Facebook mun ekki lengur mæla með spjallhópum um stjórnmál og skoðar skref til að draga úr stjórnmálaefni sem birtist í fréttaveitunni á forsíðu notenda. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Mark Zuckerberg, forstjóra Facebook.
Zuckerberg segir mikilvægt að sá félagsskapur sem fólk finnur á samfélagsmiðlinum sé heilbrigður og jákvæður. Þetta sé eitthvað sem fyrirtækið hafi unnið að lengi. „Ein leið sem við förum að þessu er að taka niður hópa sem brjóta reglur um ofbeldi eða hatursorðræðu,“ skrifar hann. „Í september deildum við því að við hefðum fjarlægt yfir eina milljón hópa á síðasta ári. En það eru einnig margir hópar sem við viljum ekki endilega hvetja fólk til að ganga í, jafnvel þó þeir brjóti ekki reglurnar okkar.“
Segir hann að til dæmis hafi samfélagsmiðillinn hætt að mæla með hópum um stjórnmál og samfélagsmál í aðdraganda kosninga í Bandaríkjunum síðastliðinn nóvember, en slík meðmæli birtast gjarnan á síðum notenda. „Við erum enn að fínstilla hvernig þetta virkar, en við ætlum að halda hópum um samfélagsmál og stjórnmál fyrir utan meðmæli okkar til lengri tíma og við ætlum að fylgja þeirri stefnu á heimsvísu. Svo ég sé skýr þá er þetta framhald af vinnu sem við höfum staðið í lengi til þess að kæla hitastigið og draga úr umræðum og samfélögum sem valda sundrung.“
„Fólk vill ekki að stjórnmál og rifrildi taki yfir upplifun þeirra“
Zuckerberg bætir því við að með sama hætti séu til skoðunar skref sem minnka pólitískt efni í fréttaveitu notenda sem birtist á Facebook forsíðu þeirra. „Svo ég sé skýr, þá gerum við fólki að sjálfsögðu ennþá kleift að taka þátt í pólitískum hópum og umræðum ef það vill. Þetta getur oft verið mikilvægt og hjálplegt. Slíkt getur verið leið til að skipuleggja grasrótarhreyfingu, hafa hátt um óréttlæti eða læra frá fólki með ólík sjónarmið. Svo við viljum að þær umræður haldi áfram að eiga sér stað. En ein helstu skilaboðin sem við heyrum frá samfélagi okkar núna er að fólk vill ekki að stjórnmál og rifrildi taki yfir upplifun þeirra af þjónustu okkar.“
Segir hann að lokum að þetta ár muni Facebook einbeita sér að því að hjálpa milljónum manns að taka þátt í „heilbrigðum hópum“ og vera enn sterkara afl til að stefna fólki saman.
Athugasemdir