„Ég var 16 ára og hann 36 ára, hann notfærði sér það. Hann vissi hvað ég var gömul. Hann reyndi að followa mig á insta um daginn mörgum árum seinna, ældi næstum upp í mig. Fer svo að grenja í viðtali og lætur eins og kjáni og fórnarlamb. Dreptu mig ekki #kveikur“
Þetta skrifaði Jófríður Ísdís Skaftadóttir á Twitter í gærkvöldi. Hún segist í samtali við Stundina vera að vísa í umtalað viðtal við Þóri Sæmundsson í fréttaskýringarþættinum Kveik.
Yfirskrift viðtalsins var: „Hreinsunareldur Þóris Sæmundssonar“ og í kynningu þáttarins er sagt að Þórir hafi verið rísandi stjarna á íslensku leiksviði en eftir að kynferðisleg myndasending hans hafi komist í hámæli árið 2017 hafi hann verið utangarðs og fái hvergi vinnu.
Gerendur snúi ekki aftur án iðrunar
Í þættinum er spurt hvenær og hvernig fólk sem hafi misstigið sig eigi afturkvæmt í samfélagið. Og viðbrögðin í samfélaginu hafa ekki látið á sér standa. Sumt fólk segir mikilvægt að gerendur fái að tjá sig og gagnrýnir hina svokölluðu slaufunarmenningu sem leiði af sér ærumissi, annað fólk gagnrýnir að gerendur komist upp með að tjá sig án þess að sýna neina iðrun, án þess að virðast vilja bæta fyrir að hafa farið yfir mörk annarra, fyrir að hafa beitt ofbeldi, án þess að taka ábyrgð á hegðun sinni.
„Ég var sjokkeruð strax þegar ég sá kynningu þáttarins“
Jófríður tekur undir þetta og segist ekki skilja þá nálgun að meintir gerendur geti snúið til baka inn í samfélagið eins og ekkert hafi í skorist án þess að sýna iðrun og biðja þau sem þeir eru sakaðir um að hafa brotið á afsökunar.
„Ég var sjokkeruð strax þegar ég sá kynningu þáttarins og vissi ekki hvort ég ætti að hlæja eða gráta, svo fylltist ég reiði því ég veit ekki til að þessi maður hafi beðið þær sem hann er sakaður um að hafa komið illa fram við, afsökunar,“ segir Jófríður.
Nokkrar konur hafa eftir þáttinn í gær greint frá samskiptum sínum við Þóri á samfélagsmiðlum. Samskiptum sem þær segja að hafi átt sér stað þegar þær voru á aldrinum 16-18 ára og hafi verið óviðeigandi.
Jófríður segir í samtali við Stundina að einhliða umfjöllun ýfi upp gerendameðvirknina í samfélaginu.
„Ung hugrökk kona kom fram í fjölmiðli í gær og sagði frá heimilisofbeldi sem hún hafði orðið fyrir. Hún kom fram undir nafni og myndir voru birtar af henni. Það fékk litlar undirtektir á samfélagmiðlum svo kemur þetta viðtal við Þóri á RÚV og það fer allt á hliðina, fólk samhryggist honum og orð eins og „mannorðsmorð“ eru notuð. Þetta ýtir undir og styrkir gerendameðvirknina sem gerir lítið úr þeim sem hafa orðið fyrir kynferðislegri áreitni eða öðru kynbundnu ofbeldi. Þetta viðtal og viðbrögð margra við því er hlandblaut tuska í andlitið á þolendum,“ segir Jófríður og bætir við að hún sé að beina orðum sínum til fjölmiðla sem birti einhliða umfjöllun um svo viðkvæm mál. „Ég er orðin langþreytt á því hvernig umræða um kynferðisbrot er hér á landi. Gerendum er hampað og þolendur eru skrímslavæddir. Þolendur eru sakaðir um að eyðileggja líf og frama gerenda sinna með því að stíga fram, meðan þeir sjá alveg um það sjálfir með sínum gjörðum og algjörum skorti á iðrun,“ segir Jófríður.
