Jæja strákar, nú verður mögulega vond stemmning því ég ætla að ávarpa ykkur sem hóp, en það verður ekki hjá því komist. Málið er nefnilega að þótt bara sumir ykkar nauðgi, áreiti og berji, þá sést það ekki utan á ykkur hver er líklegur til þess. Fyrir konur og kynsegin fólk sem lifir í ótta við að verða fyrir slíku ofbeldi liggið þið allir undir grun, með ömurlegum afleiðingum fyrir okkur öll. Sá ótti endurspeglast í grátlega mörgum svörum sem bárust við opinni Facebook færslu, þar sem spurt var hvað fólk hefði gert til að koma í veg fyrir að vera nauðgað. Hátt í hundrað svör bárust frá konum. Ekki eitt einasta svar barst frá karli.
Hvað er ég að vilja upp á dekk?
Áður en lengra er haldið er rétt að ég kynni mig og útskýri hvað ég er að vilja upp á dekk með þessu bréfi til þín, kæri karl. Þórdís Elva heiti ég og hef í 15 ár unnið með afleiðingar þess ofbeldis sem kynbræður þínir beita konur og börn. Ég hef unnið í athvarfi þar sem yngsti þolandinn með líkamlega áverka var þriggja vikna gamall, og yngsti mansalsþolandinn var fimm ára. Ég hef skrifað bækur og stuttmyndir um kynferðisofbeldi, hrint úr vör innlendum sem alþjóðlegum átaksverkefnum og setið í nefndum á vegum ríkisstjórnarinnar til að stemma stigu við þeirri þjáningu og skaða sem ofbeldi karla veldur. Í Bretlandi sýna nýjustu skoðanakannanir að 97% kvenna hafi verið kynferðislega áreittar. Í Egyptalandi er sú tala 99%. Þessi samfélög eru að öðru leyti eins ólík og hægt er að ímynda sér, í fljótu bragði er það eina sem þau eiga sameiginlegt að kynbræður þínir hafa áreitt næstum hverja einustu núlifandi konu í landinu. Nýverið hófst það sem kallað hefur verið „önnur metoo bylgja“ Íslands (og myllumerkið #góðustrákarnir ruddi sér til rúms), en fyrir okkur sem vinnum gegn ofbeldi kemur það ekki í bylgjum, því er beitt jafnt og þétt, í hverju einasta landi heims, á hverjum einasta degi.
Ég vil að hjörtu ykkar bresti
Það kæmi mér ekki á óvart ef einhver ykkar hugsaði: „Hvað meinarðu, af hverju í fokkanum ertu að blanda mér í þetta, ég hef ekki gert neitt!“
Nákvæmlega. Það er einmitt vandamálið. Þú hefur ekki gert neitt.
Ég hef tekið þátt í að minnsta kosti hundrað ráðstefnum um hvernig draga megi úr ofbeldi karla, og án undantekninga eru einu karlarnir á svæðinu tæknimenn eða einstöku stjórnmálamaður, sem báðir fá borgað fyrir að mæta. Og ég er orðin þreytt. Þreytt á að prédika yfir kórnum. Ég er þreytt á því að meira að segja þessi pistill verði að mestu lesinn og deilt af konum, sem þurfa ekkert á þessum upplýsingum að halda. Konur þurfa ekki að heyra enn eina ferðina um ofbeldi karla í þeirra garð, þær eru nú þegar að leggja sig í líma við að koma í veg fyrir það. Ég endurtek: Konur eru að gera sitt allra besta til að komast hjá því að vera nauðgað. Ráðin sem þær grípa til skipta tugum og lita allt hversdagslíf þeirra, hvaða fötum þær klæðast, hvert þær fara, hvaða leið þær velja, hvar þær leggja bílnum, hvernig þær bregðast við körlum í umhverfi sínu, hvort þær láti ljós sitt skína, hvenær þær hlusta á tónlist, hvort þær skemmta sér og þá hvar, hvort þær treysti sér einar á salernið, hvernig drykk þær panta sér, klukkan hvað þær fara heim og hvernig o.s.frv. o.s.frv. Renndu yfir listann hér að ofan og láttu hann skera þig í hjartað. Því ég vil að hjörtu ykkar bresti, strákar. Ég vil að það snerti ykkur jafn djúpt og mig að konur sjái sig knúnar til að takmarka líf sitt, ferðafrelsi og athafnafrelsi jafn mikið og raun ber vitni, líkt og þær búi ekki í frjálsu samfélagi heldur á stríðssvæði. Ég vil að brostna hjartað þitt blási þér vilja í brjóst til að binda endi á þetta stríðsástand sem konur búa við. Því staðreyndin er sú að einungis þú – einungis þið – eruð færir um það.
