Transparency International, alþjóðleg samtök gegn spillingu, birtu nýlega niðurstöður mælinga á spillingu meðal 180 þjóða fyrir árið 2020. Mælingin nær til spillingar í opinbera geiranum og Ísland situr nú í 17. sæti, sex sætum neðar en árið 2019 og neðst allra Norðurlandanna.
Samkvæmt samtökunum njóta mælingar þeirra á spillingu viðurkenningar á alþjóðavettvangi. Samtökin voru stofnuð árið 1992 og hafa lengi vel verið ein áhrifaríkustu samtökin sem vinna að heilindum í stjórnmálum, stjórnsýslu og viðskiptalífi hvarvetna í heiminum.
Marktækur munur á spillingu á Íslandi milli ára
Árni Múli Jónasson, framkvæmdastjóri íslenska útibús samtakanna, segir að marktækur munur sé á stöðu Íslands í ár miðað við árið í fyrra. „Við vorum í ellefta sæti í fyrra og samkvæmt mælikvarðanum núna höfum við farið neðar, enda hefur stigafjöldi minnkað á milli ára. Það voru 78 stig sem Ísland fékk í fyrra og nú erum við komin í 75 stig, sem er marktækur munur, og Ísland hefur farið enn neðar á listanum og var í 17. sæti á þeim lista sem var birtur í morgun,“ segir Árni.
„Það var ekki fyrir svo löngu síðan að álit Íslendinga og mjög margra að Ísland væri mjög lítið spillt land“
Munurinn sé þá verulegur sé litið lengra aftur í tímann. „Það sem hefur gerst hjá okkur á Íslandi er að það var ekki fyrir svo löngu síðan að álit Íslendinga og mjög margra að Ísland væri mjög lítið spillt land. Ísland skoraði mjög hátt og var yfirleitt í hópi þessara norrænu ríkja sem hafa raðað sér einna efst á þessum lista en síðan hefur þróunin verið á verri veg,“ segir hann.
Líta þróunina alvarlegum augum
Samtökin líta þróunina alvarlegum augum. „Að okkar mati er þarna þróun í gangi sem er fullt tilefni til að taka mjög alvarlega og er vísbending um að hlutirnir séu ekki í nógu góðu lagi að þessu leyti og spillingarvarnir og það sem er gert sé ekki nógu mikið,“ útskýrir hann.
Samkvæmt Transparency International hefur ímynd Íslands sem land laust við spillingu tekið dýfu niður á við í kjölfar bankahrunsins, Panamaskjalanna og Samherjaskjalanna.
Athugasemdir