Sú afstaða sem felst í því að Kristján Þór Júlíusson sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra setti „læk“ við gagnrýna færslu á Facebook um umfjöllun RÚV um Samherja hefur ekki verið tekin til sérstakrar umræðu í ríkisstjórninni. Litið er svo á að afstaða Kristjáns Þórs til Samherjamálanna tveggja, Seðlabanka- og Namibíumálsins, sé hans eigin persónulega afstaða sem tengist ekki ríkisstjórnarsamstarfi Sjálfstæðisflokksins, Vinstri grænna og Framsóknarflokksins með beinum hætti.
Þetta kemur fram í svörum frá Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra við spurningum Stundarinnar um mat hennar á þessari afstöðu Kristjáns Þórs sem birtist í viðbrögðum hans við umrædda Facebook-færslu. Þar lækaði Kristján harða gagnrýni á umfjöllun RÚV um Seðlabanka- og Namibíumál fyrirtækisins. Kristján Þór hefur bæði verið stjórnarformaður Samherja sem og unnið hjá útgerðinni við sjómennsku í gegnum tíðina auk þess sem hann og Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, eru nánir vinir samkvæmt skilyrðum stjórnsýslulaga.
Athugasemdir