Þann 12. október 1941 komu þrír þýskir SS-menn til smábæjarins Miropol í Úkraínu. Þegar hersveitir Hitlers gerðu innrás í Sovétríkin í júní það ár hafði Miropol fljótlega lent inn á þýsku yfirráðasvæði. Á eftir þýsku herjunum komu víðast hvar sérstakar morðsveitir sem byrjuðu strax að drepa Gyðinga í hrönnum, samkvæmt skipunum Hitlers og nóta hans.

Í Miropol bjó þó nokkuð af Gyðingum eins og svo víða á sléttunum á mótum Eystrasaltslandanna, Bélarus, Pólllands, Úkraínu, Rússlands og Rúmeníu. Víða í þessum löndum tóku íbúar skipunum Þjóðverja fagnandi og hræðilegar frásagnir um fjöldamorð eru til frá mörgum bæjum og þorpum.
Af einhverjum ástæðum hafði Gyðingunum í Miropol þó ekki verið útrýmt enn.
„Aðeins“ 24 Gyðingar höfðu enn verið drepnir.
SS-mennirnir þrír skipuðu höstuglega svo fyrir að úr því yrði nú að bæta. Þeir meðlimir SS og þýskir dátar af ýmsum stigum sem fyrir voru í Miropol tóku strax til starfa daginn eftir — 13. október — ásamt hermönnum og úkraínskum hjálparmönnum sínum.
Margir Úkraínumenn studdu innrás Þjóðverja vegna andstöðu sinnar við Sovétríkin/Rússland, auk þess sem Gyðingahatur var landlægt á svæðinu.
Og á þessum milda haustdegi var hafist handa við að grafa mikla gröf úti í skógi rétt hjá þorpinu. Á meðan var Gyðingunum í bænum safnað saman á markaðstorgi bæjarins. Nágrannar Gyðinganna, fólk sem hafði búið með þeim alla ævi, sá um að gæta þeirra.
Yfir Gyðingana rigndi grjóti og ókvæðisorðum.
Svo óskuðu nýkomnu SS-mennirnir eftir sjálfboðaliðum til að framkvæma það sem þeir kölluðu Aktion og allir vissu hvað þýddi.
Takið eftir orðinu „sjálfboðaliðum“. Þvert ofan í það sem margir halda, þá þurfti sjaldnast að neyða menn til að taka þátt í Gyðingadrápum. Þeir sem neituðu beinum skipunum um að myrða Gyðinga komust yfirleitt upp með það.
En í Miropol skorti ekki sjálfboðaliða. Tveir þýskir dátar úr tollvarðasveitum, þeir Erich Kuska og Hans Vogt, gáfu sig strax fram. Tollverðir og þvílíkar stéttir voru víða notaðir sem setulið á hernumdum svæðum Þjóðverja. Tveir úkraínskir landamæraverðir vildu líka fá að vera með: Nikolai Ryback og Dmitri Gnyatuk.
Gyðingarnir voru fluttir út að gröfinni stóru. Þar voru hinir fullorðnu skotnir á grafarbarminum og svo fleygt niður í hana. Kúlum var yfirleitt ekki eytt á börnin, heldur var þeim fleygt niður í gröfina og treyst á að þau köfnuðu undir líkum hinna fullorðnu. Sumum minnstu börnunum var þó sveiflað utan í tré og höfuðkúpan mölbrotin áður en þeim var hent í gröfina.
Gamla fólkinu var líka oftast hent lifandi í fjöldagröfina.
Þegar allir voru dauðir — að minnsta kosti 300-400 manns — var grafið yfir allt saman og þeir sem lifðu héldu glaðir burt að loknu vel unnu dagsverki.
Og fjöldamorðin í Miropol gleymdust fljótt, enda var enginn til frásagnar — héldu menn.

Árið 2009 var bandaríski sagnfræðingurinn Wendy Lower að rannsaka helförina á skjalasafni í Bandaríkjunum þegar komu til hennar tveir tékkneskir blaðamenn. Þeir buðu henni að virða fyrir sér ljósmynd sem þeir höfðu í fórum sínum og höfðu fundið í skjalageymslu öryggislögreglunnar í Prag í Tékklandi.
Myndin var af Kuska, Vogt, Ryback Gnyatuk í miðju kafi að fremja fjöldamorðin í Miropol. Og einhvers konar leiðsögumaður eða hjálparmaður með sixpensara er líka á myndinni. Og myndin er tekin á því andartaki þegar þeir skjóta konu sem stendur bogin yfir litlum syni sínum á barmi fjöldagrafarinnar.
Púðurreykurinn frá byssuskotunum hylur andlit konunnar.
Þetta eru bókstaflega síðustu andartökin í lífi saklausrar móður og barns hennar.
Wendy Lower varð sem heltekin af þessari ótrúlega grimmu ljósmynd. Hún gaf á dögunum út heila bók sem hún hefur skrifað um myndina og rannsóknir sínar á tildrögum atburðanna í Miropol. Bókin heitir The Ravine: A Family, a Photograph, a Holocaust Massacre Revealed.

Henni tókst að grafa upp nöfnin á Þjóðverjunum og Úkraínumönnunum en ekki að sannreyna, svo óyggjandi væri, hver konan og drengurinn eru.
En Lower fann hins vegar út hver tók myndina. Slóvakískur öryggisvörður sem var í fylgdarliði þýsku hersveitanna. Hann hét Lubomir Skrovina og mun hafa tekið myndina til þess að þessi hræðilegi atburður gleymdist ekki.
Morðingjarnir héldu líklega að hann væri að taka myndina til að skrá afrek þeirra og höfðu ekkert á móti myndatökunni.
Þeir gerðu ekki minnstu tilraun til að hylja andlit sín þótt þeir vissu bersýnilega vel af myndatökumanninum.
Hérna segir Wendy Lower sjálf frá þessu.
Hún fann meira að segja myndavélina hans Skrovina.
Í grein sem hérna birtist má sjá myndavélina. (Í þessari grein er reyndar ranglega sagt að Kuska og Vogt hafi verið meðlimir SS. Í bók Lower kemur fram að þeir voru tollverðir.)
Í grein Lower (og í bókinni) segir meðal annars frá því þegar hún lét prenta myndina mjög stórt og í nokkrum hlutum árið 2014.
Hún hafði virt þessa mynd fyrir sér oftar en tölu varð á komið í fimm ár en það var fyrst þegar hún var komin með hana mjög stóra sem hún gerði skelfilega uppgötvun.
Það var eitt fórnarlamb enn á myndinni.
Konan sem beygir sig yfir drenginn heldur á smábarni við brjóst sér.
Það er eiginlega óhugsandi að sjá það þegar myndin er prentuð í blöðum eða á vefsíðum en okkur er óhætt að trúa Lower.
Myndin sýnir síðustu andartökin í lífi saklausrar móður og tveggja barna hennar.
Athugasemdir