Sem betur fer er það að verða búið, árið sem hófst með snjóflóðum fyrir vestan og lauk með aurskriðum fyrir austan – sagt með fyrirvara og von um að fleiri áföll skelli ekki á.
Vetur rauðra viðvarana
Við biðum átekta eftir vorinu eftir grimman vetur, sem hafði svipt byggðarfélög sambandi við umheiminn og ungan mann lífinu þegar hann reyndi að koma rafmagni á í afskekktri sveit í aftakaveðri. Við vorum langþreytt og leið í febrúar, þegar rauð viðvörun var í fyrsta sinn gefin út á höfuðborgarsvæðinu og um leið landinu öllu. Árið var rétt að hefjast og við grunlaus um hvað biði okkar. Undir lok mánaðar greindist fyrsta tilfelli Covid-19 hér á landi og mánuði síðar varð fyrsta mannfallið. Í byrjun ágúst, þegar enn var verið að loka vegum vegna óveðurs, var það ekki lengur veðrið sem átti hug okkar heldur veiran.
Óvissustig almannavarna vegna óveðurs var fært á neyðarstig vegna veirunnar.
Veiran rændi okkur vorinu
Veiran rændi okkur vorinu – þegar sólin tók að rísa skall samkomubann á – samveru, faðmlögum og eðlilegu lífi. Nýr veruleiki minnti helst á vísindaskáldsögu, þar sem börnin gengu annað hvort ekkert í skóla eða aðeins nokkra tíma í senn. Skólinn var ekki lengur þeirra leikvöllur, frímínútur voru afnumdar og sömuleiðis hádegisverður á sal, þau sátu í sínu sóttvarnarhólfi, með grímu fyrir vitum og hæfilegri fjarlægð frá næsta nemanda. Annars staðar lágu aðstandendur á gluggum hjúkrunarheimila í von um að ástvinir þeirra yrðu þess áskynja vegna þess að heimsóknarbann gilti vikum saman. Allt í einu var ekkert sjálfsagt, ekkert eins og áður, ekki einu sinni samverustundir með fjölskyldunni. Allir gátu borið með sér smit, hættan leyndist alls staðar.
Öskur á Íslandi
Óttinn dregur fram það besta og versta í fólki.
Viðbrögð fólks voru jafn falleg og þau voru stundum ömurleg. Fólk flykktist að ellilheimilum þar sem það söng fyrir utan gluggana til að skemmta gamla fólkinu. Landsþekktur tónlistarmaður stóð fyrir skemmtunum öll föstudagskvöld. Daði Freyr sendi afmælisbarni í aðdáendahópnum rafrænar kveðjur í sóttkví. Alls konar fólk lagði sig fram við að gleðja aðra á meðan samkomubanni stóð.
Við reyndum að gleðja börn með bangsaleit og buðum útlendingum útrás fyrir gremju með því að varpa öskrum þeirra í gegnum gula hátalara. Hér. Hjá okkur. Á okkur.
Hér var líka öskrað. „Þú ert kórónavírusinn,“ hrópaði íslenskur strákur að konu af asískum uppruna. Aðrir léku sér að því að hósta á hrædda vegfarendur. Enn aðrir grobbuðu sig af því að sýna verslunarfólki stæla og leiðindi í uppreisn við sóttvarnareglur, með myndböndum af sér að hamast á starfsfólki verslana sem var aðeins að framfylgja þeim reglum sem því var sett, sem sett var fram sem einhvers konar hetjudáð í baráttu fyrir frelsi einstaklingsins.
Stigvaxandi óþol
Á meðan ákveðinn hópur lýsti vantrú á kerfinu með því að mótmæla almannavörnum, fór annar hópur alveg í hina áttina og gerðist sjálfskipaðir regluverðir, sem tóku upp myndbönd af fólki sem þótti haga sér með vafasömum hætti og skömmuðust óhikað í þeim sem stóðu of þétt saman, sátu of margir saman í bíl eða gleymdu grímunni.
