Þessi grein var skrifuð áður en andlitsgrímaskyldu var mestmegnis aflétt á Íslandi. Hins vegar dróst birting greinarinnar meðal annars vegna þess að henni var synjað um birtingu á skoðanasíðu Vísis og Kjarnanum. Þetta er framhaldsgrein en fyrri greinin fjallaði um að skortur væri á hágæða rannsóknum sem styðja virkni andlitsgríma gegn COVID-19. Þar var farið yfir að til séu athugunarrannsóknir sem ýmist styðja eða styðja ekki virkni gríma. Hins vegar eru athugunarrannsóknir ekki taldar vera hágæða rannsóknir því þar eru töluverðar líkur á svokölluðum blendnibreytum. Það er, ásamt grímum notaði fólk einnig hanska, sótthreinsi, fjarlægðartakmarkanir, hlífðargleraugu og fleira (sem eru blendnibreytur). Þar sem margt var mælt í einu er ekki vitað hvort andlitsgrímur hafi verið ábyrgar fyrir því að draga úr COVID-19 smitum. Slembiraðaðar íhlutunarrannsóknir eru því almennt taldar betri því þær raða í hópa af handahófi og beita inngripi (t.d. andlitsgríma) og einangra þannig betur breytur. Ein íhlutunarrannsókn hefur verið gerð á virkni gríma gegn COVID-19 og sú rannsókn fann ekki marktæka virkni gríma gegn smitum. Þar að auki hafa verið gerðar fjórtán íhlutunarrannsóknir á virkni gríma gegn inflúensuveirunni en engin af þeim fann að andlitsgrímur drægju marktækt úr inflúensusmitum. Þannig komust allar hágæða rannsóknir að sömu niðurstöðu (gátu ekki sýnt fram á virkni gríma) meðan niðurstöður athugunarrannsókna (rannsóknir með litla vissu) á grímum eru mismunandi. Grímunotkun meðal skurðlækna hefur meira að segja verið dregin í efa vegna skorts á rannsóknum sem styðja notkun þeirra. Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) bendir á að það sé skortur á hágæða rannsóknum sem styðja virkni gríma og kallar eftir fleiri rannsóknum. Ákvarðanir yfirvalda um grímuskyldu byggir því á veikum rannsóknargrunni. Þörf er á fleiri rannsóknum til að skýra virkni gríma en er óhætt að nota grímur þangað til?
Ýmsar rannsóknir hafa verið gerðar á áhrifum andlitsgríma á öndunarstarfsemi en niðurstöður þeirra eru nokkuð mismunandi, mögulega vegna þess að þar er að mörgum þáttum að huga svo sem mælingaraðferðum, tegund af grímu, áreynslu, heilsufari, aldri, kyni og fleira. Helsti veikleiki þessara rannsókna er að meirihluti þeirra prófuðu grímunotkun í undir klukkustund sem er ekki í samræmi við núverandi raunveruleika okkar þar sem fólk út um allan heim er skyldað til að nota grímu í marga klukkutíma á dag, jafnvel í marga mánuði. Þrátt fyrir þennan stutta prufutíma gríma fundu yfirlitsgreinar allt frá minniháttar til meiriháttar áhrif þeirra á öndunarstarfsemi svo sem koltvíoxíð aukningu, súrefnisskort, skerðingu á hjarta- og lungnagetu og fleira. Það komu einnig fram annars konar aukaverkanir svo sem þreyta, höfuðverkur, örmögnun, sjóntruflanir, aukin einkenni kvíða og þunglyndis, aukning á líkamshita, raddröskun, tannholdsbólgu, þurrkur í munni sem eykur líkur á tannskemmdum og fleira. Varðandi algengi aukaverkana þá áætlaði önnur yfirlitsgrein að um 78% heilbrigðisstarfsfólks fyndi fyrir aukaverkunum. Þó skortur sé á rannsóknum á langtímanotkun gríma þá eru þó til fjórar rannsóknir sem fundu að algengi aukaverkana jókst eftir 4 til 6 klukkustunda grímunotkun. Einnig jókst algengi þeirra við lengri vinnuvaktir og samfellda vinnudaga. Þetta undirstrikar mikilvægi þess að rannsaka betur langtíma grímunotkun. Áhættuþættir sem auka líkur á aukaverkunum af völdum gríma eru meðal annars undirliggjandi sjúkdómar (sérstaklega öndunarfærasjúkdómar), aldur og fleira. Þar að auki má velta upp öryggi gríma við ákveðnar aðstæður til dæmis akstur.
Bakteríur og veirur
Tau- og skurðstofugrímur eru taldar sía um 0,7% til 26% agna. Bakteríur eru töluvert stærri en veirur og eru því mögulega líklegri til að safnast fyrir í grímum þar sem þær ræktast vel vegna hlýju og raka. Rannsóknir hafa fundið töluvert meira magn veira og baktería í grímum auk myglu samanborið við loftið í sama herbergi. Einnig hefur fundist að eftir aðeins 2,5 klukkustunda grímunotkun dreifði fólk með taugrímu meiri bakteríum en grímulaust fólk, líklega vegna þess að bakteríur söfnuðust fyrir á grímunum og því dreifði grímuklætt fólk meira af bakteríum þegar það hóstaði og talaði en grímulaust fólk. Undarlegt er að yfirvöld hafi mælt með notkun taugríma þar sem eina hágæða rannsóknin á taugrímum fann að þær juku líkur á inflúensusmiti miðað við enga grímu. Annað sem þarfnast nánari skoðunar eru niðurstöður rannsóknar sem leiddu í ljós að fólk með taugrímur losaði allt að 492% meira magn smáagna samanborið við grímulaust fólk. Þetta er áhyggjuefni þar sem stærri agnir eru líklegri til að falla til jarðar í um 1,5 metra radíus. Hins vegar haldast smáagnir lengur í loftinu og ferðast víðar. Sömuleiðis er möguleiki að smitaðir einstaklingar safni COVID-19 veirum saman í grímunni og andi inn endurtekið. Þannig er ekki heldur búið að útiloka að grímunotkun leiði til alvarlegri COVID-19 einkenna sem einnig myndi auka smithættu.

