***
Aukaspurningin fyrri:
Hver er konan sem hér er með Bono, söngvara U2, fyrir tuttugu árum? Geta má þess að hún hefur fengist við stjórnmál um ævina.
***
Aðalspurningar:
1. Hvað er minnsta ríki í heimi?
2. Rómverjar lögðu á sínum tíma undir sig England en náðu aldrei Skotlandi, þótt nokkuð væru þeir að þvælast þar. Hvað kölluðu Rómverjar Skotland?
3. Hvaða fótboltalið karla hefur oftast unnið Meistaradeild Evrópu eða Evrópubikarinn, eins og keppnin hét áður?
4. Ragna Kjartansdóttir heitir ung tónlistarkona á Íslandi, sem gerði garðinn frægan með hljómsveitinni Subterranean en haslaði sér svo völl sem rappari á eigin vegum fyrir um 20 árum. Svo hvarf hún úr sviðsljósinu í mörg ár en birtist aftur fyrir fáeinum misserum. Hvað er listamannsnafn Rögnu?
5. Ragnar Kjartansson — sem er ekki skyldur Rögnu Kjartansdóttur — hefur komið víða við í listinni, í myndlist, tónlist, hugmyndalist o.fl. Á tímabili fyrir mörgum árum notaði Ragnar listamannanafn — aðallega í gamni þó — sem mörgum þótti helstil dónalegt. Hvað kallaði hann sig þá?
6. Á fjórða áratugnum stimplaði Halldór Laxness sig heldur betur inn í íslenskar bókmenntir með þremur stórum og breiðum samtímasögum (eða svona því sem næst), en þær hétu — í stafrófsröð: Heimsljós, Salka Valka, Sjálfstætt fólk. En í hvaða röð komu þær út?
7. Í hvaða landi er höfuðborgin Búkarest?
8. Catherine Middleton heitir kona ein, sem gekk að eiga Vilhjálm Bretaprins fyrir tíu árum. Fyrir áhugafólk um kóngafólk vakti athygli að ungfrú Middleton er ekki af aðalsættum, heldur er hún dóttir miðstéttarhjóna sem ráku póstverslun með ... ja, ekkert svo rosalega virðulegan varning. Hvað seldu Middleton-hjónin, og gera líklega enn?
9. Hvaða ár renna stærstar um Reykjavík?
10. Hvaða lag söng Stefani Joanne Angelina Germanotta síðast, svo að vakti almenna athygli?
***
Aukaspurningin síðari:
Hvað heitir stúlkan á myndinni hér að neðan?

***
Svör við aðalspurningum:
1. Vatíkanið.
2. Kaledónía.
3. Real Madrid.
4. Cell7.
5. Rassi Prump.
6. Salka Valka — Sjálfstætt fólk — Heimsljós.
7. Rúmeníu.
8. Partívörur.
9. Elliðaárnar.
10. Bandaríska þjóðsönginn við innsetningarathöfn nýs forseta í Washington.
***

Svör við aukaspurningum:
Konan á efri myndinni er Nancy Pelosi, forseti fulltrúadeildarinnar í bandaríska þinginu.
Nýlegri mynd af henni er hér til hægri (eða einhvers staðar, ef þið eruð að skoða þetta í síma).
Á neðri myndinni má hins vegar sjá Dóru landkönnuð.
***
Athugasemdir