Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra hefur opnað vefsíðu þar sem landsmönnum er boðið að gefa henni umsögn og einkunn. „Dæmdu dómsmálaráðherra“ er yfirskriftin.
„Hvernig finnst þér Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, dómsmálaráðherra, hafa staðið sig á kjörtímabilinu?“ er spurt og netverjum boðið að merkja við með broskalli með stjörnur í augunum, þumalputta upp, þumalinn niður eða reiðan kall að ausa fúkyrðum.
Smelli þátttakandi á jákvæða broskallinn eða þumalinn upp birtast skilaboðin „Gaman að heyra! Má ég vera í sambandi við þig áfram?“ Þar er viðkomandi boðið að skilja eftir nafn, netfang, fæðingarár og síma, auk þess að geta skrifað skilaboð um áherslumál sín. Þá er spurt hvort viðkomandi sé búsettur í Reykjavík, kjördæmi ráðherrans, en þingkosningar verða haldnar í september og prófkjör í Sjálfstæðisflokknum því haldin á næstu misserum.
Smelli þátttakandi á þumalinn niður eða reiða broskallinn koma upp skilaboðin „Leiðinlegt að heyra. Hvað finnst þér að ég geti gert betur?“ og form til að senda ábendingu á ráðherrann.
Athugasemdir