Ef við viljum skilja hvers vegna neyðaróp hljóma úr nærri öllum deildum spítalakerfisins á Íslandi, hvort sem það er á bráðamóttöku, geðsviði, almennum legudeildum eða skurðdeildum, þurfum við að skoða tölur. Hér er samantekt á þróun fjölda sjúkrarýma á Íslandi frá þeim tíma þegar heilbrigðiskerfi Íslendinga taldist jafnvel hið allra besta í heimi, og til nútímans.
Þessar tölur hafa að mér vitandi ekki verið teknar saman á skýran hátt og engu líkara er en að feluleikur ríki um þessa þróun hjá hinu opinbera. Stofnunin Nordisk medisinalstatistisk komité (NOMESKO) hefur tekið saman tölfræði um heilbrigðismál á Norðurlöndunum og gefið út árlegar skýrslur um þessi mál frá árinu 1978. Þar má finna ýmsar lykiltölur, þar á meðal heildarfjölda sjúkrarýma fyrir öll heilbrigðissvið.
Þegar farið er yfir þessar skýrslur kemur í ljós að hagstofa Íslands, sem á að taka saman þessi gögn, hefur skilað sínum tölum til nefndarinnar mjög gloppótt. Til eru tölur frá 1987 til 1991, svo vantar íslenskar tölur (og þá einungis íslenskar) til ársins 1997, en svo halda Íslendingar áfram að trassa að senda þessar tölur þar til kemur til ársins 2007, en síðan hafa tölur verið gefnar út.
„Ekkert mál skiptir meira máli hér og nú, og ekkert er mikilvægara fyrir framtíð Íslands.“
Þegar þær tölur sem liggja fyrir eru skoðaðar er útkoman sláandi. Árið 1987 var heildarfjöldi sjúkrarýma á Íslandi 2835 eða 1212 á hverja 100 þúsund íbúa. Árið 1997 hafði sjúkrarýmum fækkað niður í 2432 á meðan Íslendingum hafði fjölgað um nokkra tugi þúsunda. Fjöldi sjúkrarýma á hverja 100 þúsund íbúa hafði þá minnkað í 910. Áratug síðar, árið 2007, var heildarfjöldi sjúkrarýma 1264, eða 412 rými á hverja 100 þúsund íbúa. Árið 2011 voru sjúkrarýmin orðin 1056, 329 á hverja 100 þúsund íbúa. Síðustu tölur, fyrir árið 2019, eru svohljóðandi: Heildarfjöldi sjúkrarýma á Íslandi: 1009, 280 á hverja 100 þúsund íbúa.

Löngu komið yfir hættumörk
Það er langt síðan íslenska heilbrigðiskerfið var orðið svo veikburða að það var ekki í stakk búið til að takast á við óvænta viðburði á borð við náttúruhamfarir, sjúkdómsfaraldra eða almennt aukinn fjölda á veikindum og slysum. Árið 2018 sagði Páll Matthíasson, þáverandi forstjóri Landspítalans, að nýting sjúkrarýma á bráðadeildum spítalans hefði verið um 100 prósent, og farið upp í 117 prósent við lok árs (Fréttablaðið, 2018). Miðað væri við að nýting ætti ekki að vera meiri en 85 prósent að jafnaði svo hægt væri að takast á við sveiflur í lýðheilsu, en í þessu ástandi væri ekki hægt að tryggja öryggi sjúklinga. Ástandið hefur versnað síðan þá.
Nú getum við ekki brugðist við sveiflum í heilsu þjóðarinnar. Ef við berum okkur saman við frændur okkar í Færeyjum kemur Ísland illa út. Í Færeyjum eru þrjú stór sjúkrahús, Landssjúkrahúsið, Klaksvíkar sjúkrahús og Suðuroyar sjúkrahús. Á Landsjúkrahúsinu eru 120 sjúkrarými, á Klaksvíkursjúkrahúsinu eru 28, og á Suðuroyarsjúkrahúsinu 26. Alls eru þetta því 174 sjúkrarými (Heilsumálaráðið, 2021). Að auki eru sjúkrarými í minni stofnunum og árið 215 voru skráð 204 sjúkrarými Í Færeyjum búa nú 48.865 manns. Þetta þýðir að í Færeyjum eru 418 sjúkrarými á hverja 100 þúsund íbúa, meira en 100 rúm fleiri á hverja 100 þúsund íbúa en hér. Þó eru Færeyingar langt frá meðaltali í OECD. Í bæði Rússlandi og Þýskalandi eru um 800 sjúkrarými á hverja 100 þúsund íbúa (OECD, 2019).
