Á mánudaginn síðasta þurfti Hanna Christel Sigurkarlsdóttir, íbúi á Seyðisfirði, að rýma húsið sitt vegna hættu hættu á skriðuföllum. Að hennar mati var henni ekki tilkynnt um hversu áríðandi rýmingin væri, hversu mikinn tíma hún hefði til að pakka, hvort hún þyrfti að koma sér strax út úr húsi með börnin sín tvö eða hvort hún gæti tekið sér tíma í að pakka. Enn fremur upplifði hún óljóst á þeim tímapunkti hversu lengi rýmingin myndi vara og þess vegna hverju hún ætti að pakka.
„Í sjálfri rýmingunni getur enginn sagt mér hversu áríðandi hún er og þá verður maður svo óttasleginn því maður veit ekkert. Auðvitað vill maður drífa sig því það veit enginn hversu áríðandi rýmingin er. Það virtist enginn vita hvort ég þyrfti að drífa mig út úr húsi strax eða hvort ég hefði einhvern tíma til að pakka almennilega,“ segir Hanna. Það þurfi því að hennar mati að koma upplýsingum bæði til þeirra sem sjá um rýminguna og svo þeirra sem verða fyrir henni.
Enginn sem fór yfir stöðuna
Því næst fer Hanna ásamt fjölskyldu sinni, maka og tveimur ungum börnum, fjögurra og tíu ára, í félagsheimilið Herðubreið og þar upplifir hún einnig að skorti töluvert á upplýsingaflæði. „Þegar við förum niður í Herðubreið þá er enginn sem talar beint við okkur og fer yfir stöðuna. Við fjölskyldan og allir bæjarbúar erum búin að lenda í þessu einu sinni áður og ég hélt að þessir verkferlar væru komnir lengra. Ég trúði því.“
„Mér finnst við ekki eiga að þurfa að biðja um þetta“
Hún segir að þegar skorti á upplýsingaflæði til íbúa verði meiri óvissa en þurfi og þá verði fólk „órólegt og pirrað“.
Daginn eftir eða síðdegis á þriðjudeginum er upplýsingafundur með sérfræðingi hjá Veðurstofunni. „Það var akkúrat það sem við þurftum en ég veit ekki hvort það hefði orðið af honum nema af því að ég og annar íbúi báðum um fund. Mér finnst við ekki eiga að þurfa að biðja um þetta. Þetta á bara að vera í verkferlunum,“ segir hún.
Vantar utanumhald
Að hennar mati vantar utanumhald á þessum óvissu tíma, sérstaklega í ljósi þess hve stutt er síðan íbúar Seyðisfjarðar stóðu í svipuðum sporum. „Það er svo stutt í sárin, maður er svo viðkvæmur og þá eykst álagið sérstaklega ef maður fær á tilfinninguna að það sé ekki verið að halda utan um mann,“ segir hún.
Hanna og hennar fjölskylda á ekki ættingja á Seyðisfirði sem geta hýst þau. Hún segir samfélagið á Seyðisfirði þó vera samheldið og fólk passi upp á hvort annað. Henni var fljótlega boðið húsnæði frá einum íbúanna en tímabundið. „Staðan er náttúrulega þannig í dag að það er allt tímabundið, við vitum ekkert hvað gerist.“
„Það virtist enginn vita hvort ég þyrfti að drífa mig út úr húsi strax eða hvort ég hefði einhvern tíma til að pakka almennilega“
Samkvæmt þeim upplýsingum sem hún hefur þó fengið á rýmingin að standa fram á mánudag en óvissan blasi enn við fjölskyldunni. „Svo byrjar aftur þessi óvissa og að fara á milli húsa. Samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef fengið verður rýmingunni aflétt á mánudag en þessi fleki, ég veit ekkert hvenær hann hættir að hreyfast. Hann hættir kannski ekki að hreyfast á mánudag og það mun rigna aftur. Þannig að við erum bara í mikilli óvissu.“
Hanna segir að ef það ríkir enn óvissa á mánudag muni hún þrýsta á eftir svörum um hvað taki við. „Ég er þá að vonast til að fá að heyra frá sveitarfélaginu eða bara einhverjum hvað við eigum þá að gera.“
Athugasemdir