Kaupum seglbát, sagði sambýlismaður minn fyrir rúmum tveimur árum síðan. Mér fannst hugmyndin fjarstæðukennd, ég var ófrísk og við áttum fjögurra ára gamalt barn. Hann var á þeim tíma atvinnulaus og ég í námi, heildartekjur okkar voru langt undir fátæktarmörkum. Mér leist líka ekkert á að kaupa bát. Ég hafði alltaf verið haldin djúpstæðum ótta við sjóinn, ólíkt flestum Íslendingum ólst ég ekki upp við að sjá sjóinn eða umgangast hann. Mig sundlaði í hvert sinn sem ég svo mikið sem steig fæti á bryggju og lögun fæðingarbletts yfir vinstra lunganu á mér hafði talið mér trú um að ég hefði drukknað í fyrra lífi eða ætti eftir að drukkna í þessu lífi.
Fyrir tuttugu árum síðan fór ég í frí með skólafélögum mínum í lítinn túristabæ við Dalmatíuströndina í Króatíu. Við ákváðum að leigja hjólabáta og fórum langt frá ströndu, út á miðjan flóann. Sólin skein og svitinn rann niður bak okkar og bringur og við drukkum bjór úr brúnum glerflöskum til að svala þorstanum. Ég drakk of marga, auðvitað, og skyndilega gleymdi ég óttanum. Skyndilega var stillt, djúpblátt yfirborðið bæði blíðlegt og lokkandi að sjá. Þegar félagar mínir fóru að kasta sér út í sjóinn og svamla, hlæjandi og öskrandi, stóð ég á fætur og stakk mér líka. En þegar ég fór undir sjávaryfirborðið mætti mér enginn plastaður botn eins og ég hafði vanist í sundlaugunum sem ég stundaði heima heldur hyldýpi. Í stað þess að spyrna við, svamla upp á við, leyfði ég mér að sökkva, dýpra og dýpra, heltekin af ískaldri undrun. Þegar ég rankaði við mér og fór loks að spyrna mér upp á við, leið mér eins og ég myndi springa, örmagnast áður en ég kæmist upp á yfirborðið. Þegar ég klauf loksins vatnsyfirborðið eins og nagli í gegnum spýtu greip ég andann á lofti og frussaði upp salti og slími en einhver kuldatilfinning sat eftir í mér, tilfinningin að ég hefði komist að einhverju um sjálfa mig.
Við notum bátinn til að búa til tekjur, sagði sambýlismaður minn. Hann var svo gott sem alinn upp á sjó, pabbi hans var sjómaður og hann sjálfur líka. Ég sigli með ferðamenn og við leigjum bátinn út á Airbnb á veturna, bætti hann við og þuldi upp alls konar tölur. Hann gerði viðskiptaáætlun og sótti námskeið í rekstri fyrirtækja í ferðamannaiðnaðinum, nýjustu gullnámu Íslendinga. Á endanum sannfærði hann mig. Svo bankann. Við fengum lán og keyptum gamlan og slitinn seglbát á Sikiley sem sambýlismaður minn sigldi til Íslands. Fyrsta sumarið möluðum við gull. Svo kom veiran.
„Nú býr vinur okkar í bátnum“
Nú býr vinur okkar sem við skulum kalla E. í bátnum. Vinur okkar sem við köllum E. er í felum. Ekki bókstaflega, ekki enn þá. En hann lætur ekki á sér kræla til að enginn verði hans var. Þeim mun minni athygli sem hann vekur, þeim mun ólíklegra er að lögreglan komi einn daginn og flytji hann burt í járnum, án þess að gefa honum tækifæri til að kveðja, án þess að leyfa honum að taka eigur sínar sem komast þó fyrir í einum litlum bakpoka.
Svo E. heldur sig á bryggjunni og situr á þilfari seglbátsins þar sem hann keðjureykir og drekkur appelsín. Hann er búinn að eignast vin sem býr í næsta bát, íslenskan sjómann með þykkar hendur og háls sem er alltaf rauður og veðurbarinn í framan. E. hjálpar honum að gera við mótorinn á bátnum sínum og sjómaðurinn kennir E. að sigla á seglbát í staðinn. Þegar við komum með börnin okkar ljómar E. allur upp. E G G E R T segir hann með þykkum hreim og breiðir faðminn út á móti vaggandi átján mánaða syni okkar.
E. á sjálfur þrjá syni, brosandi drengi með stór möndlulaga augu sem líkjast allir honum. Hann hefur aldrei hitt yngsta son sinn sem er þriggja ára. Mér þykir það svo leitt, segi ég. Þetta er allt í lagi, allt í lagi, segir E. og brosir hlýlega svo skín í örlítið dökkar tennur. Hann er yngri en við en virðist eldri.
Við kynntumst E. í apríl þegar yfirvöld sendu hann og vin hans á götuna fyrir að neita að fara í Covid-próf svo hægt væri að vísa þeim á brott. Ef þið hefðuð komið beint til Íslands mynduð þið fá umsvifalaust vernd en þið komuð fyrst til Grikklands svo við getum ekkert gert fyrir ykkur, segir Útlendingastofnun. En við vorum á flótta, við þurftum að flýja með gúmmítuðru yfir Miðjarðarhafið og þess vegna lentum við í Grikklandi, segja þeir. Reglur eru reglur, svarar Útlendingastofnun. Hendur okkar eru bundnar. Þið hafið alþjóðlega vernd í Grikklandi, farið þangað.
E. bjó fyrst um sinn í flóttamannabúðum í Grikklandi. Eina nóttina var frændi hans stunginn í hjartað með hníf af ofbeldismanni sem laumaðist inn í gáminn þar sem þeir sváfu. Hver braut þessa rúðu? sagði gríska lögreglan þegar þeir kölluðu á hjálp og settu svo E. í fangelsi fyrir eignarspjöll. Þegar E. fékk stimpilinn, alþjóðlega vernd í Grikklandi, var honum vísað úr flóttamannabúðunum. Hvert á ég að fara, hvar get ég sofið? spurði hann. Undir þessu tré, sagði gríski lögreglumaðurinn og benti langt í burtu.
Nú er ekki hægt að senda fólk úr landi nema það sé bólusett eða með neikvætt Covid-próf. Þess vegna reyndi íslenska ríkið að henda þeim sem aðstoðuðu ekki við brottvísun sína á götuna og taka af þeim alla þjónustu. Það var svo dæmt ólöglegt en dómsmálaráðherra hefur aldrei þurft að svara fyrir að hafa brotið lög, öllum er sama.
Ertu leiður, líður þér illa? spurði íslenski lögreglumaðurinn vingjarnlega þegar E. var hent út af heimilinu fyrir hælisleitendur. Já, mér líður mjög illa, svaraði E. Lögreglumaðurinn vissi, eins og heimsbyggðin öll, að á þessum tíma stóðu yfir stöðugar sprengjuárásir á heimaland hans, borgina, hverfið hans. Tilhugsunin um börnin sín liggjandi í húsarústum gerði E. öskugráan. Nú, fyrst þér líður svona illa hérna þá skal ég persónulega borga fyrir þig farið til Grikklands, hreytti lögreglumaðurinn í vin okkar og varð allur krepptur í framan eins og hnefi.
Mér þykir það leitt, mér þykir það svo leitt, segi ég þegar E. segir okkur frá þessu. Allt í lagi, allt í góðu lagi, segir E. og brosir áður en hann tekur fram símann sinn til að sýna mér nýjustu myndina af yngsta syni sínum. Annar fastur í landi sem er ekki til. Hinn fastur í stimpli upp á vernd sem er ekki til.
Athugasemdir