Er sagan að endurtaka sig?

Á tímum spænsku veikinnar var andlitsgrímunotkun víða lögbundin og þá var einnig mikið deilt um hvort grímur veittu vörn gegn veirunni eða ekki. Undir lok faraldursins tók vísindamaðurinn Kellogg saman öll gögn til að meta hvort grímunotkun hefði dregið úr faraldrinum en gögnin gátu ekki sýnt fram á það. Þessi rannsókn var talin útkljá í eitt skipti fyrir öll deiluna um grímuskyldu meðal almennings (sjá skjáskot). Síðan þá hefur fjöldi rannsókna fundið að helsta dánarorsök á tímum spænsku veikinnar var ekki veiran sjálf, heldur bakteríur sem ollu lungnabólgu og að án lungnabólgunnar hefðu þau líklegast ekki dáið. Út frá þessu hefur því verið velt upp hvort bakteríusöfnun í andlitsgrímum hafi aukið líkur á bakteríuvaldandi lungnabólgu. Þykir íslenskum yfirvöldum mikilvægt að útiloka möguleikann á að bakteríusöfnun í grímum auki líkur á lungnabólgu?
Nanóagnir, eiturefni og umhverfisáhrif

Til að bæta gráu ofan á svart hafa nú komið fram áhyggjur af nanóögnum, sem finnast á andlitsgrímum, því þær geta valdið lungnakrabbameini og öðrum lungnasjúkdómum. Í Belgíu er nú einmitt til rannsóknar skaðsemi nanóagna í andlitsgrímum eftir að yfirvöld útdeildu 15 milljónum þessara gríma. Svipaða sögu er að segja frá Kanada þar sem bráðabirgða áhættumat leiddi í ljós mögulegar lungnaskemmdir vegna nanóagna á grímum. Önnur rannsókn fann pólýprópýlen trefjar úr grímum í nefum grímunotenda sem virtust valda nefslímubólgu. Til að bæta svörtu ofan á svart hafa áhyggjur af notkun þekktra krabbameinsvaldandi eiturefna í grímum einnig litið dagsins ljós. Hægt væri að skrifa heila grein um umhverfisáhrif einnota andlitsgríma en plastið í grímunum tekur um 450 ár að brjótast niður í örplast. Árið 2020 voru framleiddar 53 billjón grímur og er talið að 1,56 billjón gríma endi í sjónum eða um 5.000 tonn.
Þrátt fyrir fjölda rannsókna um skaðsemi andlitsgríma þá birti BBC frétt þar sem vinnuhópur gegn upplýsingaóreiðu á vegum BBC „algjörlega afsannaði“ skaðsemi gríma. Í greininni er ranglega fullyrt að ekki séu til rannsóknir sem styðji skaðsemi gríma. Sömuleiðis vísar greinin ekki í neinar rannsóknir máli sínu til stuðnings:

Fleiri fréttavefir telja sig hafa „afsannað“ skaðsemi gríma svo sem APNews, NBCnews og Reuters:

Andlitsgrímur og börn
Sérstaklega þarf að huga að öndun barna því hún er viðkvæmari sökum minni öndunarvegs, öndunarforða, aukinnar súrefnisþarfar og aukinnar hættu á súrefnisskorti í miðtaugakerfinu. Mjög fáar rannsóknir eru til um grímunotkun barna en ein rannsókn fann þó aukningu á koltvíoxíð eftir aðeins fimm mínútur af grímunotkun meðal 7 til 14 ára barna. Í Þýskalandi svöruðu 20.000 foreldrar, kennarar, læknar og fleiri spurningalista um áhrif gríma á börn. Börnin notuðu grímur að meðaltali 4,5 klukkustundir á dag og tilkynntu 68% þeirra aukaverkanir af völdum gríma svo sem pirring (60%), höfuðverk (53%), einbeitingaskort (50%), minni hamingju (49%), trega til að fara í skóla / leikskóla (44%), vanlíðan (42%), skerta námsgetu (38%), syfju eða þreytu (37%), svefnerfiðleika (31%), öndunarerfiðleika (30%), þróun nýs ótta (25%), óvenjumikinn svefn (25%), þurrk í hálsi (23%), að barn leiki minna (16%), ógleði (17%), máttleysi (15%), kviðverki (14%) og fleira. Tveir strákar (14 og 15 ára) týndu lífi meðan þeir hlupu grímuklæddir í leikfimi í Kína. Faðir eins drengsins telur andlitsgrímuna hafa orsakað dauðsfall sonar síns en ekki var hægt að staðfesta það þar sem krufning var ekki framkvæmd. Það hefur því ekki verið útilokað að andlistgrímur geti valdið dauða í slíkum kringumstæðum. Þar sem einkenni COVID-19 hjá börnum eru töluvert minni en hjá fullorðnum og dánartíðni þeirra <0.00004%, er spurning hvort ávinningurinn sé raunverulega meiri en áhættan?
Samkvæmt frétt frá BBC var fjögurra gömlum einhverfum dreng vísað úr flugvél fyrir að nota ekki grímu:

Því miður er þetta ekki einsdæmi en fleiri fjölskyldum hefur verið vísað úr vélum vegna þess að tveggja og eins árs börn þeirra voru ekki með grímu (sjá myndbönd hér, hér og hér). Rannsókn frá Englandi leiddi í ljós að ein af hverjum fimm konum voru látnar vera með andlitsgrímu við fæðingu barna sinna þrátt fyrir að það færi gegn leiðbeiningum yfirvalda. Hér á landi hefur manni, með læknisvottorð um að hann geti ekki borið andlitsgrímu, verið meinað að sinna vinnu sinni grímulaus.
Ætti að rannsaka öryggi og virkni andlitsgríma líkt og hvert annað lyf? Vilja íslensk yfirvöld viðhalda gildinu „fyrst og fremst, skuli ekki valda skaða“?
Athugasemd ritstjórnar: Meðfylgjandi grein er aðsend og efni hennar er ekki unnið eða sannreynt af ritstjórn Stundarinnar, heldur byggir hún á athugunum, skoðunum og heimildum sem höfundur vísar til. Alþjóðaheilbrigðisstofnunin (WHO) hefur mælt með grímunotkun við tilteknar aðstæður, sem og íslensk heilbrigðisyfirvöld frá og með síðasta sumri. Meðal annars mælir stofnunin þó gegn því að fólk noti grímur við æfingar. Hér má sjá ráðleggingar stofnunarinnar um grímunotkun í covid-faraldri, en leiðbeiningarnar voru síðast uppfærðar í desember 2020. Nánari upplýsingar um ráðleggingar og staðreyndakönnun Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar má lesa hér.
Athugasemdir