Er ekki grímuskylda hér? spurði viðskiptavinur með hneykslunartón og beindi orðum sínum að mér þar sem ég stóð við afgreiðsluborð í apóteki. Fleiri tóku undir og ég hrökklaðist út, muldrandi lágróma að ég væri nú með mótefni - en gríman hefði bara gleymst. Grímuskylda var rétt að verða almenn og átti alls ekki við alls staðar. Almannavarnir gáfu reyndar út að fólki með mótefni bæri ekki skylda til að vera með grímu, en óþolið var áþreifanlegt. Kannski skiljanlegt, en óþægilegt og leiðinlegt.
Enn leiðinlegra að það leið ekki á löngu áður en ungur karlmaður ákvað að kenna skoðanasystkinum sínum ráð til að fá vottorð frá lækni og komast undan grímuskyldu.
Jólagjöf frá ríkinu
Óttinn er ekki ástæðulaus. Hér á landi hafa 5.588 veikst af veirunni og nú eru 28 látnir af völdum hennar. Fyrsti Íslendingurinn sem lést var kona sem bjó í Hveragerði, skömmu síðar lést eiginmaður hennar. Þungt skarð var hoggið í þá fjölskyldu – og fleiri. Hópsmit á Landakoti varð 13 að bana, þeirra á meðal var kona sem sótti Landakot í hvíldarinnlögn eftir beinbrot.
Fólkið sem lést á Landakoti var ekki gamalt og deyjandi fólk, eins og fyrrverandi dómsmálaráðherra stillti því upp þegar henni fannst helst til mikið úr málinu gert: „Það kemur fólki rosalega á óvart að níræður einstaklingur hafi dáið úr kvefi eða inflúensu. Nú er ég ekki læknir og ég spyr, það er í sjálfu sér ekkert óeðlilegt?“ Jú. Það er óeðlilegt að ekki hafi verið gripið til sérstakra ráðstafana til að vernda viðkvæman hóp sem var fastur í húsnæði, þar sem loftræsting var engin, minna en metri á milli sumra rúma og aðstæður buðu varla upp á annað en hópsmit, ef væran bærist á annað borð. Ekkert er eðlilegt við þessar aðstæður.
Það er heldur ekkert eðlilegt við að fyrirtæki fengu ríkisstyrk þrátt fyrir himinháar arðgreiðslur, meðal annars til að segja fólki upp, en námsmenn sem skráðu sig í bakvarðasveitina lentu í fjárhagsvanda þegar þeir fengu ekki námslán vegna þess. Eða að hjúkrunarfræðingar þurfi að heyja endalausa kjarabaráttu við ríkið, að Landspítalanum sé eilíft gert að skera niður og starfsfólkið fái svo einn skó í jólagjöf, að launum fyrir að leggja sjálft sig að veði alla daga. Á meðan laun forsætisráðherra hækkuðu um 73 þúsund krónur í desember. Gleðileg jól!
Lærdómurinn af veirunni
Ótti og reiði, þetta eru vondar tilfinningar sem spretta upp af kvíða, gera það gjarnan að verkum að fólk reynir að ná stjórn á aðstæðum með því að reyna að stýra umhverfi sínu. Í nafni óttans geta verstu hliðar fólks birst, skilningsleysi, tillitsleysi og reiði. Skortur á samkennd þegar við þurfum mest á henni að halda. Jafnvel þótt það sé skiljanlegt að finna fyrir ótta í miðjum heimsfaraldri, réttlætir það ekki vanvirðandi framkomu, frekar en afneitunin. Aukin hætta er á einkennum áfallastreitu og þunglyndis á meðal þeirra sem hafa smitast og þurft að sæta einangrun, dögum og jafnvel vikum saman. Eitrunartilfinningin sem fylgir því að vera smitaður er nógu þungbær til þess að fólk þurfi ekki líka að takast á við smitskömm, neikvætt viðmót eða umtal.
