Ég lærði á árinu hvernig andardráttur minn lyktar. Ég var hissa á sérkennilegri lyktinni sem ég fann undir grímunni. Það tók mig tíma að átta mig á því að ilmurinn var minn eigin. Blanda af ótta, ranghugmyndum og sjálfsþægð. Óþægileg ummerki míns innra lífs skullu þar með beint í andlitið á mér, sem gerði það að verkum að erfitt var að hunsa þau.
Morgun einn í mars opnaði ég augu mín og veröldin, eins og ég þekkti hana, var ekki lengur til staðar. Allt breyttist. Ég blikkaði augunum ítrekað svo vikum skipti, mánuðum jafnvel, nuddaði þau, vonaði að þetta myndi líða hjá, óskaði þess að þetta væri sjónvilla, sjóngalli. Það stafaði óþægilegur glampi af þeim hlutum sem ég hef aldrei viljað sjá, en glampinn varð að framljósi á bíl sem stefndi í áttina að mér, bremsurnar skræktu, hjólin ískruðu, ég vonaði að það væri ekki orðið of seint.
Í maí, þegar ég lagði lófann á hné vinkonu minnar til að hugga hana, sagði hún við mig að sú snerting væri sú allra mesta sem hún hafði komist í svo mánuðum skipti. Einhleyp, sjálfstætt starfandi listamaður af erlendum uppruna með undirliggjandi sjúkdóm, læst inni í íbúðinni sinni. Ég fór að fylla í eyðurnar varðandi fólk sem ég þekkti, en hér á Íslandi eru þau mín eina fjölskylda. Öll brothætt, en sumir berskjaldaðri en aðrir.
Í sama mánuði og Iðnó var lokað, hætti hjarta alþjóðlega listasamfélagsins að slá, og augu mín, rauð af því að hafa nuddað þau of mikið, beindust að Bíó Paradís, óviss um hvort ég ætti að halda mér vakandi, halda augunum opnum. Ég var hrædd um að með því að opna þau yrði ég enn þá villtari hérna í Reykjavík, að í Pósthússtræti yrði enginn póstur og strætóbiðstöð Bíó Paradís myndi leiða að engu.
Á árinu áttaði ég mig á því hversu nálægt vinir mínir eru, hversu langt í burtu fjölskyldan mín er, og að á Zoom Pro er ekki boðið upp á þann valmöguleika að litla frænka mín sitji í fanginu á mér. Það sem áður virtist vera aðeins fjögurra tíma flug varð að mánuðum af því að vita ekki hvenær ég fengi að sjá þau aftur. Ódýru flugmiðarnir hafa breytt um verðgildi. Falinn aukakostnaður við flug innifelur nú líf annarra, ísbjarna og jökla.
Ég hef lært á árinu að ég get beðið. Eftir að hafa lifað árum saman eins og allt sé aðeins einum smelli í burtu frá mér, lærði ég upp á nýtt leikskólaregluna að bíða kurteis í röð. Núna get ég beðið fyrir framan búðir, verið heima hjá mér í margar vikur og frestað ferðaplönum mínum um mánuði ef ekki ár.
Ég lærði að það er fólk sem hættir lífi sínu svo ég geti lifað laus við óþægindi, svo ég geti lifað við hlýju, öryggi, heilbrigði og sátt og að þau hafa gert það löngu áður en marsmánuð bar að garði og löngu áður en ég tók eftir því. Ég áttaði mig á því að ég verð að gera meira. Það er fólk sem gegnir þjónustu og ég vil líka þjóna tilgangi, á hvaða hátt sem er.
Í ágúst, þegar ég var að flytja í nýja íbúð, féll ég niður stiga haldandi á spegli. Hræðilegt slys. Ég slasaðist, þó meira andlega en líkamlega. Skilin eftir með stórt ör á handleggnum áttaði ég mig á því að ég er dauðleg og ég geri mistök, lítil, meðalstór og stór. Að falla niður stiga haldandi á spegli. Skrýtnasta og sársaukafyllsta leiðin til að sjá sjálfa sig. Við gætum notað það sem nýtt orðatiltæki. Kjarni ársins 2020. Mest auðmýkjandi reynslan.
Athugasemdir