossum. Í myndbandi sem svissnesku dýraverndarsamtökin AWF/TSB birtu á Youtube á dögunum var sýnt frá blóðtöku þar sem hryssur voru barðar með spítum og stöngum meðal annars. Ísteka segir að í myndbandinu sjáist „dæmi um ólíðandi meðferð hrossa hjá samstarfsbændum líftæknifyrirtækisins Ísteka. Þessi meðferð er augljóslega brot á velferðarsamningum fyrirtækisins og viðkomandi bænda. Samningum við þá hefur því verið rift“.
Í tilkynningu Ísteka kemur ekki fram um hversu marga bændur er að ræða. Á þessu ári hafi fyrirtækið átt í samstarfi við 119 bændur um blóðtöku úr hryssum. Blóðið er nýtt til lyfjaframleiðslu. Gerðir séu bæði viðskiptasamningar og sérstakir velferðarsamningar við bændur. Meðferðin sem sjáist á myndbandinu sé augljóst brot á þeim velferðarsamningum.
„Þrátt fyrir að regluverk um blóðgjafir sé strangt og eftirlit mjög mikið er ljóst að óviðeigandi frávik geta komið upp. Slíkt er ekki liðið af hálfu Ísteka og samningum við bændur er rift ef ekki er staðið við þá.“
Þá segir í tilkynningunni að Ísteka hafi auk þess ákveðið að ráðast í umfangsmiklar umbætur á eftirliti með blóðtökunni. Fræðsla og þjálfun bænda verði aukin, velferðareftirlitsmönnum verði fjölgað og þeir verði framvegis viðstaddir allar blóðgjafir og myndavélaeftirlit verði með allri blóðtöku.
„Með þessu vonast forsvarsmenn fyrirtækisins til þess að ólíðandi frávik varðandi dýravelferð í blóðgjöf hryssna á Íslandi endurtaki sig ekki.“
Athugasemdir (6)