Pétur Guðjónsson, fyrrverandi stjórnandi hjá Marel, er skattakóngur ársins 2020 í Mosfellsbæ og Kjós með miklum yfirburðum. Alls greiddi Pétur, sem búsettur er í Kjósinni, 112 milljónir króna í skatta á síðasta ári, að stærstum hluta í tekjuskatt og útsvar. Pétur greiddi aðeins rúmar 9 milljónir í fjármagnstekjuskatt á árinu. Heildartekjur Péturs á síðasta ári námu rúmlega 271 milljónum króna. Þar af voru fjármagnstekjur um 42 milljónir. Launatekjur Péturs á mánuði námu rúmum 19 milljónum.
Síðasta haust kom út bók Sirrýar Arnarsdóttur, Þegar karlar stranda – og leiðin í land, þar sem hún ræðir við karla um kulnun, örmögnun og streitu. Einn þessara karla var Pétur sem lýsti því að læknir hefði greint hann með alvarlega kulnun og hann því farið í ótímabundið leyfi frá störfum til að reyna að ná heilsu á nýjan leik. Í viðtali sem tekið var við Pétur og Sirrý í Fréttablaðinu í september á síðasta ári sagði Pétur að hann væri kominn með um 80 prósent af orku sinni til baka en yrði aldrei eins og áður. „Ég fer aldrei meira en upp í áttatíu prósent og það er allt í lagi, þetta er verra fyrir þá sem yngri eru. Þetta er háalvarlegt mál.“
Athugasemdir