Dyravörður á skemmtistaðnum Prikinu við mót Bankastrætis og Ingólfsstrætis hrinti konu í veg fyrir leigubíl á nokkurri ferð um klukkan 10 í gærkvöldi.
Fjöldi fólks sá atvikið eða heyrðu dynk þegar keyrt var á konuna. Leigubílsstjórinn sem ók bifreiðinni æpti upp yfir sig af skelfingu þannig að heyrðist um miðbæinn, miður sín yfir atvikinu.
Konan lá hreyfingarlaus í götunni eftir að keyrt var á hana. Samkvæmt sjónarvotti sem Stundin ræddi við tók dyravörðurinn sig þá til við að lyfta konunni af götunni og upp á gangstétt.
Skömmu síðar kom ómerktur lögreglubíll á svæðið. Dyravörðurinn var handtekinn af lögreglu í kjölfarið.
Í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu er atvikinu lýst svo: „Um klukkan 22:00 var dyravörður handtekinn í miðbæ Reykjavíkur fyrir að hrinda konu í veg fyrir bifreið sem var ekið fram hjá skemmtistaðnum. Konan meiddist á hendi og var flutt á slysadeild.“
Athugasemdir