Sjávarútvegsfyrirtækið Skinney-Þinganes henti nýlega yfir einu tonni af frauðplasti á gámasvæði Sveitarfélags Hornafjarðar. Plastið ber ekkert úrvinnslugjald, en það gjald á að sjá um að koma plastinu í réttan farveg. Mikill kostnaður er við að flytja frauðplastið og koma því í endurvinnslu eða endurnýtingu. Um er að ræða yfir 30 bretti sem Skinney-Þinganes losaði sig við. Sá kostnaður mun lenda á íbúum sveitarfélagsins. Aðalsteinn Ingólfsson, forstjóri hjá Skinney-Þinganesi, kannaðist ekki við málið þegar Stundin hafði samband við hann.
Fyrir rúmum tveimur mánuðum komu starfsmenn Skinneyjar-Þinganess á gámasvæði Sveitarfélagsins Hornafjarðar með meira en tonn af frauðplasti. Um er að ræða gífurlega rúmmálsfrekan úrgang, þar sem frauðplast er mjög létt. Var frauðplastið á yfir 30 flutningabrettum. Greiða þarf sérstaklega fyrir úrgang þegar farið er á gámasvæði sveitarfélagsins, en Skinney-Þinganes greiddi urðunargjald fyrir plastið en ekki að koma því í endurvinnslu. Íbúar Hornafjarðar endurvinna nánast allan sinn úrgang.
Athugasemdir