Ríkisútvarpið er stærsti, máttugasti og mikilvægasti fjölmiðill landsins, enda í almannaeigu og rekinn með almannafé – auk annarra tekna. Skyldur RÚV gagnvart lýðræðislegri umræðu hér á landi eru svo ríkar að þær eru bundnar í fyrstu setningu fyrstu greinar laga um Ríkisútvarpið. Í lögunum er jafnframt áréttað að RÚV skuli sinna lýðræðislegu hlutverki sínu með því að hafa í heiðri lýðræðislegar grundvallarreglur, mannréttindi og frelsi til orðs og skoðana.
Frelsið sem hér er boðað er ekki allra. Ekki fréttamanna RÚV.
Fréttamenn sem starfa á RÚV mega þvert á móti eiga von á því að stofnunin refsi þeim fyrir að taka þátt í lýðræðislegri umræðu, jafnvel á persónulegum vettvangi, á þeim grundvelli að það samræmist ekki siðareglum.
Það var á þeim grunni sem RÚV refsaði eigin fréttamanni. Ekki vegna þess að hann var staðinn að óvönduðum eða misjöfnum vinnubrögðum við fréttaflutning, heldur fyrir að tala beint til viðfangsefna, nota orðið gæskur, í færslu sem hann skrifaði á sínum persónulega vettvangi, sem andsvar við rangfærslum sjávarútvegsfyrirtækis sem var til umfjöllunar. Andsvar hans þótti nefnilega bera vott um hæðni.
Spegillinn
Í sömu viku og siðanefnd RÚV komst að þeirri niðurstöðu sendi stjórn alþjóðafyrirtækisins Alvogen frá sér yfirlýsingu um að ekkert þætti athugavert við framgöngu forstjóra sem áreitti fyrrverandi starfsmenn sína með 33 ógnandi skilaboðum á tæpum sólarhring: „Þú ert dauður ég lofa.“
Þú ert dauður,
ég lofa.
Ef þú ætlar að ógna mönnum, notaðu allavega punkta á réttum stöðum. Eða kommur. Það virðist gjarnan flækjast fyrir fólki sem sendir ógnandi skilaboð.
Einn ríkasti maður landsins, sem greiddi tíu milljónir fyrir forsíðuumfjöllun um sjálfan sig og fjármagnaði fjölmiðla með það að markmiði að koma höggi á andstæðinga sína, að sögn hans nánasta samstarfsmanns til átján ára, sem forstjórinn á víst að hafa farið í „kýlingaleik“ við, eða með öðrum orðum kýlt fyrirvaralaust í andlitið í vitna viðurvist.
Lyfjabarón – þetta var ein fyrirsögnin á keyptri umfjöllun um árangur forstjórans.
Nýir sigurvegarar koma fram – fyrirsögn á annarri grein sem hann greiddi fyrir, þá orðinn eigandi í gegnum röð eignarhaldsfélaga með endanlegu eignarhaldi í skattaskjóli. Undirfyrirsögnin: Hvernig byggja á upp lyfjaheimsveldi.
„Ég mun drepa þig“ – skilaboð lyfjabarónsins til fyrrverandi starfsmanns.
„Ég mun eyðileggja þig og fjölskyldu þína“ – skilaboð frá nýjum sigurvegara til fyrrverandi starfsmanna, forstjóranum sem ætlaði að sýna hvernig á að byggja upp lyfjaheimsveldi. Að mati stjórnar benda engin gögn til þess að neitt sé athugavert við stjórnunarhætti forstjórans.
Sumum leyfast ógnanir. Öðrum leyfist ekki hæðni. Hæðni gagnvart forstjóra stórfyrirtækis sem beitti sér grimmilega gagnvart fréttamanninum, með óvenju persónulegum og rætnum árásum.
Morgundagurinn verður erfiður
„Takk fyrir godar stundir á kaffihúsi góða og gáfaða fólksins. Kem ekki aftur þangað. Þarf þess ekki 😂😂“
Þannig hljóðuðu skilaboð frá starfsmanni sjávarútvegsfyrirtækisins Samherja. Starfsmaðurinn hafði þá áreitt fréttamann RÚV um mánaðarbil með því að sitja fyrir honum á kaffihúsi og senda ítrekuð skilaboð með undirliggjandi ógnunum.