„Þetta er smám saman að gera út af við þennan hóp starfsfólks.“
Þetta breytir miklu. Færeyingar eru vel í stakk búnir til að takast á við sveiflur í lýðheilsunni og heilbrigðisáskorunum sem koma upp. Til dæmis er ekki talið ríkja sérstakt neyðarástand í sjúkrahúsum Færeyja vegna covid-19, þrátt fyrir mikla fjölgun smita að undanförnu. Tummas í Garði, varaforstjóri Sjúkrahúsverks Færeyja, sagði þannig fyrir skemmstu að staðan væri ekki svo alvarleg. Þeir hefðu sérstaka sjúkradeild fyrir covid og nóg pláss væri enn á þeirri deild. Enn meira pláss væri svo á öðrum deildum Landssjúkrahússins ef þurfa þætti (Dagur, 2021). Sóttvarnarsérfræðingar þar sinna því starfi sínu að stappa stálinu í landsmenn og þurfa því ekki að ofgera hræðsluáróðrinum.
Á meðan Íslendingum hefur fjölgað ár frá ári og þar allra mest í elstu aldurshópum hefur sjúkrarýmum beinlínis fækkað hvert ár. Þetta er samt ekki allt og sumt. Starfsfólki hefur ekki fjölgað í takt við fjölgun Íslendinga, svo álag starfsfólks við að þjóna þessum fjölgandi og æ eldri hópi eykst einnig með hverju ári. Þetta er smám saman að gera út af við þennan hóp starfsfólks.
Það er ekki hægt að kenna farsótt um það hvernig komið er. Heilbrigðiskerfið getur ekki lengur tryggt öryggi vegna annarra sjúkdóma. Við þurfum að hafa í huga að árið 2019 til dæmis voru Íslendingar 356.992. Það ár dóu 2275 Íslendingar, eða tæplega 190 á hverjum mánuði, rúmlega 6 manneskjur á dag. Algengustu dánarorsakirnar voru hjarta- og æðasjúkdómar (701), krabbamein (642), sjúkdómar í taugakerfi og skynfærum á borð við Alzheimer og Parkinson (268), sjúkdómar í öndunarfærum á borð við lungnabólgu og inflúensu (170), geð- og atferlisraskanir (104), sjúkdómar í meltingarfærum (74), óhöpp (68), innkirtla- næringar og efnaskiptasjúkdómar (44) og sjálfsvíg (39). Sá sem vissi um feigð sína við upphaf árs 2020 gæti reiknað fram til þess að það væru um 30% líkur á því að dánarorsökin yrði hjarta- og æðasjúkdómar, 28% líkur á því að hún væri krabbamein, tæplega 12% líkur á því að hún væri Alzheimer eða skyldir sjúkdómar, 7% á því að dánarorsökin væru öndunarfærasjúkdómar aðrir en covid-19. Líkurnar á því að dánarorsökin væri covid-19 væru um 1%. Ef tíðni krabbameina og hjartasjúkdóma eykst til dæmis um nokkrar prósentur vegna lífsstílsbreytinga, of mikils biðtíma eftir meðferðum og eftirfylgni, eða annarra þátta, þá getur það kostað 100 mannslíf og enn fleiri örkuml.
Ástandið á heilbrigðiskerfi Íslendinga drepur og skaðar, á hverjum einasta degi. Allir þeir sem þurfa að bíða eftir meðferð geta fengið verri sjúkdómseinkenni og hlotið varanlegan skaða af. Í geðheilbrigðiskerfinu er til dæmis þannig komið að nærri vonlaust er að fá inn á bráðadeildir ef upp kemur neyðarástand. Þeir sem veikjast um helgar eða eftir klukkan 5 geta nánast gleymt því að fá hjálp, nema þeir vilji bíða á yfirfullri bráðamóttökunni í Fossvogi í marga klukkutíma, en jafnvel það er alls engin trygging. Þetta er ekki að undra. Sjúkrarýmum fyrir geðsjúkdóma hefur fækkað úr um 400 árið 1970 til 120 í dag. Deild eftir deild hefur verið lokað í laumi.
