Það mun vera sjaldgæft ef ekki einsdæmi að bræður þrír birti sjálfsævisögur sínar á prenti. En það gerðu þrír synir Þórðar Sveinssonar, Þórðar á Kleppi sem kallaður var, fyrsta starfandi geðlæknis á landinu og forstöðumanns og yfirlæknis geðveikrahælisins á Kleppi 1907–1939, og konu hans, Ellenar Johanne Sveinsson.
Hér segir frá sjálfsævisögum bræðranna þriggja. Bræðurnir á Kleppi voru reyndar sex og ein systir að auki, en hér segir ekki af þeim öllum heldur aðeins örstutt af sjálfsævisögunum þrem.
Gunnlaugur (1919–1998)
Fyrstur til varð Gunnlaugur Þórðarson, dr. juris sem kallaður var. Hann birti sögu sína Ævibrot 1990, leiftrandi sögu af ærslafullum uppvexti á Kleppi og litríkri ævi æ síðan. Ærslin fylgdu honum alla tíð. Þegar hann kom til Nýju Delí fleygði hann farangri sínum inn á hótel og rauk síðan út að skoða sig um í borginni og þá skall á svartamyrkur, það gerist líkt og hendi sé veifað á svo suðlægum breiddargráðum, og Gunnlaugur eigrar um í marklausu myrkrinu og sér varla handa sinna skil. Nema þá birtast honum breiðar hallardyr, hann lýkur þeim upp og öðrum dyrum enn og þar inni fyrir sitja við langborð síðskeggjaðir menn með vefjarhetti hvern öðrum hærri. Gunnlaugur segir við þá: Ég er rammvilltur, ég rata ekki heim, ég er Íslendingur. Þá segir þessi með hæsta vefjarhöttinn við borðsendann: Snæfellsjökull! Be my guest! Sögum eins og þessari raðar Gunnlaugur eins og perlum á band í bók sinni.
Af Gunnlaugi gengu einnig ýmsar sögur aðrar eins og þegar hann heimsótti syrgjandi ekkju í miðbænum snemma morguns til að bjóða henni alla þá lögmannsaðstoð sem hún kynni að þurfa á að halda. Hún þerraði tárin og þakkaði honum fyrir hugulsemina en sagðist vera sjálfbjarga. Þá sagði Gunnlaugur: Má ég þá ekki að minnsta kosti bjóða þér að koma með mér í sund? Hann fór um alla Austfirði að kenna heimamönnum blástursaðferðina og fékk þakkarbréf þaðan fyrir lífbjörg tveggja barna.
Gunnlaugur var skemmtilegur, framtakssamur og góðviljaður. Hann segir í bók sinni söguna af því þegar hann sem formaður framkvæmdaráðs Rauða krossins fór til Ungverjalands fyrir jólin 1956 að sækja rösklega fimmtíu ungverska flóttamenn eftir innrás Sovétríkjanna í landið fyrr um árið. Hann var úthrópaður „samviskulaus þrælakaupmaður“ í blaðinu Austurland. Það voru þakkir Austfjarðakommanna fyrir blástursaðferðina. Í hópi ungverska flóttafólksins voru tónlistarmenn og aðrir sem áttu eftir að setja sterkan svip á íslenzkt menningarlíf. Gunnlaugi þótti gott að vita af dönsku, frönsku og ítölsku blóði í æðum sínum.
Hann varði doktorsritgerð sína um landhelgi Íslands við Svartaskóla í París 1952 og lagði þar þjóðréttarkröfur Jóns Sigurðssonar forseta fyrir Íslands hönd til grundvallar og birti eftirleiðis um 60 blaðagreinar um málið innan lands og utan og gerði þar ítrustu kröfur við misjafnar undirtektir – og einmitt það var lausnin sem að endingu náði fram að ganga.
Agnar (1917–2006)
Agnar Þórðarson var mikilhæft leikskáld og birti einnig skáldsögur, smásögur og ferðabók auk tveggja magnaðra endurminningabóka. Verk hans voru flutt í leikhúsum, sjónvarpi og útvarpi og þýdd á ensku og pólsku þótt leikrit hans hafi ekki sézt á sviði í höfuðborginni um alllangt skeið. Það er skaði, því að t.d. Kjarnorka og kvenhylli (Iðnó 1955) er prýðilegt leikrit um auðlindapretti og á fullt erindi við nútímann, og það á einnig Gauksklukkan (Þjóðleikhúsið 1958) sem fjallar um brostnar vonir. Útvarpsleikrit Agnars, Víxlar með afföllum (1958), í níu þáttum, vakti svo mikla athygli á sinni tíð að göturnar tæmdust, eða svo var sagt. Þetta var leikritið sem gerði Flosa Ólafsson að þjóðfrægum leikara í hlutverki Danna. Útvarpið eyddi böndunum.
Minningabækur Agnars Þórðarsonar Í vagni tímans 1996 og Í leiftri daganna 2000 eru af öðrum toga. Þær vitna um höfund í stóru broti, skáld sem lifir og hrærist í bókmenntum heimsins alls og hefur sitt á þurru og þær búa yfir miklum og hóglátum þokka. Þetta eru minningar af því tagi sem stórskáld dreymir um að skilja eftir sig. Þær fjalla minnst um höfundinn sjálfan og þeim mun frekar um samferðamenn hans innan lands og utan og andrúmið í kringum þá, stefnur og strauma. Nafnaskráin að leiðarlokum telur um þúsund manns.
