Bandaríska flugfélagið United Airlines mun hefja daglegt flug til Íslands 3. júní næstkomandi frá Newark, skammt frá New York-borg. Þetta var tilkynnt með fréttatilkynningu rétt í þessu.
Til viðbótar við New York-flugið verður hafið beint flug frá Chicago 1. júlí. „Ferðalangar eru áfjáðir í að komast í langþráða ferð til nýrra áfangastaða,“ er haft eftir Patrick Quayle, aðstoðarframkvæmdastjóra alþjóðasviðs United, í fréttatilkynningunni. Hann segir að vel sé fylgst með því hvernig þjóðir heims opni á ný eftir heimsfaraldurinn.
„Sú ákvörðun félagsins að fjölga áfangstöðum er sterk vísbending um það að Ísland verði vinsæll áfangastaður eftir heimsfaraldurinn. Þá er ljóst að eftirspurn eftir ferðum frá Bandaríkjunum til Íslands er umtalsverð, en Bandaríkjamarkaður var mikilvægur fyrir faraldurinn og verður það áfram að honum loknum,“ segir Guðmundur Daði Rúnarsson, framkvæmdastjóri viðskipta og þróunar hjá Isavia, í sömu tilkynningu.
Þegar hefur komið fram að flugfélagið Delta mun hefja flug frá þremur áfangastöðum í Bandaríkjunum til Íslands eftir mánuð, 20. maí, frá Boston, JFK-flugvelli í New York og Minneapolis.
Á sama tíma og þessi erlendu flugfélög tilkynna um opnun flugleiða til Íslands fara margir hér á landi fram á lokun landamæranna og sóttkvíarskyldu á hóteli. Einn þeirra sem krefst lokunar er tónlistarmaðurinn Bubbi Morthens sem leggur fram kröfu sína á Facebook. „27 ný smit og ríkisstjórn þar sem sjálfstæðisflokkurinn hefur neitunarvald gagnvart nauðsynlegum sóttvarnaraðgerðum. Það á að setja lög til að skylda fólk í sóttvarna hús, það á í alvöru kloss loka landamærum. 1 skef áfram 4 afturábak núna er komið nóg. Þarf maður í alvöru fara mæta á Austurvöll, þetta er í boði sjálfstæðis flokksins með hjálp VG. Þau vilja ekki gera það sem þarf að gera það blasir við.“
40% Bandaríkjamanna hafa fengið eina bóluefnissprautu og fjórðungur er fullbólusettur gegn Covid-19. Um þessar mundir greinast rúmlega 40 þúsund tilfelli af Covid-19 í Bandaríkjunum að meðaltali og eru rúmlega 45 þúsund landsmanna á sjúkrahúsi þessa stundina vegna smita. 31,7 milljónir Bandaríkjamanna hafa fengið Covid-19 svo staðfest sé, eða hátt í 10% mannfjöldans. Á Íslandi hefur aðeins 1,7% mannfjöldans greinst með Covid-19.
Athugasemdir