Allar spurningar þessa október-dags fjalla um Suður-Ameríku með einum eða öðrum hætti.
Fyrri myndaspurning:
Rithöfundurinn hér að ofan er frá Suður-Ameríku. Annars væri varla spurt um hana hér og nú. En hvað heitir hún?
***
Aðalspurningar:
1. Hvaða ríki í Suður-Ameríku tilheyra Galapagos-eyjar?
2. Í hvaða ríki var Atahualpa konungur?
3. Allir vita að Brasilía er stærsta ríki Suður-Ameríku að flatarmáli. En hvaða ríki er næst stærst?
4. Og þá á sama hátt — hvað er þriðja stærsta ríki álfunnar?
5. Kona nokkur átti eiginmann sem varð forseti í heimalandi þeirra en hún þótti ekki síður áhrifamikil en hann. Hún dó ung og var syrgð ákaflega í landinu, en seinna var saminn vinsæll söngleikur um ævi hennar. Hvað var hún kölluð?
6. Hæsti foss í heimi, Sálto Angel, er í einu ríkja Suður-Ameríku. Það er að segja ...?
7. Hvaða ríki Suður-Ameríku hafa unnið heimsmeistaratitilinn í fótbolta karla? Svarið þarf að vera nákvæmt. Þið megið sæma ykkur lárviðarstigi ef þið vitið upp á hár hve OFT lið frá Suður-Ameríku hafa unnið heimsmeistaratitilinn?
8. Hvað heitir fjallgarðurinn sem liggur eftir Suður-Ameríku endilangri?
9. Ákveðinn tónlistarstíll spratt upp í Brasilíu í byrjun 20. aldar. Þar blönduðust portúgölsk og brasilísk þjóðlagahefð við ryþma afrískra íbúa og úr varð einkar dansvæn og mjúk tónlist. Hvað kallast hún? Athugið að vissulega kemur hér kannski fleira en eitt svar til greina, en ég er að spyrja um frægustu og auðþekkjanlegustu tónlistarstefnuna sem þetta á við.
10. Í Suður-Ameríku er ríki sem var eitt sinn nýlenda undir stjórn Breta. Árið 1667 var gerður samningur þar sem Bretar létu nýlenduna af hendi við Hollendinga, en fengu í stað smáborg eina sem Hollendingar höfðu reist í Norður-Ameríku, og var sú borg síðan nefnd New York. En hvað heitir nýlendan í Suður-Ameríku sem Hollendingar fengu í staðinn fyrir New York og er nú sjálfstætt ríki?
***
Seinni aukaspurning:
Í hvaða suður-amerískri borg er ljósmyndin hér að neðan tekin?
***
Svör við aðalspurningum:
1. Ekvador.
2. Ríki Inka, en það er líka leyfilegt að segja Perú.
3. Argentína.
4. Perú.
5. Evita. Landið er Argentína.
6. Venesúela.
7. Úrúgvæ, Brasilía og Argentína. Þau hafa unnið HM-gullið alls níu sinnum.
8. Andesfjöll.
9. Samba.
10. Súrínam.
***
Svör við aukaspurningum:
Konan á efri myndinni heitir Isabel Allende.
Borgin á neðri myndinni er Rio je Janeiro.
Ef þið hafið verið í vafa, þá áttuði að þekkja borgina af handlegg hinnar risastóru Jesú-styttu sem gnæfir yfir borgina.
Athugasemdir