Fyrir þá sem lenda í bráðatilfelli geðsjúkdóms getur hver dagur skipt máli, og ef aðstoð er veitt of seint getur einstaklingurinn þurft að glíma við geðsjúkdóma og fylgikvilla þeirra það sem eftir er ævinnar. Önnur svið heilbrigðiskerfisins eru ekki í betri málum. Neyðaráköllin frá bráðasviði eru skerandi og skelfileg. En það er sama hversu hátt starfsfólk spítalanna hrópar, ráðastéttin yppir öxlum.
Lýðræðið sniðgengið – tungumál viðskiptalífsins tekur við
Það hvernig komið er fyrir heilbrigðiskerfi Íslendinga er glæpur gegn þjóðinni. Ef Íslendingar hefðu verið spurðir árið 1991 hvort þeir vildu hefja vegferð sem endaði þar sem við erum í dag hefðu fáir, kannski engir, svarað slíku játandi. Við vorum stolt af því að allir fengu úrvals heilbrigðisþjónustu, ókeypis og hratt. Við gerðum lítið úr Bandaríkjamönnum, sem höfðu einkavætt kerfi sitt. En það voru baráttumenn fyrir því að bæði grafa undan heilbrigðiskerfinu og svo að einkavæða eins og hægt var. Þetta var auðvitað aldrei gert á lýðræðislegan hátt, heldur gert í smáum, óheiðarlegum skrefum. Deildum og jafnvel heilu sjúkrastofnunum hefur verið lokað, einni eftir annarri, nánast í skjóli nætur. Á sama tíma voru einkareknar stofur, sem hafa nærri enga samfélagslega ábyrgð og eru reknar í gróðaskyni, opnaðar hér og þar og drógu til sín lækna sem vildu auka tekjur sínar. Nú er svo komið að nærri helmingur lækna LSH starfar einnig í einkarekinni stofu og er jafnvel bara í hálfu starfi hjá ríkinu. Gulrótin dregur til sín.
Hugsunarháttur nýfrjálshyggjunnar hefur gegnsýrt íslenska stjórnsýslu og náð til meintra vinstrimanna. Skýrsla heilbrigðisráðherra frá því í október 2020 er merki um það að hugsun og talsmáti gróðarekstursins er orðinn allsráðandi hjá þeim sem vinna á skrifstofum, fjarri gólfinu, við að taka ákvarðanir sem smátt og smátt kæfa heilbrigðiskerfið okkar. Skýrslan heitir „Aukin framleiðni og gæði heilbrigðisþjónustu með nýju fjármögnunarkerfi og leiðbeinandi viðmiðum“ (Heilbrigðismálaráðuneytið, 2020). Ef einhverjum finnst þetta vera veruleikafirrt tal með illskiljanlegu tæknimáli, þá er þetta einmitt það. Svandís Svarsdóttir skrifar nafnið sitt undir þessa skýrslu, hún er í „Vinstri grænum“.
„Það er ekki hægt að kenna farsótt um það hvernig komið er. Heilbrigðiskerfið getur ekki lengur tryggt öryggi vegna annarra sjúkdóma.“
Raunveruleg niðurstaða, þegar allt tæknimál er fjarlægt, er meiri niðurskurður og meira blóð. Farsóttin í fyrra, sem hver hugsandi manneskja hefði talið að myndi virka sem spark í afturendann á þjóðinni við að hefja stórfellda uppbyggingu á heilbrigðiskerfinu, leiddi til þeirrar niðurstöðu heilbrigðisráðherra, og annarra sem hafa hendur á stýri, að skera meira niður, spara, og ráðast í meiri einkavæðingu. Í minnisblaði frá Reyni Arngrímssyni, formanni Læknafélags Íslands, sem sent var til ráðherranefndar um samræmingu mála vegna Covid þann sjötta ágúst s.l. kom fram að á tímabilinu 1.1.2011 til 1.1.2021 hefði íbúum landsins fjölgað um 15,8% og 70 ára og eldri um 35,5%. Fjöldi sjúkrarýma miðað við hverja 100 þúsund íbúa hefði hins vegar fækkað úr 129 í 117 á sama tímabili og nýting sjúkrarúma væri um og yfir 100%. Fjöldi gjörgæslurýma á landinu á hverja 100 þúsund íbúa væri með því lægsta sem þekktist í löndum sem við miðum heilbrigðiskerfi okkar við (Læknafélag Íslands, 2021.

