Það er merkilegt hvað hversdagsleg athöfn á hverdagslegum degi getur stundum haft mikil áhrif á líf manns. Ég var ein heima, tólf ára gömul, dag nokkurn að hausti 1978 og datt í hug að spila plötu. Og líf mitt breyttist.
Pabbi minn átti þessa hljómplötu en spilaði hana aldrei og ég vissi ekkert hvað á henni var. Það voru atriði úr óperunni „La Traviata“ eftir Giuseppe Verdi. Um leið og ég heyrði fyrsta lagið, hinn fjöruga drykkjusöng „Libiamo ne' lieti calici,“ varð ég stórhrifin. Ég fór að spila plötuna á hverjum degi og heillaðist sífellt meira af tónlistinni. Aldrei áður hafði ég notið tónlistar á þennan hátt. Áður en ég vissi af var ég komin með brennandi óperudellu og ég skrifaði í dagbók mína að ég ætlaði að verða leikkona og óperusöngkona – og undirstrikaði það.
Ég varð hvorugt. En óperuáhuginn varð til þess að ég hóf nám í Söngskólanum í Reykjavík árið 1982 og tók 3. stig í söng. Þetta tónlistarnám gerði mér kleift að sækja um starf dagskrárgerðarmanns á tónlistardeild Ríkisútvarpsins haustið 1990. Mér til undrunar fékk ég stöðuna. Og nú hef ég gegnt þessu starfi í rúm 30 ár. Hugsanlega hefði það aldrei orðið ef ég hefði ekki farið að spila plötu þegar ég var ein heima tólf ára gömul einn haustdag 1978.
Athugasemdir