Ísland og Danmörk reka lestina hvað varðar réttarstöðu þolenda í kynferðisbrota- og heimilisofbeldismálum á Norðurlöndunum. Þetta er staðreynd. Í Finnlandi og Svíþjóð geta brotaþolar fengið fulla aðild að sakamáli og áfrýjað dómum og í Noregi hafa þolendur víðtækan aðgang að gögnum auk þess sem réttargæslumenn geta lagt fram viðbótarsönnunargögn og spurt viðbótarspurninga þegar réttað er yfir geranda. Því er ekki að heilsa á Íslandi: hér er þolandi aðeins vitni, hefur takmarkaðan aðgang að gögnum og getur hvorki hlýtt á framburð ákærða né áfrýjað dómi.
Fjallað er ítarlega um þessi málefni í vandaðri greinargerð Hildar Fjólu Antonsdóttur, réttarfélagsfræðings og nýdoktors við Háskóla Íslands, sem var unnin fyrir stýrihóp forsætisráðherra um úrbætur í kynferðisbrotamálum árið 2019. Í greinargerðinni eru settar fram umbótatillögur í takt við það sem best gerist á hinum Norðurlöndunum, meðal annars að brotaþolar geti gerst aðilar að sakamáli og að þeim verði veittur réttur til upplýsinga og þátttöku á rannsóknar- og dómsstigi.
Margir bundu vonir við að þessari vinnu yrði fylgt eftir með afgerandi lagabreytingum í þágu þolenda. Þess vegna eru það vonbrigði að í nýframlögðu frumvarpi Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur dómsmálaráðherra um breytingu á lögum um meðferð sakamála, sem samið er af réttarfarsnefnd, er aðeins að litlu leyti komið til móts við ákallið um afgerandi réttarbætur.
Brotaþolar munu ekki geta fengið aðild að sakamáli eða fylgst með lokuðu réttarhaldi yfir geranda né munu þeir geta lagt fram viðbótarsönnunargögn eða viðbótarspurningar.
Í frumvarpinu er skerpt á upplýsingaskyldu lögreglu gagnvart brotaþola og kveðið á um ríkari rétt til aðgangs að rannsóknargögnum en auk þess opnað fyrir að bótakrafa brotaþola komist að á áfrýjunarstigi jafnvel þótt ákærði hafi verið sýknaður í héraði og loks að brotaþoli geti notið aðstoðar réttargæslumanns í skýrslutöku við áfrýjunarmeðferð. Þetta eru allt mikilvæg framfaraskref. Engu að síður er ljóst að Ísland verður áfram eftirbátur nágrannalandanna í þessum efnum. Brotaþolar munu ekki geta fengið aðild að sakamáli eða fylgst með lokuðu réttarhaldi yfir geranda né munu þeir geta lagt fram viðbótarsönnunargögn eða viðbótarspurningar. Réttarlegt samband milli ríkisins og brotaþola í sakamáli er ekki viðurkennt og þannig ekki skaðabótaskylda ríkisins gagnvart þolandanum þegar alvarlegir ágallar eru á rannsókn máls eða brotið með öðrum hætti á rétti þolandans til réttlátrar málsmeðferðar.
„Ef ákallinu um aukin réttindi brotaþola er ekki svarað með betri hætti en kveðið er á um í þessu frumvarpi er hætta á að réttarkerfið detti úr takti við réttarvitund almennings sem getur grafið undan trausti á réttarkerfinu,“ skrifar Hildur Fjóla í umsögn sinni um frumvarp dómsmálaráðherra. Undir þetta má taka og eins sams konar gagnrýni sem fjöldi samtaka hefur sett fram, Aflið, Kvenfélagasamband Íslands, Kvennaathvarfið, Kvennaráðgjöfin, Kvenréttindafélag Íslands, Rótin, Stígamót og UN Women á Íslandi, sem öll telja frumvarpið ganga of skammt og kalla eftir afgerandi aðgerðum. MeToo-bylgjan sem nú ríður yfir ætti að verða stjórnmálamönnum hvatning til að láta verkin tala. Eftir hverju erum við að bíða?
Höfundur er þingframbjóðandi Samfylkingarinnar.
Athugasemdir