„Loks skil ég orðið kulnun líkamlegum skilningi enda prófaði ég í haust að ganga á vegg,“ deildi ég með vinum mínum á Facebook um daginn. „Ég var stödd í sundi, þessu kjörlendi mínu, þegar ég fór skyndilega að hágráta og fann að mig langaði ekki að lifa. Ég vildi svo sem ekki deyja en lífið virtist óyfirstíganlegur þröskuldur. Sem betur fer er ég lausnamiðuð og leitaði samstundis uppi alla þá ókeypis samtalsmeðferð sem hægt er að fá á Akureyri þar sem ég dvaldi og uppgötvaði að ég þyrfti að einfalda líf mitt. Við það er ég önnum kafin núna.
Forsaga málsins er þessi: Það var aldrei einfalt að reka óhagkvæma rekstrareiningu eins og einyrkjafyrirtæki mitt en í kófinu varð reksturinn nær ómögulegur. Því betur beið mín bók að skrifa en það var ekki beinlínis auðvelt heldur. Eftir á að hyggja sé ég að skynsamlegast hefði líklega verið að bíða aðgerðarlaus með hendur í skauti eftir að farsóttin fjaraði út. Sjálfsbjargarviðleitnin fær mann hins vegar til að prófa allar útgönguleiðir, sem í mínu tilviki þýddi að í hvert sinn sem hömlum var aflétt reyndi ég að kenna en sat uppi með auglýsingakostnað vegna námskeiða sem mátti svo ekki halda þegar til kom. Eða eitthvað annað í þeim dúr. Ég vann líka að stærri samstarfsverkefnum sem ekkert gáfu í aðra hönd í kófinu en annarra vegna fannst mér ég þurfa að halda loga þeirra lifandi. Þannig gekk ég fljótt á eigin gleði.
Í sumar þáði ég skemmtilega vinnu í Gestastofu Kröfluvirkjunar en þurfti að sjálfsögðu líka að sinna verkefnum fyrirtækis míns. Stundum hafði ég unnið í fjóra tíma þegar ég fór loks í vinnuna og hún reyndist meira krefjandi en ég hafði talið. Það tók á að tileinka sér nýtt fræðasvið upp úr þurru, virkjana- og orkumál. Sumarið var þó yndislegt í öllum sínum einfaldleika í vinnubúðum með fullu fæði og fegursta veðri á fjöllum. Ég lofaði guð kvölds og morgna en öðru hvoru tók þó að skjótast upp í koll mér óskýr hugsun um að lífið væri ekki þess virði að lifa því.
Í byrjun september dvaldi ég tvær vikur í Davíðshúsi á Akureyri. Ég ætlaði að eiga þar andlegar stundir yfir handriti bókar sem þarfnast einnar umritunar enn. Andríkið lét þó á sér standa enda stóðu yfir viðgerðir í húsinu og ef eitthvað ögrar æðruleysi mínu eru það iðnaðarmenn. Auk þess vissi ég ekki hvað biði fyrir sunnan; hvort ástandið leyfði námskeiðshald að nýju og hvort nokkur myndi eftir mér og mínu starfi eftir rofið í kófinu. Svo virkaði heldur ekkert; Google, Dropbox, World Press, Facebook Ads Manager, Rapyd ... Endalaus glíma við stafræna tækni var ekki það sem mig vantaði.
Hafandi tæmt úr tárasekkjunum í gufubaði í Sundlaug Akureyrar hringdi ég í 1717, Pieta-samtökin og pantaði tíma í Bjarmahlíð vegna þess að KSÍ-umræðan hafði vakið vanlíðan mína. Ég fór líka strax á fund hjá tólf spora-samtökunum mínum, neðanjarðarvelferðarkerfinu sem býður mér að droppa inn hvar og hvenær sem er og rekja ókunnugum raunir mínar. Síðan hefur kulnunin ekki látið á sér kræla en nú nota ég alla orku mína í að einfalda lífið,“ skrifaði ég vinum mínum á Facebook.