Ef það er eitthvað sem ég lærði og get miðlað eftir að hafa veikst af veirunni í mars þá er það þetta: Verið góð við fólkið ykkar. Sýnið kærleika í orðum og gjörðum, því það er ótrúlegt hvað hlý orð og lítil góðverk geta lyft sálinni mikið þegar fólk þarf á því að halda. Ég var ein og innilokuð í 28 daga, án snertingar við annað fólk. Ég lærði að meta lífsgæðin sem felast í samneyti við annað fólk og sömuleiðis því að geta gengið út til að anda að sér fersku lofti. Fyrir mig tók mikið lengri tíma að jafna mig á því ójafnvægi sem fylgdi einangruninni heldur en veikindum sem liðu hjá, því að vera rifin úr tengslum við alla sem mér þykir vænt um í svona langan tíma. Vont var að verða þess einnig áskynja að annað fólk nálgast eða talar jafnvel um þá sem hafa veikst út frá ótta, því að þeir séu eitraðir eða hættulegir. Ónotatilfinningin sem fylgir því að vera eitraður er vond, svo vinsamlegast verið góð. Gætið þess að ótti ykkar bitni ekki á öðru fólki. Ef þið eruð hrædd, passið þá vel upp á ykkur en reynið samt að vera nógu sterk til þess að sýna virðingu og hlýhug, af því að á endanum eru tengslin við annað fólk það eina sem skiptir raunverulega máli.
Nú þegar árið er gert upp sitja eftir litlu augnablikin sem skipta máli. Daginn sem ég greindist með Covid-19 fæddist bróðursonur minn. Eftir að 28 daga einangrun lauk frestaði ég því í sífellu að sjá litla drenginn, mér fannst ég ekki geta umgengist svo varnarlaust barn. Einn daginn hringdi bróðir minn og spurði hvort ég væri heima, hann væri á leiðinni með bakkelsi og barn í bílnum. Inni á heimilinu hélt ég enn fjarlægð þar til bróðir minn lagði barnið í fangið á mér. Ég hef sjaldan upplifað eins heilandi stund.
Sýnum hlýhug
Nokkrum dögum fyrir jól eru 124 í einangrun. Fjölskylda sem kom saman á Suðurlandi til að jarða fjölskyldumeðlim sem lést af slysförum veiktist af veirunni. Fyrst voru feðgarnir saman í einangrun, nú eru þau orðin fjögur. Öll á ókunnum slóðum, í einangrun yfir hátíðarnar. Hugsum hlýlega til þeirra.
Þegar við sáum loks fyrir endann á þessu ári féllu aurskriður fyrir austan. Almannavarnir lýstu enn á ný yfir hættustigi, því heilsu og öryggi fólks á Seyðisfirði var ógnað, og 120 yfirgáfu heimili sín. Í nótt leituðu tíu á fjöldarhjálparstöðvar. Enn ein aurskriðan hreif með sér heilt hús. Óvissustig ríkir enn í bænum og engin leið að vita hvenær íbúar komast aftur heim. Hugsum líka til þeirra.
Og allra annarra sem sjá ekki fram á gleðileg jól - hverjar svo sem ástæðurnar kunna að vera. Allskonar ástæður eru fyrir því að fólk finnur fyrir þjáningu yfir hátíðarnar, sem eru mörgum sérstaklega erfiður tími. Við eigum ekki öll öryggi og skjól, okkar eigin jólakúlu.
Nú fer árinu að ljúka og ástandinu vonandi líka. Bóluefni bíður. Í vor munum við vonandi finna léttinn sem fylgir hækkandi sól. Það koma þeir tímar sem við getum umvafið okkur vinum og vandamönnum á ný, fallist í faðma að vild og fagnað gleðistundum saman. Þá verður gaman.
Athugasemdir