Með minningum sínum skipar Agnar sér í sveit með Halldóri Laxness sem birti fjórar mikið lesnar minningabækur sem sumir telja meðal beztu bóka hans. Minningabækur Agnars hafa eignazt færri lesendur líkt og minningar Hannesar Sigfússonar skálds (Flökkulíf 1981 og Framhaldslíf förumanns 1985) sem fóru fyrir ofan garð og neðan í bókaheiminum, hefur mér virzt. Hannes Sigfússon (1922–1997) var skjólstæðingur, aðdáandi og vinur Steins Steinars, nema Steinn gat engum veitt nokkurt skjól, ekki heldur sjálfum sér. Hannes kvaddi sér hljóðs sem atómskáld með kvæðabókinni Dymbilvaka (1949) og birti fáeinar aðrar bækur næstu þrjátíu árin og þýddi einar tuttugu að auki og lét annars lítið fyrir sér fara og birti að leiðarlokum þessar líka skínandi endurminningar þar sem hann sallar sjálfan sig niður. Bækur hans lýsa sviknum draumum, umkomuleysi og ævilangri fátækt á fögru máli.
Miklu bjartara er yfir breiðvirkum minningabókum Agnars Þórðarsonar en hann var samt enginn fjörkálfur á við bræður sína Gunnlaug og Úlfar.
Úlfar (1911–2002)
Ég stóð við diskinn á Oriental-hótelinu í Bangkok vorið 1978 á langri leið yfir hálfan heiminn frá Washington til Rangún, höfuðborgar Búrmu, sem hét þá svo, í embættiserindum. Og sem ég stend við innritunarborðið og bíð afgreiðslu vaknar sú hégómlega hugmynd í höfði mér að ef til vill hafi ekki margir Íslendingar gist þetta sögufræga hótel á undan mér nema þá kannski Þorvaldur Pálsson, ömmubróðir minn, sem var um skeið skipslæknir hjá Austur-Asíufélaginu, og aðrir slíkir. Nema þá heyri ég kunnuglega rödd. Nei, Gunnlaugur hér? – hugsaði ég, en það reyndist þá vera Úlfar bróðir hans, augnlæknirinn, í hvaða erindum man ég ekki lengur.
Næst bar fundum okkar Úlfars saman nokkrum árum síðar við fuglatalningu, en hann mun hafa tekið að sér við annan mann að meta stofnstærðir sjófugla við Ísland handa Almanaki Þjóðvinafélagsins, að mig minnir. Og þarna erum við saman komnir við dráttarbrautina í Keflavík eða hvar það nú var kl. sex að morgni jóladags eða annars í jólum, man ekki lengur hvort var, þar sem þeir Úlfar og Björn Guðbrandsson barnalæknir fóru fyrir hópi talnaglöggra unglækna og ég, tómstundalæknirinn, fékk að fljóta með. Svartamyrkur var og blindbylur í þokkabót nema þeir Úlfar stóðu þarna keikir og fullir eftirvæntingar með skriffæri á lofti. Ég man ég sá Úlfar banda hendinni til himins og hrópa: Þarna voru 35! Talan var færð til bókar. Og leið svo morgunninn þar til Úlfar og þeir töldu niðurstöðu talningarinnar trygga.
Unnur Úlfarsdóttir skráði Æviminningar föður síns eftir honum og birti á bók 2001. Þar rekur Úlfar fyrstu 35 ár ævi sinnar, æskuárin á Kleppi, viðburðasnauða vetur í Menntaskólanum í Reykjavík og þar næst þeim mun viðburðaríkari námsár í Þýzkalandi og fyrstu starfsárin heima og erlendis. Mun óhætt að segja að fæstum lánist á langri ævi að lifa svo sögulegu lífi sem Úlfar lýsir fyrstu 35 árum ævi sinnar í bókinni. Barnungur spurði ég föður minn hvort hann hefði séð Hitler. Séð hann? Hefði getað skotið hann! – var svarið, því faðir minn var í mannþrönginni á gangstéttum Vínarborgar þegar Hitler réðst þangað inn vorið 1938. Úlfar sá Hitler oftar en einu sinni og keppti fyrir Íslands hönd á Ólympíuleikunum í Berlín 1936. Hann var sundkappi. Til að komast frá Þýzkalandi heim til Íslands í stríðinu sigldi hann ásamt fáeinum félögum sínum litlum og nánast óhaffærum fiskibáti sem hét því góða nafni Frekjan í gegn um sæg tundurdufla og komust þeir allir af.
Bókum Úlfars og Gunnlaugs svipar saman, enda voru þeir líkir menn að upplagi. Þeir lifðu báðir hratt og höfðu eftir því mikið að gera og frá mörgu að segja. Mikið ertu alltaf fljótur að öllu, sagði Þórður faðir þeirra við Úlfar. En fljótfær virðist Úlfar ekki hafa verið eins og mörg vel heppnuð og vel hugsuð læknisverk hans vitna um. Agnar fór sér hægar en hinir.
Athugasemdir