Leikmenn jafnt sem sérfræðingar veigra sér við því að halda uppi gagnrýnni umræðu um aðgerðir stjórnvalda í tengslum við Covid-19 faraldurinn, sökum þess að „þeim er mætt af fullkominni hörku og á stundum með svívirðingum. Þar gang því miður læknar, sem fá útrás fyrir hégóma í sviðsljósi fjölmiðla, hart fram.“
Þetta skrifar Óli Björn Kárason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, í grein í Morgunblaðinu í dag. Í greininni rekur Óli Björn hvernig „eitrað andrúmsloft óttans“ hafi myndast hér á landi á þeim rúmu tuttugu mánuðum sem liðnir séu síðan óvissustigi vegna kórónaveirufaraldursins var lýst yfir. Frelsið einstaklinga hafi, líkt og jafnan sé, orðið fyrsta fórnarlamb óttans.
„Til að magna ótta almennings er grafið skipulega undan trausti á heilbrigðiskerfið, sem þrátt fyrir allt er eitt það besta í heimi“
Óli Björn segir í grein sinni að hann hafi sjálfur í upphafi faraldursins tekið stöðu með heilbrigðisyfirvöldum. Hann hefði talið það réttlætanlegt og nauðsynlegt að stjórnvöld gripu til aðgerða til að verja líf og heilsu almennings, jafnvel þó það hefði í för með sér að frelsi einstaklinga yrði skert tímabundið. Það hefði enda skilað því að Íslendingum hefði í mörgu tekist vel upp í baráttunni við kórónaveiruna, þannig að svigrúm hafi verið myndað til að helstu stofnanir samfélagsins hefðu getað styrkt innviði sína til að takast enn og betur á við faraldurinn. Ekki síst hefði það átt við um heilbrigðiskerfið. „Skýrar vísbendingar eru um að svigrúmið hafi ekki verið nýtt,“ skrifar Óli Björn.
Meðalhóf þarf að ráða för
Gagnrýnin umræða um aðgerðir stjórnvalda á erfitt uppdráttar að mati þingmannsins, einkum sökum þess að þeim sem óski eftir rökstuðningi fyrir því hvers vegna frelsi einstaklinga sé takmarkað sé mætt af mikilli hörku. Segir Óli Björn lækna ganga þar hart fram. „Til að magna ótta almennings er grafið skipulega undan trausti á heilbrigðiskerfið, sem þrátt fyrir allt er eitt það besta í heimi.“
Óli Björn viðurkennir nauðsyn þess að stjórnvöld grípi til aðgerða til að verja almenning á hættutímum en um leið verði að gera ákveðnar kröfur til bæði stjórnvalda og heilbrigðisyfirvalda. Þannig verði þau viðmið sem unnið er eftir að vera skýr og taka mið af breyttum aðstæðum. Þá verði yfirvöld heilbrigðismála að nýta svigrúm til að auka viðnámsþrótt mikilvægra stofnana. Sömuleiðis verði að vera hægt að treysta því að ekki sé lengra gengið en þörf sé á, að meðalhóf ráði för og stjórnvöld virði grundvallarréttindi borgaranna en ekki sé kynt undir ótta til að réttlæta skerðingu á borgaralegum réttindum.
„Að málefnalegum athugasemdum og gagnrýni sé ekki mætt af hroka þeirra sem telja sig umboðsmenn valdsins og þekkingarinnar. Að spurningum sé svarað. Stjórnvöld hafa því miður uppfyllt þessar kröfur illa á síðustu tuttugu mánuðum. Líklegast er ekki við aðra að sakast en okkur sjálf, sem hlýðum tilskipunum gagnrýnislaust. Og þess vegna á frelsið í vök að verjast.“
“Niðurskurður á Landsspítalanum yfir árin”