Að tala um töp sín og hnekki
Pistillinn skilaði mér hundruðum hjarta og heilandi heillaóska. Auðvitað taldi ég lækin. Ég tel alltaf lækin og ber saman við fjölda fyrri læka. Gæti það verið ein orsök kulnunar minnar? Fólk er upp til hópa ákaflega huggunarríkt ef á bjátar en þegar bataóskirnar tóku að hrúgast inn skammaðist ég mín fyrir að vekja máls á þessu. Það var eins og allir gerðu ráð fyrir að ég ætti langt ferli fyrir höndum við að verða aftur ég sjálf. Ég er orðin góð, takk fyrir, líklega af því að langt líf hefur kennt mér að bregðast skjótt við vanlíðan með því að tjá mig um hana.
„Það hæfir ei neinum að tala um töp sín og hnekki / og til hvaða gagns myndi verða svo heimskuleg iðja?“ spurði Steinn Steinarr árið 1942. Skáldið hefði örugglega ekki getað ímyndað sér að á því herrans ári 2021 yrði kona kölluð hetja fyrir að opna sig um töp sín og hnekki á samfélagsmiðli. En líklega voru það mistök mín að kalla minni háttar vanlíðan því stóra orði kulnun. Markmiðið með færslunni var samt að tilkynna að ég skildi loks alvöru þessa ástands. Upplifunin var ógnvekjandi þótt hún stæði stutt og nú er ég í óða önn að fyrirbyggja að kulnunin kræki í mig að nýju.
Raunir einyrkjans
Ég skil að fólk í launavinnu eigi erfitt með að takast á við bata vegna kulnunar, að launafólk fyllist samviskubiti yfir að aðrir þurfi að sinna vinnu þeirra. En okkur einyrkjunum býðst hins vegar ekkert bataferli. Enginn tekur við störfum okkar eftir að við brennum út. Kostir og gallar gigghagkerfisins svokallaða komu glögglega í ljós í kófinu. Margvísleg verkefni unnust betur utan við þunglamalegar stofnanir á meðan verktakar féllu á milli skips og bryggju við björgunaraðgerðir stjórnvalda sem sumum virtist hreinlega beint gegn sjálfstætt starfandi fólki.
Mér leið eins og Lísu í Undralandi. Vegvísar bentu í öfugar áttir og engin leið að vita hvert stefna skyldi. Enn líður mér svolítið eins og Lísu af því að þótt starfsemin sé aftur komin af stað er eins og ég þurfi að byrja frá grunni. Allt er breytt; markaðurinn, markhópurinn en ekki síst tæknin. Einyrki án tölvudeildar hringir ekki í Google til að spyrja af hverju tölvupóstar fyrirtækisins virðast ekki komast til skila né Facebook til að fá skýringar á breyttu auglýsingaumhverfi.
Hópkulnun
Gigghagkerfið er komið til að vera. Það hentar mörgum að starfa sjálfstætt, stjórnvöld ýta undir margbreytileika í atvinnusköpun og fjölmörg störf verða ekki unnin hjá fyrirtækjum eða stofnunum. Bókmenntir verða til dæmis sjaldnast skrifaðar á stofnun með fjögurra ára áætlun um viðfangsefni höfunda og söngvaskáld semja ekki baráttulög eftir pöntun. Í kófinu blasti mikilvægi lista við enda sáum við skýrt í einangruninni hvað listir efla lýðheilsu. Allir vilja njóta menningar og lista en í vaxandi mæli endurgjaldslaust eins og enginn sé launakostnaðurinn. Nú þegar augu okkar hafa opnast fyrir samfélagslegu gildi sjálfstætt starfandi fólks á akri menningarinnar skulum við taka höndum saman um að bæta starfsskilyrðin. Ég veit að fleirum en mér líður eins og Lísu í Undralandi nú um stundir. Ekki viljum við að listafólkið okkur lendi í hópkulnun.
Höfundur rekur fyrirtækið Stílvopnið – valdefling og sköpun ehf.
Athugasemdir