Boðað var til öskurmótmæla fyrir utan Héraðsdóm Reykjavíkur um hádegi í dag. Öskrið beindist gegn óréttlæti á sama tíma og það var krafa um breytingar í kjölfar þeirrar umræðu sem hefur átt sér stað síðastliðna daga um kynferðisofbeldi og þolendur þess.
„Við erum fokking reiðar og líka sárar og við krefjumst breytinga“
Stundin fór á vettvang og hitti mótmælendur og þær konur sem stóðu á bakvið þau.
Magnea Björk Valdimarsdóttir, ein þeirra sem skipulögðu mótmælin sagðist hafa efnt til þeirra vegna þess að „önnur hver kona lendir í því á lífsleið sinni að vera áreitt kynferðislega eða nauðgað.“ ástæða þess að mótmælin áttu sér stað fyrir utan héraðsdóm segir hún vera að í mörgum tilvikum hafi „ofbeldismenn komist upp með verknaðinn“ og bætir við að „Það krefst mikils hugrekkis að leita réttar síns og það eru fæstir sem hafa sig í það, árið 2021 og það er svo absúrd. Við viljum að samfélagið sé allt með okkur í þessu, “ segir Magnea.
Við krefjumst breytinga
Katrín Harðardóttir, einn mótmælenda, segir kraft í öskrinu þegar hún var spurð hver hugmyndafræðin væri á bak við það að öskra í mótmælaskyni við þetta tækifæri. Magnea tekur undir með henni og bætir við að þær séu með öskrinu að veita öðrum rödd. „Við erum að veita öðrum rödd sem hafa ekki rödd. Þegar þú lendir í ofbeldi, þegar þú verður fyrir ofbeldisárás, eru tvö viðbrögð. Það er annars vegar að lamast eða að berjast fyrir lífi þínu,“ segir hún og segir öskrið vera öskur til samstöðu.
Þetta er ekki í fyrsta skipti sem Magnea og Katrín koma saman og öskra gegn óréttlæti en þær segja frá því þegar að fjórar konur komu saman við Sólfarið og öskruðu saman. „Svona byrja litlar byltingar. Fjórar konur koma saman á miðvikudagskvöldið við Sólfarið og öskruðu á sjóinn,“ segir Magnea. Þaðan segir hún hugmyndina hafa sprottið að öskra saman fyrir utan Héraðsdóm Reykjavíkur.
Skiptir máli að öll kynin taki þátt
Stundin ræddi við Heiðu Hafdísardóttur, einn mótmælanda sem sagðist hafa mætt vegna ofbeldis sem hún varð fyrir sem barn og til þess að sýna öðrum þolendum samstöðu. Aðspurð um það hvað þýðingu nýja Metoo bylgjan hefur fyrir henni segir Heiða að það sé gott að hún hafi átt sér stað. „Allt sem veldur því að við tölum saman, tökum samtalið, allt sem veldur því að við finnum fyrir meiri samstöðu er gott. Ég held að það skipti líka máli að það séu bæði kynin sem taki þátt í þessu í samstöðu,“ segir hún.
„Ég held að það skipti líka máli að það séu bæði kynin sem taki þátt í þessu í samstöðu“
Að mati Heiðu hefur samfélagið sent röng skilaboð til ungra drengja um það hvað þeir mega og hvað þeir mega ekki. „Skilaboðin þurfa að vera skýrari og kannski má taka inn í skólakerfið hjá þeim strax þegar þeir eru tíu eða tólf ára um það hvað sé óhætt að gera. Ég held að bæði kynin fari mjög ómeðvituð og illa áttuð inn í unglingsárin og það er þetta sem þarf að taka á held ég.“
Heiða hefur trú á því að bylgjan muni hafa áhrif. „Kannski ekki einhver stór áhrif en hver dropi skiptir máli, dropinn holar steininn, það er eins með þetta. Í hvert skipti sem við vekjum máls á óréttlæti að þá held ég og vona að það hafi alltaf einhver áhrif. Ég veit að þau fjara alltaf út en ég held að það verði alltaf eitthvað smá eftir.“
Athugasemdir