Píratar mælast næst stærsti flokkurinn með 13,5 prósenta fylgi í nýrri könnun MMR. Sjálfstæðisflokkurinn mælist enn stærstur, með tæplega fjórðungs fylgi.
Framsóknarflokkur mælist litlu minni en Píratar, með 12,5 prósent. Vinstri græn, Viðreisn og Samfylking mælast öll í kringum 11 prósent.
Miðflokkur og Sósíalistaflokkur eru minnstir þeirra sem rjúfa fimm prósenta þröskuldinn, með 6,5 prósent og 5,6 prósent. Flokkur fólksins, sem náði inn á þing í síðustu kosningum, mælist nú með 2,8 prósenta fylgi.
Samanlagt hafa stjórnarflokkarnir þrír 48,2 prósenta fylgi. Stuðningur við ríkisstjórnina er þó örlítið meiri en fylgi stjórnarflokkanna; 50,2 prósent. Það er tæplega þremur prósentustigum minna en í síðustu könnun.
Stjórnarandstöðuflokkarnir á þingi mælast samanlagt með 44,7 prósent.
Könnunin var framkvæmd á tímabilinu 25. maí til 1. júní. Úrtakið voru einstaklingar sem valdir voru handahófskennt úr hópi álitsgjafa MMR. Þeir eru valdir úr Þjóðskrá með hliðsjón af lýðfræðilegri samsetningu þjóðarinnar á hverjum tímapunkti. Svarfjöldi var 951 einstaklingur.
Athugasemdir