Pandóruskjölin er samansafn 11,9 milljón mismunandi skjala frá fyrirtækjum sem sérhæfa sig í að setja upp aflandsfélög og -sjóði. Skjölunum var lekið til alþjóðlegra samtaka rannsóknarblaðamanna, International Consortium of Investigative Journalists (ICIJ), sem deildi þeim með fjölmiðlum um allan heim; þar á meðal Stundinni og Reykjavík Media á Íslandi. Sömu samtök stóðu að birtingu upplýsinga úr hinum svokölluðu Panamaskjölum árið 2016.
Á Íslandi snerta Pandóruskjölin allt frá vatnsverksmiðju í Þorlákshöfn til flugvélaviðskipta á Tortóla, hýsingu kláms og fíkniefnasölusíðna á Íslandi en líka til þess sem varla verður útskýrt öðruvísi en sem ímyndarsköpun. Í gögnunum má finna upplýsingar um Íslending sem starfar sem öryggisvörður sem stofnaði aflandsfélag til að halda utan um 350 þúsund króna mánaðartekjur sínar. Og um annan sem rekur tiltölulega lítið eignarhaldsfélag í Sundagörðum sem á skúffufélag á Belize í óljósum tilgangi.
Athugasemdir (1)