„Sjaumst fljótt.“
„Þið Ingi Freyr vitið ekkert hvað er að koma a næstunni 😂😂“
„Hafði sma móral yfir því sem er að koma en greinin i Stundinni i gær lagaði það.“
„Mikið vona ég að þú vandir þig í framtíðinni, dómgreindarleysi þitt er svakalegt. Morgundagurinn verður erfiður trúðu mér.“
Aftur. Stafsetningin. En svona voru skilaboðin sem starfsmaður Samherja sendi fréttamanni RÚV vegna umfjöllunar um mútugreiðslur Samherja í Namibíu. Fleiri fengu að finna fyrir honum. Blaðamanni Stundarinnar bárust eftirfarandi skilaboð: „Það verður gaman að fylgjast með því þegar þú verður tekinn til umfjöllunar 😂“
Skortur á siðareglum sjávarútvegsfyrirtækja
Starfsmaður Samherja þurfti aldrei að axla ábyrgð á gjörðum sínum. Það var heldur ekki brot á siðareglum sjávarútvegsfyrirtækisins að framleiða myndbönd til að vega að æru fréttamannsins. Meðal annars með því að birta ólöglega upptöku af honum. Alveg eins og ólöglegri upptöku hafði áður verið lekið af heimildarmanninum sem afhjúpaði mútugreiðslurnar. Engar siðareglur ná heldur yfir það þegar sjávarútvegsfyrirtæki kostar áróðursþætti í fjölmiðlum eða niðurgreiðir einn stærsta einkarekna fjölmiðil landsins árum saman í eiginhagsmunaskyni og afhendir hlutinn svo stjórnmálamanni nánast endurgjaldslaust. Hvað þá mútugreiðslur. Ekkert kom heldur í veg fyrir að aðaleigendur færðu félagið yfir á börnin sín eða að forstjórinn sneri aftur eins og ekkert væri.
Svona eru siðareglur takmarkaðar. Á meðan fréttamaður má hvorki svara fyrir sig eða hæðast á sínum persónulegum vettvangi, þá ná engar siðareglur um starfshætti sjávarútvegsfyrirtækis sem hagnast um milljarða á sameiginlegum auðlindum þjóðarinnar og nýtir hagnaðinn meðal annars í persónulegan áróður gegn þeim sem veita fyrirtækinu aðhald.
Fyrst var seðlabankastjóri tekinn fyrir. Síðan fréttamennirnir.
Sama sagan var á Alþingi þar sem þingmenn hafa skandalíserað svo svakalega að það verkjar í beinin, en sá eini sem hefur fram til þessa verið talinn „kasta rýrð“ á Alþingi var sá sem sagði að „rökstuddur grunur væri um refsivert athæfi“ þegar annar þingmaður varð uppvís að því að sækja sér 3,5 milljónir af almannafé í akstursgreiðslur og viðurkenndi sök með því að endurgreiða hluta upphæðarinnar þegar upp um hann komst.
Til hvers eru siðareglur, ef þeim er aðeins beitt til að refsa þeim sem reyna að veita aðhald?
Siðareglur sem vega að tjáningarfrelsi
Það er nefnilega munur á því að fjölmiðlar veiti starfsmönnum sínum aðhald út frá faglegum forsendum og gæti þess að vinnubrögð við fréttavinnslu séu vönduð, og því að elta starfsmenn sína uppi á samfélagsmiðlum í leit að persónulegri afstöðu þeirra – eða hæðni.
Siðareglur RÚV ganga lengra í því að hefta tjáningu fréttamanna heldur en siðareglur Blaðamannafélags Íslands, lengra heldur en almennt tíðkast, hér á landi sem erlendis. Svo langt að þegar þær voru settar árið 2016 lagðist IMMI, alþjóðleg stofnun um upplýsinga- og tjáningarfrelsi, „eindregið gegn heftingu tjáningarfrelsis starfsmanna RÚV“. Fleiri vöruðu við þessari þróun, þeirra á meðal var kennari í blaða- og fréttamennsku við Háskóla Íslands, sem kennir vinnubrögð, fjölmiðlalög og siðareglur og á sæti í siðanefnd Blaðamannafélags Íslands. Af því að ákvæði í nýju siðareglunum bannar fréttamönnum og dagskrárgerðarfólki að taka opinbera afstöðu í umræðu um pólitísk málefni eða umdeild mál í þjóðfélagsumræðunni, þar á meðal á samfélagsmiðlum. Gagnrýnt er að siðareglurnar feli í sér brot á stjórnarskrárvörðum rétti til tjáningar, þar sem allir eru frjálsir skoðana sinna og sannfæringar og eiga rétt á því að láta í ljós hugsanir sínar. Í yfirlýsingu IMMI sagði að siðareglurnar væru aðför að persónufrelsi starfsmanna RÚV, „í besta falli óboðlegt, í versta falli þöggun“.