Krónunni kastað fyrir aura
Þau ósjálfráðu viðbrögð þeirra sem ákvörðunarvaldið hafa að skera niður í heilbrigðiskerfinu til að spara fé fyrir hagkerfið hafa eru hrein skammsýni af verstu sort. Heilbrigðismál eru ætíð stærsti einstaki útgjaldaliður hins opinbera, sem er fullkomlega eðlilegt, og því renna augu fjármálasviðs beint á heilbrigðiskerfið þegar borga þarf fyrir sóun á öðrum sviðum og draga fram hnífinn, allt skal skorið við nögl og aðeins dýpra. En ef það er eitthvað sem síðustu 20 mánuðir hefðu átt að kenna okkur, þá er það að öflugt heilbrigðiskerfi sem gerir ráð fyrir óvæntum atburðum er ekki einungis lífsnauðsynlegt heilsu okkar, heldur einnig efnahag.
Síðast þegar faraldur af þessari stærðargráðu reið yfir heimsbyggðina með hinni svokölluðu Hong-Kong flensu árin 1968-70, en giskað hefur verið á að hún hafi lagt allt að 4 milljónir manneskja í gröfina á heimsvísu, hafði Ísland nýverið reist glæsilegt sjúkrahús og nóg af bæði sjúkra- og öldrunarrýmum. Sú ákvörðun var tekin þá að reyna að láta samfélagið ganga eins eðlilega fyrir sig og hægt var, en gæta sérstaklega að þeim sem veikastir voru. Eflaust hafa margir fengið slæma flensu þann veturinn, en muna líklega ekki eftir því nú. En árin 2020 og 2021 er þetta ekki gerlegt.
Nú er nóg að 17 einstaklingar liggi með hina nýju pest á sjúkrahúsum til að lýst sé yfir hættuástandi. Gripið var til svipaðrar aðferðarfræði og notuð var á dögum spænsku veikinnar. Ótrúlega miklu fé hefur verið varið í skimanir, fyrirtækjum hefur verið lokað, ströng landamæravarsla hefur nánast þurrkað út stærstu tekjulind þjóðarinnar í hálft annað ár, sóttkvíarreglur hafa kostað ótal vinnustundir, skólar hafa lokað og veitinga- og skemmtistaðir hafa þurft að loka fyrir starfsemi sína. Ríkið hefur ausið út styrkjum, sem væntanlega koma að hluta til úr lánum hins opinbera, til þeirra sem hafa orðið fyrir vinnu- og tekjutapi, auðvitað mest til hinna ríkustu.
Íslendingar töpuðu mestu fé allra Norðurlandanna á meðan faraldrinum stóð og standa nú uppi með langtum meiri skuldir og neikvæðan viðskiptahalla en var fyrir bankahrunið 2008. Nú er óljóst hvaða fé á að vera hægt að nota til að byggja upp innviði landsins, þá auðvitað sérstsaklega heilbrigðiskerfið. Hefði verið hægt að bjarga einhverju af þessum efnahagslega skaða hefðum við haft heilbrigðiskerfi á við það sem við áttum fyrir einungis 3 áratugum? Svarið er augljóslega já og í ljósi þess sést betur hversu heimskuleg sú árlega ákvörðun að herða sultarólina á heilbrigðiskerfinu til að spara nokkra milljarða fyrir bókhaldið.
Sameinumst, strax
Á þessari stundu er rétt að Íslendingar leggi allt annað til hliðar og standi saman við eitt markmið: Endurreisn heilbrigðiskerfisins. Ekkert mál skiptir meira máli hér og nú, og ekkert er mikilvægara fyrir framtíð Íslands. Þetta skiptir auðvitað máli fyrir heilsu landsmanna og öryggi, en þegar glöggt er skoðað sést að framtíð íslenska hagkerfisins og í raun allra samfélagsstofnana veltur einnig á því að okkur takist þetta markmið, og okkur liggur á. Þeir sem standa í vegi fyrir þessari nauðsynlegu endurreisn heilbrigðiskerfisins, hvort sem það er með því að sveipa sannleikann með tæknimáli viðskiptafræðinga, eða með því að þagga niður raddir þeirra sem vinna á gólfinu, eru að fremja glæp gegn íslensku þjóðinni.
Athugasemdir