Hafði veruleg áhrif á hana
Jófríður segir að málið hafi tekið verulega á hana þegar hún var 16 ára en að hún hafi unnið mikið úr því síðan. „Þetta var fyrir sjö árum. Ég var mjög ringluð á þessum aldri og brotin. Ég hitti hann eftir að við höfðum náð saman á Tinder. Í prófílnum mínum þar stóð að ég væri 18 ára en þegar ég og Þórir hittumst sagði ég honum strax að ég væri 16 ára. Honum fannst ekkert athugavert við það og við sváfum saman. Það var ekki þvingað samræði, en ég var svo ung og brotin að strax daginn eftir lokaði ég á öll samskipti við hann og reyndi að gleyma því sem hafði gerst. Mér leið mjög illa en kunni ekki að orða það sem ég veit í dag að var valdamismunun. Hann var ekki bara helmingi eldri en ég, og ég unglingur, heldur var hann líka frægur leikari. Það ýfði sárin þegar fréttir af hans atferli voru sagðar fyrir nokkrum árum og þegar hann reyndi að nálgast mig að nýju fyrir nokkrum mánuðum á Instagram. Það vakti með mér óhug,“ segir Jófríður.
Setji sig í spor þolenda
Sem fyrr segir var spurning Kveiks í gær hvenær og hvernig fólk sem hafi misstigið sig eigi afturkvæmt í samfélagið.
Rannveig Ágústa Guðjónsdóttir, doktorsnemi við Menntavísindasvið Háskóla Íslands, hefur skoðað kynbundið ofbeldi út frá gerendum og skoðað sýn geranda á gjörðir sínar. Hún segir að það sé mikilvægt að gerendur gangist við brotum sínum, þeim sársauka sem þeir hafa valdið með því að setja sig í spor þolenda.
„Það er allskonar umræða í gangi um þessi mál í samfélaginu og hún er að breytast með aukinni þekkingu á afleiðingum ofbeldis. Það er kominn meiri fókus á réttlæti brotaþola og þeirra rými. Það er ákall eftir þessum breytingum og það eru ekki bara gerendur sem vilja það heldur brotaþolar líka því umræðan eins og hún er núna er skaðleg fyrir alla, ekki síst brotaþola. Það er talað um að gerendur sýni iðrun en brotaþolar hafa ekki endilega verið að kalla eftir því heldur frekar að gerendur taki ábyrgð á gjörðum sínum, að þeir gangist við brotum sínum og geri eitthvað í sínum málum, vinni gagngert með óæskilega hegðun sem veldur öðrum skaða,“ segir Rannveig.
„Það er talað um gerendur sýni iðrun en brotaþolar hafa ekki endilega verið að kalla eftir því heldur frekar að gerendur taki ábyrgð á gjörðum sínum“
Hún segir að það þurfi ekki að fela í sér að þeir komi opinberlega fram eða biðjist afsökunar. Brotaþolar séu jafn ólíkir og þeir séu margir.
„Við hljótum öll að vilja búa í samfélagi þar sem fólk á afturkvæmt á einhvern hátt en það er líka flókið að nálgast það. Gerendur þurfa að gangast við þeim sársauka sem þolendur þeirra upplifa. Þeir verða að sitja í þessum óþægindum, horfast í augu við hegðun sína, setja sig í spor þolenda til að reyna að sjá þann sársauka sem þeir hafa valdið. Það er mjög mikilvægt að þeir séu ekki að afsaka sig, heldur þvert á móti viðurkenna brot sín og sjái sársaukann sem brotin valda,“ segir Rannveig. Hún vonar að við sem samfélag séum á réttri leið þó að enn sé nokkuð langt í land.
„Við eigum eftir að taka þátt í mörgum óþægilegum samtölum áður en við náum því jafnvægi sem þarf til að ná sátt,“ segir Rannveig.
Ekki náðist í Þóri Sæmundsson við vinnslu fréttarinnar.
Athugasemdir