Stjórnarmaður RÚV sagði siðareglurnar aldrei hafa verið bornar undir stjórn, heldur væri um að ræða „grimma ritskoðun“ ráðherra. Útvarpsstjóri hafnaði því og sagði ráðherra ekki hafa komið að siðareglunum. Formaður Félags fréttamanna sagði nýju siðareglurnar „almennt leggjast vel í fólk“. Kannski gerði það sér ekki grein fyrir því hvernig siðareglunum yrði beitt sem refsivendi í herferð stórfyrirtækis gegn trúverðugleika stofnunarinnar og fréttamanna hennar. Siðanefndin, sem var svo vönd að virðingu sinni að hún gat ekki einu sinni skrifað nöfn þeirra sem þurftu að sæta skoðun nefndarinnar rétt, fann fréttamann sekan um alvarlegt brot á siðareglum, meðal annars fyrir ummæli sem tengdust umræddu máli ekki á nokkurn hátt.
Leikhússtjóri og lögga
Útvarpsstjórinn sem sagðist bera ábyrgð á siðareglunum er frábær leikhússtjóri, en hefur enga sérþekkingu á fréttamennsku eða eðli hennar. Þess var því beðið með eftirvæntingu hver tæki við af honum, enda reynslumiklir fréttamenn á meðal umsækjenda. Þangað til fyrrverandi lögreglustjóri var ráðinn útvarpsstjóri. Vænsti maður sem hefur margt til brunns að bera en er enginn sérfræðingur í fjölmiðlum.
Hér á landi virðist það vera ríkjandi viðhorf að hver sem er geti stýrt ritstjórnum. Á Morgunblaðinu var fyrrverandi seðlabankastjóri, forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins dubbaður upp sem ritstjóri. Á Fréttablaðinu situr lögmaður með takmarkaða reynslu af fréttamennsku á ritstjórastól. Ekki einn einasti þessara manna var ráðinn út frá faglegum forsendum fréttamennsku.
Niðurstaðan: Fyrst samþykkti RÚV að greiða dæmdum glæpamanni bætur, bað stórfyrirtæki síðan afsökunar og refsaði eigin fréttamanni fyrir að svara fyrir sig.
Greiddi dæmdum glæpamanni bætur
Þegar RÚV samþykkti að greiða dæmdum glæpamanni bætur var það vegna fréttar sem byggði á endursögn erlends miðils þar sem rannsóknarblaðamaður hafði varið umtalsverðum tíma að rekja feril Íslendings, sem brást við með því að hóta málsókn fengi hann ekki greiddar fjárhæðir frá þeim fjölmiðlum sem fjölluðu um hann. Allir fjölmiðlar höfnuðu kröfu mannsins, nema einn, RÚV. Aðrir fjölmiðlar unnu málið fyrir dómstólum.
Þegar RÚV bað stórfyrirtæki afsökunar var það í kjölfar hótunarbréfs sem tólf starfsmenn og stjórnarmenn RÚV fengu boðsent, þar sem forsvarsmenn Samherja héldu því fram að það væri umfjöllun RÚV um mútugreiðslur fyrirtækisins í Namibíu sem væri refsiverð og varðaði allt að tveggja ára fangelsi. Bréfið var sent vegna þess að í tíufréttunum hafði fréttamaður sagt að Samherja hefði tekist „að afla kvóta í landinu með því að múta embættismönnum, eins og fjallað var um í Kveik í vetur“. Umfjöllun Kveiks sem þar var vísað til byggði á margra mánaða rannsóknarvinnu, í samvinnu við Wikileaks, Al Jazeera og Stundina. Í ítarlegri fréttaskýringu steig maður fram sem sagðist sjálfur hafa greitt mútur fyrir hönd Samherja. Með gögnum var sýnt fram á hvernig fyrirtækið hafði greitt embættismönnum í Namibíu peninga til að komast yfir kvóta þar í landi, með þeim afleiðingum að háttsettir embættismenn og ráðherrar hafa setið í gæsluvarðhaldi í Namibíu frá því að umfjöllunin birtist. Hér á landi fann ríkisfjölmiðillinn sig knúinn til að bregðast við hótunum fyrirtækisins með því að biðjast afsökunar á frétt um mútugreiðslurnar. Rangt hefði verið að fullyrða nokkuð um mútugreiðslurnar, sem fréttamenn fjölmiðilsins höfðu áður sýnt fram á. Rétt væri að grunur léki á um þær.
