Óli Halldórsson, sveitarstjórnarmaður og varaþingmaður, hlaut flest atkvæði í forvali Vinstri grænna í Norðausturkjördæmi. Óli hafði þar með betur en sitjandi þingmaður flokksins, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, sem einnig sóttist eftir efsta sætinu.
Steingrímur J. Sigfússon forseti Alþingis hefur leitt lista flokksins í kjödræminu allt frá árinu 2003, þegar kjördæmið varð til. Hann gaf það hins vegar út í lok október á síðasta ári að hann hyggðist hætta í pólitík og gæfi ekki kost á sér til áframhaldandi setu á Alþingi.
Bjarkey hefur setið á þingi frá árinu 2013 en hún var þá í öðru sæti á lista Vinstri grænna í kjördæminu. Hún hefur vermt það sæti í kosningunum 2016 og 2017 en með brotthvarfi Steingríms sóttist hún eftir því að leiða flokkinn í komandi kosningum í haust. Af því verður ekki.
Óli er sveitarstjórnarmaður í Norðurþingi og og sat í 5. sæti á lista flokksins við Alþingiskosningarnar 2016 og 2017. Hann hefur tekið sæti sem varaþingmaður fyrir Vinstri græn á þessu kjörtímabili. Óli bauð sig fram til varaformennsku í flokknum haustið 2017 en tapaði í kosningu fyrir Edward H. Huijbens.
Vinstri græn hlutu 4.700 atkvæði í Norðausturkjördæmi í síðustu Alþingiskosningum árið 2017, 19,9 prósent atkvæða. Steingrímur J. var þá annar þingmaður kjördæmisins og Bjarkey sá sjöundi.
Uppfært klukkan 10:55.
Vinstri græn hafa nú sent frá sér fréttatilkynningu um niðurstöður forvalsins. Þar kemur fram að Óli hlaut 304 atkvæði í 1. sæti og Bjarkey hlaut 293 atkvæði í 1.-2. sæti. Í þriðja sæti varð Jódís Skúladóttir, sveitarstjórnarfulltrúi í Múlaþingi, í fjórða sæti Kári Gautason, framkvæmdastjóri þingflokks VG og í fimmta sæti varð Jana Salóme Ingibjargar Jósepsdóttir, varabæjarfulltrúi flokksins á Akureyri. Greidd atkvæði voru 648 og kosningaþátttaka 62 prósent.
Athugasemdir