Gríðarlegur halli varð á rekstri Reykjavíkurborgar á síðasta ári en rekstrarniðurstaða samstæðu borgarinnar var neikvæð um tæpa þrjá milljarða króna. Viðsnúningurinn á milli ára er verulegur en árið 2019 var rekstrarniðurstaðan jákvæð um 11 milljarða króna. Eiginfjáhlutfall borgarinnar er þá komið niður fyrir 50 prósent, er nú 47,2 prósent.
Þetta kemur fram í ársreikningum borgarinnar sem lagður var fyrir borgarráð í dag og kemur til umræðu í borgarstjórn 4. maí næstkomandi. Rekstrarniðurstaða samstæðu A- og B- hluta borgarinnar var neikvæð um tæpa 2,8 milljarða króna. Samkvæmt fjárhagsáætlun hafði verið gert fyrir jákvæðri niðurstöðu upp á tæpa 12 milljarða króna. Rekstrarniðurstaða A-hluta borgarsjóðs var neikvæð um ríflega 5,8 milljarða króna en gert hafði verið ráð fyrir að niðurstaðan yrði jákvæð um 1,5 milljarða króna.
Skýringa á þessu er að leita í Covid-19 faraldrinum, einkum verulega lægri skatttekna en ráð var gert fyrir, alls 2,7 milljörðum króna lægri. Þá urðu tekjur af sölu byggingaréttar 3,2 milljörðum lægri en áætlanir gerðu ráð fyrir. Launakostnaður var 1,7 milljörðum króna hærri en ráð hafði verið gert fyrir og annar rekstrarkostnaður var 1,2 milljörðum króna yfir áætlun.
Þá hefur orðið mikill tekjusamdráttur hjá stofnunum og fyrirtækjum borgarinnar, sem leiðir af sér verri niðurstöðu B-hluta borgarsjóðs. Mikill samdráttur varð í tekjum Strætó, Faxaflóahafna og Sorpu til að mynda. Þá hefur veiking krónu haft veruleg áhrif á erlend lán Orkuveitu Reykjavíkur. Rekstrarniðurstaða B-hluta varð jákvæð um 12,5 milljarða króna fyrir fjármagnsliði. Það er 11,3 milljarða króna lakari niðurstaða en áætlað hafði verið.
Heildareignir samstæðunnar námu í árslok 2020 730 milljörðum króna. Heildarskuldir voru 386 milljarðar króna og eigið fé tæpar 345 milljarðar króna.
Í tilkynningu frá borginni segir Dagur B. Eggertsson borgarstjóri að hafin sé öflug viðspyrna til að mæta samdrættinum, hið svonefnda Græna plan. „Borgin stendur sem betur fer vel að vígi til að glíma við efnahagskreppuna en óvissan er engu að síður töluverð. Við sjáum nú vonandi fram á bjartari tíma og að hjólin fari að snúast af fullum krafti.“
Athugasemdir