Og nú þetta.
Starfsumhverfi blaðamanna
RÚV mælist með mest traust allra fjölmiðla og gerir út á það. En hvers virði er traust almennings til fjölmiðilsins þegar fréttamennirnir sem þar starfa geta ekki treyst starfsumhverfi sínu?
Sem ríkisfjölmiðli, stærsta, máttugasta og mikilvægasta fjölmiðlinum hér á landi, ber RÚV einnig skyldur gagnvart stétt blaða- og fréttamanna. RÚV ber ekki aðeins ábyrgð á því að standa vörð um fagleg vinnubrögð fréttamanna heldur einnig hagsmuni þeirra. Stofnuninni ber skylda til að verja starfsfólk sitt gegn árásum og um leið setja mörk varðandi hvað leyfist að ganga langt gagnvart fólki sem starfar við þetta fag.
Næg eru tækifærin fyrir viðfangsefni frétta til að refsa bæði fréttamönnum og fjölmiðlunum sem þeir starfa fyrir vegna umfjallana, án þess að fjölmiðlar sjái um það sjálfir.
Á síðustu árum hafa fréttamenn þurft að þola ítrekuð brot íslenska ríkisins á tjáningarfrelsi þeirra. Þeir hafa þurft að mæta í skýrslutöku hjá saksóknara, fara fyrir dóm, sætt kærum til siðanefnda og jafnvel lögreglu. Þeir hafa sætt áreiti, ógnunum og þurft að þola opinbera umræðu um vinnubrögð og persónu sína, verið sakaðir um annarlegar hvatir, einelti og guð má vita hvað, fyrir að vinna vinnuna sína. Auglýsendur hafa reynt að hafa áhrif á umfjöllun með því að neita að kaupa auglýsingar þegar þeim mislíkar fréttaflutningur. Fjölmiðlum hefur verið úthýst af sölustöðum vegna andstöðu við rannsóknarblaðamennsku. Þaggað hefur verið niður í umfjöllun fjölmiðla með ólögmætu lögbanni sem stóð í 522 daga. Ráðherra reyndi að grafa undan trúverðugleika blaðamanna í einkasamtölum við ritstjóra. Ritstjórar og lykilstjórnendur hafa verið kallaðir á fund þáverandi forsætisráðherra sem krafðist skýringa á fréttaflutningi um sig. Ritstjórar hafa verið skipaðir til þess að gæta hagsmuna eigenda sinna og innleiða áherslur þeirra. Auðmaður gerði tilraun til að kaupa fjölmiðil til þess eins að leggja hann niður og losna þannig við umfjöllun sem var honum ekki að skapi. Fjölmiðlar hafa verið yfirteknir af auðmönnum sem hafa það yfirlýsta markmið að þagga niður í umfjöllun eða koma ritstjóranum frá. Fjölmiðlar hafa gengið kaupum og sölum á milli auðmanna sem líta á fjölmiðla sem leikvöll sinn.
Hagsmunir almennings
Það er vegna þess sem RÚV er mikilvægasti fjölmiðill landsins, vegna þess að þar eiga starfsmenn að vera varðir fyrir slíkum leikfimisæfingum auðmanna. Stofnunin hefur einnig fjárhagslegt bolmagn til að halda úti þjónustustigi sem fæstir fjölmiðlar geta sinnt.
Sjálfkrafa erum við öll áskrifendur að RÚV og verðum því að gera kröfur um lýðræðislegt hlutverk stofnunarinnar, sem felst meðal annars í því að verja stétt fréttamanna. RÚV ber skylda að starfa í þágu almannahags, og það hlýtur að vera andstætt samfélagslegum hagsmunum að hefta tjáningarfrelsi fréttamanna. Oft eru það þeir sem hafa varið vikum, mánuðum, jafnvel árum saman í að skoða, rannsaka og greina mál og þekkja þau betur en flestir. Það er heldur ekki í þágu þjóðarinnar að meina fréttamönnum að verjast aðdróttunum þegar ráðist er að trúverðugleika þeirra og þagga niður í þeim þegar þeir reyna að leiðrétta rangfærslur og sýna fram á samhengi hlutanna.
Jafnvel þótt þeir noti hæðni, gæskur.
Athugasemdir