Frægu karlarnir og ásakanirnar
Strákar, ég veit að þið vitið hvaða áhrif það hefur á okkur að búa við stanslausan undirliggjandi ótta, meira að segja þær örfáu okkar sem hafa ekki orðið fyrir áreitni eða ofbeldi. Ég veit að ykkur er kunnugt um nagandi efasemdina um að „ég gæti verið næst“, sem fær okkur til að grípa til ótal aðgerða á hverjum degi til að forðast að verða fyrir barðinu á einum ykkar. Sú vitneskja endurspeglast í gjörðum ykkar, meira að segja þegar þið eruð einlæglega góðir strákar og sýnið þá herramennsku að fylgja okkur heim að kvöldi til, eða biðjið okkur um að senda ykkur sms þegar við erum komnar á áfangastað heilar á húfi. Það endurspeglast í því að þið farið hinum megin við götuna þegar þið mætið ókunnugri konu til að hún upplifi sig öruggari, og það skín í gegn í bröndurunum sem þið segið um að enginn verðskuldi að deita dóttur ykkar því innst inni vitið þið – rétt eins og við – að ofbeldi karla og kynbundið misrétti er ein stærsta ógnin við líf og heilsu kvenna.
Þið vitið þetta. Við vitum þetta öll.
Samt er þögnin ennþá helsta viðbragð meðaljónsins þegar vandamálið ber á góma, sem það gerir reglulega. Hringrásin er alltaf sú sama, og hefst með því að frægur karl er sakaður um ofbeldi. Í kjölfarið leiða konur sársaukafulla og persónulega umræðu um að ofbeldi sé alltof algengt og alltof lítið gert í því, þeir örfáu karlar sem láta í sér heyra eru oftast að styðja „góða strákinn“ sem situr undir þessum hræðilegu ásökunum, fólk rífst í kommentakerfum, holskefla af skjólstæðingum leitar til Kvennaathvarfs/Stígamóta/Neyðarmóttökunnar með ný eða gróin sár sem opnuðust í umræðunni, og yfirvöld koma með máttlausar yfirlýsingar um að nú eigi að laga brotalamirnar en setja þó ekkert fjármagn til verksins. Smám saman sjatna öldurnar þangað til búmm: Nýr frægur karl er sakaður um ofbeldi og hringrásin hefst á ný.
Höfum það á hreinu að þetta snýst ekki um einstöku frægan ofbeldismann, heldur um kerfi sem styður og upphefur menningu sem gerir elur á mismunun og ofbeldi í garð kvenna. Og strákar, vandamálið er ekki að alltof mörgum ykkar finnist þið ekki vera hluti af vandanum og þess vegna komi hann ykkur ekki við.
Vandamálið er að alltof fáum ykkar finnst þið vera hluti af lausninni.
Þögnin er að drepa okkur
En lausnin er nákvæmlega sú að ÞIÐ breytið hegðun ykkar, í stað kvenna. ÞIÐ þurfið að grípa til ráðstafana sem lita hversdagslíf YKKAR. Stattu upp. Taktu afstöðu gegn búningsklefatali félaganna. Taktu samtalið við vin þinn, þennan sem verður svo „slæmur með víni“, um að hegðun hans sé óásættanleg. Kæfðu kvenfyrirlitningarbrandara í fæðingu, skakkaðu leikinn þegar verið er að áreita konur á götum úti eða inni á skemmtistöðum, taktu afstöðu gegn ofbeldisklámi, skoraðu á hólm karlmennskuhugmyndir sem byggja á því að upphefja sig á kostnað annarra, styddu Kvennaathvarfið og Stígamót, mættu á ráðstefnurnar, lestu og deildu pistlunum sem fjalla um vandamálið, hlustaðu þegar konur lýsa veruleika sínum, sýndu stuðning þinn í verki fyrir jafnrétti kynjanna, ekki bara í launum og lögum, heldur líka í þeim sjálfsagða rétti að geta lifað lífinu án stöðugs ótta við ofbeldi. Ekki eingöngu vegna þess að þannig viðurkennir þú mennsku kvenna, heldur vegna þess að þín eigin mennska er í húfi. Þetta er eitt af stærstu réttlætismálum samtímans og það er ekki hægt að vera þögull og hlutlaus lengur. Þögnin ykkar er, í orðsins fyllstu merkingu, að drepa okkur – enda falla yfirgnæfandi hluti kvenna sem myrtar eru á Íslandi fyrir hendi karla sem höfðu áður beitt þær ofbeldi.
Og strákar: Hættið að segja að þolandinn gæti verið systir þín/konan þín/mamma þín/dóttir þín. Byrjið frekar að segja: Gerandinn gæti verið bróðir minn/pabbi minn/besti vinur minn/sonur minn og þess vegna verð ég að tala við hann um mörk, samþykki og virðingu.
Velferð okkar sem samfélags er í þínum höndum.
Konur eru búnar að vinna nógu mikið gegn ofbeldi karla.
Nú er komið að þér.
PS: Ef þú ert að vinna samviskusamlega í því að uppræta kynbundið ofbeldi og viðhorfin sem það sprettur úr er þessu bréfi ekki beint til þín, svo þú getur verið rólegur og sleppt því að móðgast. Þú ert ekki markhópurinn.
Athugasemdir