„Það er líklegt að hraun renni þarna undir,“ segir Böðvar Sveinsson, náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, um athæfi fólks sem gekk yfir hraunbreiðuna í Nátthaga seinni partinn í dag. „Lífshættulegt að stíga út á hraunið. Mikilvægt sé því að fólk fari aldrei út á hraunið,“ segir í tilkynningu frá lögreglu. Á fimmta tímanum í dag voru samtímis þrjú pör gangandi langt inni á rjúkandi hraunbreiðunni.
Vaxandi fjöldi erlendra ferðamanna kemur að gossvæðinu og er hraunjaðarinn í Nátthaga aðeins í um hálftímagöngufjarlægð frá Suðurstrandarvegi. Ekki er ljóst hvort um erlenda ferðamenn eða íslenska er að ræða, en stór hluti þeirra sem kemur að hrauninu er ferðafólk erlendis frá.
Böðvar segir hraunrennsli hafa haldist stöðugt. Enn bætist því í hraunið í rásum sem liggja undir storknaðri hellunni, en hátt í 1.300 gráðu heitt hraunið getur brotið sér leið upp og runnið ofan á. „Það er sjóðandi hraun þarna undir og það geta komið hrauntjarnir. Það er hraun að renna undan og það kemur bara einhvers staðar. Fólk er að taka svakalega áhættu að ganga þarna.“
Þótt rjúki úr öllu hrauninu í Nátthaga er ástæðan að hluta til rigningin sem lendir á heitu hrauninu og gufar upp.
Hægst hefur á framgangi hraunsins í Nátthaga og var fólk um helgina við hraunjaðarinn. Á sama tíma hefur hraunrennslið breyst í Merardölum. Þar rennur nú hraun aftur til norðurs eftir að suðursvæði dalsins hefur fyllst.
Björgunarsveitarfólk og landverðir eru staðsettir við gossvæðið og hafa það hlutverk að leiðbeina ferðafólki. Þá eru landeigendur með yfirstandandi innheimtu fyrir bílastæði við svæðið, en ekki er að sjá að þjónusta eða leiðbeiningar fylgi þeirri innheimtu. Ekki náðist í fulltrúa landeigenda við vinnslu fréttarinnar.
Lélegt skyggni er við gosstöðvarnar og lítið sést á vefmyndavélum. Meðfylgjandi myndir hér að neðan voru teknar í Nátthaga í gær.
Athugasemdir