„Ég held við séum komin á góðan stað,“ segir Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir um stöðu bólusetningar. Nú hafa 47 prósent fólks eldri en 16 ára verið bólusett að fullu og 29 prósent sama hóps bólusett með fyrri skammti þeirra bóluefna sem krefjast tveggja. Erfitt sé hins vegar að segja til um hvort hjarðónæmi hafi myndast. „Það veit enginn nákvæmlega hvaða tala það er, enda er hjarðónæmi ekki þannig að það sé annaðhvort eða. Það gerist hægt og bítandi,“ segir hann.
„Þetta er ekki bara on eða off, að við 59 prósent, þá fari allt til fjandans en við 61 prósent sé allt í góðu,“ segir Þórólfur. „Jafnvel þegar það eru komin 20 til 30 prósent virkar það til að hamla útbreiðsluna. Eftir því sem útbreiðslan og þátttakan eykst þá minnka líkindin á því að við fáum einhverjar stórar sýkingar.“
„Þetta er ekki bara on eða off, að við 59 prósent, þá fari allt til fjandans en við 61 prósent sé allt í góðu.“
Til viðbótar við þá sem hafa fengið bólusetningu eru um 2,2 prósent fólks eldra en sextán ára búið að fá COVID og myndað mótefni við sjúkdómnum. Samtals eru því 78,1 prósent þessa hóps með mótefni. Erfitt er að meta hvort og hvenær full virkni er komin fram, en það er ólíkt eftir þeim bóluefnum sem gefin eru.
Staðan er hins vegar nokkuð góð, að mati sóttvarnarlæknis. „Við erum komin ansi langt. Við erum komin með rúmlega 60 prósent af þjóðinni sem hefur fengið að minnsta kosti eina sprautu.“ segir hann og bætir við: „En við þurfum að ná betri þátttöku yngri hópanna.“
Athugasemdir